Samkvæmt skoðanakönnun sem Maskína hefur framkvæmt undanfarna viku líst fleiri kjósendum Framsóknarflokksins í Reykjavík vel en illa á samstarf flokksins við Samfylkingu, Viðreisn og Pírata.
Tæplega 40 prósentum kjósenda flokksins líst illa á samstarfið á meðan að einungis 26 prósentum líst vel á það. Rúm 34 prósent segja að þeim lítist hvorki vel né illa á samstarfið, sem nú er orðið að veruleika.
Heilt yfir líst fleiri borgarbúum illa á samstarfið en vel, en þó munar ekki miklu og tæp fjörutíu prósent falla í sinn hvorn hópinn á meðan að tæplega fjórðungi líst hvorki vel né illa á samstarfið.
Langflestir vildu sjá Einar sem borgarstjóra
Könnun Maskínu náði til 615 kjósenda í Reykjavik og var framkvæmd dagana 1.-7. júní. Í henni var spurt hvern oddvitanna fjögurra fólk myndi helst vilja sjá sem borgarstjóra. Niðurstaðan varð sú að yfir helmingur aðspurðra, heil 52,8 prósent, vildu sjá Einar Þorsteinsson setjast í stól borgarstjóra, en 23,8 prósent vildu sjá Dag B. Eggertsson halda áfram sem borgarstjóra.
Eins og sagt var frá í gær munu þeir Dagur og Einar skipta með sér borgarstjórastólnum á kjörtímabilinu, en Einar tekur við af Degi sem borgarstjóri 1. janúar 2024.
Í könnun Maskínu eru svörin greind niður á kjósendur meirihlutans og kjósendur minnihlutans. Er kemur að kjósendum meirihlutans vildu 37,4 prósent þeirra sjá Einar sem borgarstjóra og 36,8 prósent Dag, en hjá kjósendum þeirra flokka sem sitja í minnihluta í borgarstjórn vildu 73 prósent sjá Einar í borgarstjórastólnum – og einungis 6,7 prósent Dag.
Alls vildu 17,6 prósent sjá Dóru Björt Guðjónsdóttur oddvita Pírata setjast í stól borgarstjóra, en 5,8 prósent töldu rétt að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir leiðtogi Viðreisnar yrði borgarstjóri.
Maskína spurði einnig að því hvern af oddvitunum kjósendur vildu síst sjá sem næsta borgarstjóra. Þar bar Dagur B. Eggertsson nokkra yfirburði, en 49,5 prósent svarenda sögðust síst vilja sjá Dag áfram sem borgarstjóra. Í þessari spurningu var Einar Þorsteinsson oftast nefndur af kjósendum Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata.
Íbúum vestar í borginni líst betur á meirihlutann
Íbúum í Miðborg og Vesturbæ og Hlíðum/Laugardal/Háaleiti og Bústöðum leist betur á samstarf flokkanna fjögurra en íbúum austan Elliðaáa. Í Miðborg og Vesturbæ leist 47 prósentum vel á samstarfið og 41 prósenti á öðrum svæðum innan Elliðaáa, en einungis 28 prósentum íbúa í Reykjavík austan Elliðaáa.
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.