Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV og stærsti eigandi útgáfufélags miðilsins, ætlar ekki að eiga hlut sinn í DV lengi. Eignarhald hans er tilkomið að mestu vegna þess að Gísli Guðmundsson, kenndur við B&L, lánaði Reyni Traustasyni fé fyrir tveimur árum og framseldi síðan kröfuna til Þorsteins. Kaup Þorsteins á öðrum hlutum í DV, meðal annars hlut Lilju Skaftadóttur, voru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Að hans sögn stendur til að gera fulla grein fyrir því, í smáatriðum, hvernig eignarhaldi á DV er háttað innan skamms.
Þetta er á meðal þess sem fram kom í byrjun mikils hitafundar sem nýir eigendur DV, undir stjórn Þorsteins, og Hallgrímur Thorsteinsson, nýráðinn ritstjóri DV, héldu með starfsfólki á mánudag. Kjarninn hefur upptöku af fundinum undir höndum og mun birta hana í nokkrum hlutum. Upptakan, sem er rúmir tveir tímar að lengd, mun síðan verða birt í heild sinni þegar umfjöllun Kjarnans um hana lýkur.
Á meðal þess sem Þorsteinn sagði við starfsfólkið í upphafi fundar var að nýir eigendur ætluðu sér ekki að skipta sér að ritstjórn blaðsins. Þeir væru heldur ekki að kaupa DV til að græða peninga.
Gríðarlegur hiti var í starfsfólkinu á fundinum og mikil óánægja gagnvart nýjum eigendum. Á meðal annarra hluta sem ræddir voru á fundinum, og koma fram á upptökunni, er aðkoma Sigurðar G. Guðjónssonar að yfirtökunni á DV, yfirlýsingar nýrra eigenda um rannsókn á starfsfólki, brotthvarf Reynis Traustasonar og áhyggjur blaðamanna á því að nýir eigendur, sem þeir telja marga hverja vera fjandsamlega DV, muni skoða tölvupóstanna þeirra.
Kjarninn mun birta fleiri fréttir upp úr upptökunni.
Hægt er að hlusta á brot af upphafi fundarins hér að neðan.
[audio mp3="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/09/upptaka_01.mp3"][/audio]