Kjölfesta verðbólguvæntinga hefur ekki enn hækkað fram úr öllu ráði, þrátt fyrir að verðbólga hafi ekki mælst hærri í níu ár, en fjárfestar búast við að hún haldist nálægt markmiði Seðlabankans að fimm árum liðnum. Þetta kemur fram í Twitter-færslu frá Agnari Tómasi Möller, sjóðsstjóra hjá Kviku eignastýringu.
Í færslunni sýnir Agnar verðbólguvæntingar fjárfesta eftir fimm ár til fimm ára, sem hann metur út frá verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði. Samkvæmt þeim útreikningum telja fjárfestar að meðalverðbólgan verði í kringum þrjú prósent eftir fimm til tíu ár, þótt þeir búist við að verðlag hækki nokkuð hraðar í náinni framtíð.
Þótt glíman við verðbólguna verði eflaust erfið þá metur amk skuldabréfamarkaðurinn það ekki svo að kjölfesta peningastefnu @sedlabanki_is sé rekin út í hafsauga - þ.e. verðbólguálag framtíðarinnar er ekki mikið yfir verðbólgumarkmiði, gefið hóflegt "áhættuálag" pic.twitter.com/Fvv6uuHKWG
— Agnar Tómas Möller (@atmoller) October 28, 2021
Fylgst með væntingum
Seðlabanka víða um heim fylgjast nú grannt með verðbólguvæntingum til langs tíma, þar sem mögulegt er að hækka þurfi vexti hraðar en ella ef þær fara að hækka vegna yfirstandandi verðbólguskots. Í síðustu viku gaf Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, til kynna að bankinn væri með augun á því hvort væntingar markaðsaðila væru að aukast, þar sem slík aukning gæti sjálfkrafa leitt til hærri verðbólgu.
Enn sem komið er hafa verðbólguvæntingar skuldabréfamarkaða vestanhafs ekki vaxið úr öllu valdi, framtíðar verðbólguvæntingar eru þar í dag um 2,4% - frávik frá verðbólgumarkmiði í Bandaríkjunum (2,0%) og Íslandi (2,5%) er því svipað þessa dagana, eða um hálft prósent.
Ekki séríslenskt vandamál
Líkt og Kjarninn hefur greint frá er verðbólgan hérlendis svipað stór og meðalverðbólgan á öðrum Vesturlöndum. Í byrjun árs var verðbólgan hér á landi þó hærri en í langflestum Evrópulöndum og hafði hún hækkað hraðast af öllum þeirra eftir að faraldurinn skall á. Síðan þá hefur aftur á móti haldist nokkuð stöðug hérlendis, á meðan verð á neysluvörum hefur hækkað hratt í nágrannalöndunum.
Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu verðbólgan 4,5 prósentum hérlendis í þessum mánuði og hefur hún ekki mælst hærri í níu ár. Ef húsnæði er hins vegar tekið úr verðvísitölunni mælist verðbólgan þó einungis þrjú prósent þessa stundina.
Til samanburðar nam verðbólgan í Bandaríkjunum 5,4 prósentum í síðasta mánuði, en 4,1 prósent í Noregi.
Of snemmt að segja til að mati SÍ
Við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sagði hún það vera áhyggjuefni að verðbólguvæntingar virðast hafa tekið að hækka á ný. Of snemmt sé þó að segja til um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið sé að veikjast.
Bankinn gefur sjálfur út verðbólguvæntingar á mismunandi mælikvarða, en þær byggja á skoðanakönnun sem var framkvæmd í ágúst og september. Samkvæmt henni er búist við að verðbólga muni nema rúmlega þrjú prósent til langs tíma, en þær væntingar hafa haldist óbreyttar frá því í vor.