Rúmlega 42 prósent landsmanna hafa fremur eða mjög miklar áhyggjur af því að Míla hafi verið seld erlendum aðilum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu. Tæp 30 prósent hafa hins vegar fremur eða mjög litlar áhyggjur, jafnvel engar, af sölunni á fyrirtækinu frá Símanum til franska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ardian.
Tuttugu og átta prósent svarenda í könnunni, sem Maskína framkvæmdi dagana 26. október til 4. nóvember, tóku síðan þá afstöðu að áhyggjur þeirra af sölunni væru í meðallagi. Svipað hlutfall karla og kvenna sagðist hafa áhyggjur af sölunni, en fleiri karlar, eða rúmlega þriðjungur, sögðust hafa litlar áhyggjur af sölu fyrirtækisins.
Eldri áhyggjufyllri
Er horft er til aldursdreifingar kemur í ljós að áhyggjur af sölu Mílu fara vaxandi með hækkandi aldri. Rúm 59 prósent svarenda yfir 60 ára aldri sögðust hafa miklar áhyggjur af sölunni og tæp 55 prósent þeirra sem eru 50-59 ára. Rúm 45 prósent fólks á aldrinum 40-49 sagðist sömuleiðis hafa miklar áhyggjur, en á meðal yngstu aldurshópanna eru áhyggjurnar minni.
Einungis rúm 17 prósent þeirra sem eru 18-29 ára sögðust hafa miklar áhyggjur af sölunni á Mílu og 35,6 prósent þeirra sem eru 30-39 ára gömul. Í yngstu tveimur aldurshópunum voru fleiri sem sögðust litlar eða jafnvel engar áhyggjur hafa, eða um 36 prósent í báðum hópum svarenda.
Fólk með grunnskólapróf er líklegra til þess að hafa miklar áhyggjur af sölunni á Mílu en þeir sem eru með framhaldsskólapróf eða iðnmenntun og þeir sem hafa háskólapróf, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Kjósendur Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks ólíklegastir til að vera með áhyggjur
Kjósendur bæði Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks skera sig markvert úr þegar spurt er um áhyggjur af sölunni á Mílu, en rúmlega helmingur kjósenda Viðreisnar segist hafa litlar eða engar af sölunni og tæplega helmingur þeirra sem segjast líklegir til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Kjósendur Miðflokksins og Sósíalistaflokksins skera sig úr í hina áttina, en tæp 72 prósent þeirra sem segjast líkleg til að kjósa Miðflokkinn hafa miklar áhyggjur af sölunni og tæp 69 prósent þeirra sem lýsa því yfir að þau myndu kjósa Sósíalistaflokkinn. Þar á eftir koma kjósendur Flokks fólksins, en rúm 59 prósent þeirra segjast hafa miklar áhyggjur af sölu Mílu.
Á milli 44-48 prósent kjósenda annarra flokka, Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknarflokks, segjast hafa miklar áhyggjur af sölunni á Mílu til Ardian.
Alls voru svarendur 1338 talsins í þessari netkönnun Maskínu, sem var lögð fyrir hóp fólks sem dreginn var með tilviljun úr Þjóðskrá.