Kjarninn hefur bréf sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sendi Persónuvernd þann 30. janúar síðastliðinn. Bréfið má rekja til athugunar Persónuverndar á samskiptum Sigríðar Bjarkar, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Hægt er að nálgast bréfið hér.
Eins og kunnugt er braut Sigríður Björk lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er hún miðlaði greinargerð um hælisleitandann Tony Omos til Gísla Freys. Þá er í úrskurði Persónuverndar gerðar alvarlegar athugasemdir við að miðlunin hafi farið í bága við kröfur um upplýsingaöryggi, þar sem ekki var beitt sérstökum ráðstöfunum á borð við dulkóðun eða læsingu með sterku lykilorði.
Svar Sigríðar Bjarkar fyrrgreindu bréfi til Persónuverndar er áhugavert hvað þetta varðar. Þar segir: „Ekki hefur tíðkast að gera sérstakar ráðstafanir við sendingu pósta til innanríkisráðuneytis né hafa tölvupóstar frá ráðuneytinu verið sérstaklega auðkenndir, til dæmis með atbeina rafrænna skilríkja eða þess háttar.“
Póstþjónn Stjórnarráðsins studdi ekki dulkóðuð samskipti
Í bréfi Sigríðar Bjarkar kemur fram að Ríkislögreglustjóri reki miðlægt upplýsinga- og fjarskiptakerfi lögreglu. Netfjarskipti á neti lögreglunnar séu dulkóðuð og því séu sendingar á borð við tölvupósta dulkóðaðar á milli starfsmanna innan lögreglunetsins. Póstþjónn ríkislögreglustjóra er þannig stilltur að við hverja sendingu á ytri póstþjón spyr hann mótaðilann hvort hann geti tekið við dulkóðaðri sendingu. Ef svarið er já, fer tölvupósturinn dulkóðaður frá einum póstþjóni til annars. Ef svarið er nei fer hins vegar pósturinn ódulkóðaður frá póstþjóni lögreglunnar.
Eftir fyrirspurn Persónuverndar um öryggi áðurnefndrar póstsendingar Sigríðar Bjarkar á viðkvæmum persónuupplýsingum til Gísla Freys, leitaði Sigríður upplýsinga hjá tölvudeild ríkislögreglustjóra, að því er fram kemur í bréfi hennar. „Í ljós kom að póstþjónn Stjórnarráðsins studdi ekki á þeim tíma dulkóðuð samskipti. Slík tilhögun varð hins vegar virk hjá þeim síðla árs 2014.“