Við lifum sögulega tíma, ekki aðeins hér á landi, heldur ekki síðar erlendis. Ritstjórn Kjarnans fylgist vel með gangi mála, og má hér að neðan finna umfjallanir sem að mati ritstjórnar eru vandaðar, áhugaverðar og skemmtilegar, hver með sínum ólíka hætti.
Hvernig kemst maður á topp Everest? - The Washington Post.
Það er alltaf gaman þegar blaðamenn og myndritstjórarar stærstu fjölmiðla heimsins gefa sér tíma til þess að setja málin fram með metnaðarfullum hætti. Það er óhætt að segja að Washington Post hafi gert það í umfjöllun sinni um göngur og klifur á Everest, hæsta fjall jarðar. Grafík, texti, hljóðviðtöl og myndir. Allt sett fram með metnaðarfullum hætti, til þess að koma hlutunum sem best til skila.
Áhugaverð og flott umfjöllun.
Gleðilega páska Grenada! Ronaldo vs Messi - The Economist.
Portúgalinn Cristiano Ronaldo, knattspyrnumaður ársins hjá FIFA, hélt upp á Páskadag með því að skora fimm mörk í 9-1 sigri Real Madrid á Grenada. Ronaldo var kominn með þrennu í hálfleik, og bætti svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Að mati breska efnahagstímaritsins The Economist er Ronaldo þó skrefi á eftir argentíska snillingnum Leo Messi hjá Barcelona. Skemmtilegur munur á tölfræði leiðir þetta í ljós, en með sanni má segja þessir mögnuðu knattspyrnumenn beri höfuð og herðar yfir alla aðra.
Sjaldgæf og óvenjuleg umfjöllun um fótbolta.
Kerfið - The New Yorker.
Ef þú vilt lesa langar, vel skrifaðar og ítarlegar greinar um sértæk málefni, þá er The New Yorker fjölmiðillinn fyrir þig. Enginn fjölmiðill í heiminum kemst nærri honum þegar kemur að því að búa til langar greinar, þar sem vandaður texti er í fyrirrúmi, enda er það sérstaða þessa vandaða fjölmiðilsins.
Úttekt Adam Kirsch á Kerfinu, með stóru K-i, er ótrúleg lesning. Í henni er fjallað um nýjar heimildir sem sýna glögglega hvernig vinnu- og fangabúðir Nasista voru skipulagðar. Ótrúlegt er að hugsa til þess að grimmdin geti verið jafn kerfisbundin og þarna er lýst.
Áhrifaríkur texti um óhuggulega atburði.
Hrun geisladisksins - Vox.
Tónlistariðnaðurinn er að ganga í gegnum miklar breytingar. Á skömmum tíma hefur sala á geisladiskum hrunið. Árið 2003 komur meira en 90 prósent tekna í tónlistariðnaðinum frá sölu á geisladiskum, en talan var komin niður fyrir 30 prósent í fyrra. Árið 1985 komu meira en 55 prósent af tekjunum frá sölu á spólum (cassette).
Saga tónlistariðnaðarins, og tekjuskiptingar innan hans, er rakin í einföldu en sniðugu grafi í umfjöllun Vox.
Áhugaverðar upplýsingar settar fram á einfaldan og aðgengilegan hátt.