Ríflega helmingur þeirra sem taka afstöðu vill breytingar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs, eða nær 53 prósent. Rúmlega 18 prósent vilja breytingar á stjórnarskrá en ekki þær sem stjórnlagaráð lagði til. Rösklega 13 prósent vilja að stjórnarskráin haldist óbreytt og nær 16 prósent segja engan af fyrrnefndum kostum lýsa skoðun sinni. Um 22 prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu.
Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um skoðun fólks á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og til breytinga á henni. Um netkönnun var að ræða og var úrtakið 1.626 manns, átján ára eða eldri. Svarhlutfall var 53,3 prósent.
Að því er fram kemur í samantekt Gallup á niðurstöðum könnunarinnar vilja karlar vilja frekar en konur að stjórnarskráin haldist óbreytt og þeir vilja einnig frekar en konur sjá aðrar breytingar en þær sem stjórnlagaráð lagði til. Fólk milli þrítugs og fertugs er líklegra en þeir sem yngri eða eldri eru, til að vilja stjórnarskrárbreytingar í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Fólk yfir fertugu er hins vegar líklegra en fólk undir fertugu til að vilja óbreytta stjórnarskrá.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að vilja breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Íbúar landsbyggðarinnar vilja hins vegar frekar en höfuðborgarbúar að hún haldist óbreytt.
Kjósendur Miðflokksins vilja óbreytta stjórnarskrá
Þeir sem kysu Pírata eða Samfylkingu ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri en aðrir til að vilja breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eða Viðreisn eru aftur á móti líklegri en aðrir til að vilja breytingar aðrar en þær sem stjórnlagaráð lagði til. Loks eru þeir sem kysu Miðflokkinn líklegastir til að vilja óbreytta stjórnarskrá en þar á eftir koma þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn og þá þeir sem kysu Framsóknarflokkinn.
Munur er á viðhorfi fólks eftir því hve vel það þekkir innihald núverandi stjórnarskrár og eftir því hve vel það þekkir innihald breyttrar stjórnarskrár að tillögu stjórnlagaráðs. Fólk virðist, samkvæmt könnuninni, þekkja álíka vel innihald núverandi stjórnarskrár og innihald breyttrar stjórnarskrár að tillögum stjórnlagaráðs. Um þrír af hverjum tíu segjast þekkja vel innihald núverandi stjórnarskrár, 35 prósent segjast þekkja það illa og álíka margir hvorki vel né illa. Nær 36 prósent segjast þekkja vel innihald breyttrar stjórnarskrár að tillögu stjórnlagaráðs, þriðjungur segist þekkja það illa og rúmlega 31 prósent hvorki vel né illa.
Karlar eru líklegri en konur til að segjast þekkja vel innihald bæði núverandi stjórnarskrár og þeirrar sem er breytt samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegra en fólk á öðrum aldri til að þekkja vel innihald núverandi stjórnarskrár, en fólk yfir fertugu líklegra en yngra fólk til að þekkja vel innihald breyttu útgáfunnar. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að segjast þekkja vel innihald þeirra beggja og það sama má segja um fólk með meiri menntun en minni.
Þeir sem kysu Samfylkinguna ef kosið væri til Alþingis nú eru líklegastir til að segjast þekkja vel innihald beggja. Þeir sem kysu Vinstri græn eru líklegri en þeir sem kysu aðra flokka til að segjast þekkja illa innihald núverandi stjórnarskrár, en þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn líklegri en þeir sem kysu aðra flokka til að segjast þekkja illa innihald breyttu útgáfunnar.
Spurt var:
Hver eftirfarandi fullyrðinga á best við um þína skoðun á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?
Hversu vel eða illa þekkir þú innihald núverandi stjórnarskrár lýðveldisins Íslands?
Hversu vel eða illa þekkir þú innihald breyttrar stjórnarskrár að tillögu stjórnlagaráðs?
Niðurstöður eru úr netkönnun sem gerð var dagana 18.-28. júní 2021. Þátttökuhlutfall var 53,3 prósent, úrtaksstærð 1.626 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.