Tvær af mest sóttu klámsíðum internetsins, Pornhub og Redtube, hafa slegist í hóp fjölda tæknifyrirtækja sem berjast gegn áformum bandarískra fjarskiptafyrirtækja um að hægja á þeim hluta netsins sem ekki borgar þeim fyrir aukin hraða. Fjölmargar vefsíður ætla að hægja á upphleðslu á síðum sínum næstkomandi miðvikudag í mótmælaskyni við áformin og til að sýna vefvöfrurum við hverju þeir megi búast verði vilji fjarskiptafyrirtækjanna ofan á.
Vilja búa til „hraðbrautir"
Baráttan um internetið snýst um vilja stærstu fjarskiptafyrirtækja Bandaríkjanna: Comcast, Verizon, Time Warner Cable og At&t, til að hagnast á nýjan hátt á internetinu. Hugmynd þeirra gengur út á að láta vefsíður greiða sérstök gjöld til sín til að fá aðgang að svokölluðum „hraðbrautum“, sem tryggja hraða upphleðslu á síðunum og betri streymi á efni þeirra. Þær vefsíður sem annað hvort vilja ekki eða geta ekki greitt fjarskiptarisunum mun verða refsað með því að hægt verður á upphleðslu og streymi á síðunum, jafnvel svo mikið að þær muni hreinlega ekki virka. Vefvafrarar munu því hætta að fara inn á þær og síðurnar í kjölfarið deyja.
Áformin hafa vakið gríðarlega athygli og reiði í Bandaríkjunum, enda talið að þau séu grímulaus árás á helstu grunnstoðina fyrir því að internetið virkar svona vel, þar ríkir fullkomið jafnræði. Hagsmunasamtök sem mynduð hafa verið gegn áformum fjarskiptafyrirtækjanna segja að net-hlutleysi (e. net-neutrality) hverfi ef þau fái að verða að veruleika og internetið, eins og við þekkjum það í dag, muni deyja í kjölfarið. Vefsíður í eigu þeirra fyrirtækja sem muni borga hátt verð fyrir aukin hraða muni einoka internetið, og þar með taka yfir dagskrárvald þess.
Amazon, Google, Facebook og Netflix á móti
Það eru ekki bara internet-notendur í Bandaríkjunum sem þurfa að hafa áhyggjur af þessari þróun. Talið er víst að fjarskiptafyrirtæki víðar í heiminum, meðal annars í Evrópu, fylgist vel með þróun mála þar til að kanna hvort stýring á hraða upphleðslu vefsíðna geti orðið arðbært viðskiptamódel í framtíðinni fyrir þau líka.
Bandarísku fjarskiptafyrirtækin, sem eru gífurlega óvinsæl á meðal neytenda þar í landi fyrir að veita slaka en dýra þjónustu, reka nú erindi um málið fyrir bandarísku fjarskiptanefndinni, Federal Communication Commission (FCC). Mörg stærstu tæknifyrirtæki heimsins, til dæmis Amazon, Google, Facebook og Netflix, hafa öll mótmælt áformunum harðlega.
Klámið og baráttan um internetið
Þau taka þó ekki þátt í aðgerðarátaki sem fjölmörg internetfyrirtæki hafa skráð sig til þátttöku í og kallast „baráttan um internetið“ (e. battle for the net). Í næstu viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 10. september, stendur til að halda „Hægan dag“ (e. go-slow day). Vefvafrar sem fara inn á þær síður sem taka þátt í átakinu munu þá geta upplifað hvernig uppáhaldssíðurnar þeirra myndu virka ef hægt yrði á þeim í takt við áform bandarísku fjarskiptafyrirtækjanna. Þeim verður síðan beint inn á síður þar sem þeir geta komið stuðningi sínum við internet-hlutleysi á framfæri við ráðamenn í Bandaríkjunum.
Á heimasíðu átaksins, má sjá að risavefsíður á borð við Reddit, Mozilla og Etsy munu taka þátt í mótmælunum. Þeim barst síðan óvæntur liðsauki í lok síðustu viku þegar tvær af stærstu klámvefsíðum heimsins, Pornhub og Redtube, bættust í hóp þeirra sem ætla að taka þátt í baráttunni á miðvikudaginn. Í frétt the Guardian um málið er haft eftir talskonu Pornhub að síðan muni ekki hægja á streymi notenda heldur verði risastórum skilaboðum komið fyrir á síðunni sem allir notendur muni þurfa að loka áður en þeir fá að svala upphaflegum tilgangi heimsóknar sinnar á síðurnar. Talskonan segir vonast til að ná til um 50 milljón manna á einum degi með þessum hætti.
Bæði Pornhub og Redtube eru í eigu fyrirtækis sem heitir Mindgeek, samsteypu sem er með höfuðstöðvar sinar í Lúxemborg og segist vera einn af fimm stærstu bandvíddar-notendum í heimi, með um 1,7 milljarða heimsóknir á mánuði.
John Oliver tók net-hlutleysi fyrir í þætti sínum í júní með eftirminnilegum hætti. Hægt er að sjá þáttinn hér að neðan.
[embed]https://www.youtube.com/watch?v=fpbOEoRrHyU[/embed]