Fjölmiðlar um víða veröld greindu fyrr í vikunni frá uppboði þar sem olíumálverk eftir Pablo Picasso var slegið á hæsta verði sem nokkru sinni hefur fengist fyrir listaverk. Það var þó sala á öðru listaverki sem vakti meiri athygli í Danmörku.
Á uppboðinu sem fór fram í New York á vegum uppboðshússins Christies var margt góðra muna eins og ætíð. Margir Danir sperrtu líklega eyrun þegar frá því var greint að stytta eftir svissneska listamanninn Alberto Giacometti hefði verið slegin á 141,3 milljónir dollara, sem samsvarar tæpum milljarði danskra króna, eða tæpum nítján milljörðum íslenskum. Þetta er sagt hæsta verð sem nokkru sinni hefur fengist á uppboði, fyrir myndastyttu.
Áhugi Dana á þessum tíðindum stafar ekki af því að þetta umrædda listaverk sé á leiðinni til Danmerkur, að minnsta kosti svo vitað sé. Christies gefur aldrei upp nafn kaupanda en forstöðumaður danska ríkislistasafnsins sagði í viðtali að það verð sem fengist hefði fyrir verkið samræmdist illa inneigninni á bankabók safnsins. Áhugi Dana á sér aðrar skýringar.
Bronsstyttan efir Alberto Giacometti sem fór á metfé á listaverkauppboði á dögunum. Mynd: EPA
Kerrukonan í Holstebro
Á torginu á göngugötunni fyrir framan gamla ráðhúsið í Holstebro stendur stytta, úr bronsi, sem við fyrstu sýn lætur ekki mikið yfir sér. Þetta er Konan á kerrunni (eða vagninum) eða Maren á kerrunni eins og heimamenn kalla hana líka en hún hefur aldrei fengið opinbert nafn. Um þessar mundir eru 50 ár síðan bæjarstjórnin í Holstebro ákvað að kaupa þetta listaverk Giacomettis (1901-1966) sem er í hópi þekktustu listamanna síðustu aldar. Styttuna vann Giacometti í gifs árið 1963 og hún var steypt í brons tveimur árum síðar.
Margir hafa velt því fyrir sér hvernig í veröldinni standi á því að þetta (mjög svo) verðmæta listaverk standi á göngugötu í Holstebro á Jótlandi. Á heimasíðu bæjarfélagsins er greint frá því að árið 1965 hafi bæjarstjórnin ákveðið að þar sem gott borð væri fyrir báru í fjárhirslum bæjarins væri lag að kaupa listaverk til að gleðja heimamenn og auðga andann.
Skömmu áður hafði Louisiana safnið norðan við Kaupmannahöfn haldið sýningu á verkum Giocemettis, þangað höfðu tveir eða þrír bæjarfulltrúar frá Holstebro lagt leið sína og hrifist af verkum hans. Nefnd á vegum bæjarins lagði svo leið sína til Parísar og þar var gengið frá kaupum á verkinu sem kostaði 210 þúsund danskar krónur, sem þótti ærin upphæð. Einhvern grun hafði bæjarstjórnin um að ekki yrðu allir bæjarbúar jafn upprifnir yfir þessari styttu, kosningar voru að nálgast og öruggast þótti að setja styttuna í geymslu þangað til þær yrðu afstaðnar.
Úr geymslunni á kirkjutorgið og þaðan í göngugötuna
Þann 10. mars 1966 kom Konan á kerrunni fyrir augu bæjarbúa í Holstebro. Viðtökur voru blendnar, sumir hrósuðu styttunni, og bæjarstjórninni, öðrum fannst lítið til hennar koma og nær hefði verið að nota peningana í eitthvað þarflegt, eins og það var orðað. Sumir sögðu þessa konu bersýnilega þjást af næringarskorti og um skeið mátti iðulega á morgnana sjá samlokur eða annan mat við fætur hennar.
Tólf árum síðar var styttan svo flutt á núverandi stað, fyrir framan gamla ráðhúsið við Nörregade, aðal göngugötu bæjarins. Óhætt er að fullyrða að hún hefur vaxið í áliti meðal bæjarbúa enda kannski orðin þekktari en allir hinir (35 þús.) til samans. Sérstök samkoma var haldin árið 2006 í tilefni þess að þá voru liðin fjörutíu ár frá því að styttan var sett upp. Árið 2009 var efnt til samkeppni um tónverk til heiðurs henni, fjörutíu og eitt verk barst, Færeyingurinn Pauli i Sandagerdi bar sigur úr býtum.
Hefur einkalyftu
Bæjarfulltrúi í Holstebro sagði að í ljósi fréttanna um söluverð styttunnar sem seld var á uppboðinu í New York mætti öruggt telja að einhverjir gætu vel hugsað sér að komast yfir Konuna á kerrunni, án þess þó að borga fyrir. Ekki er talin mikil hætta á að henni verði rænt um hábjartan dag þegar fólk er á ferli í göngugötunni.
Til að koma í veg fyrir að reynt verði að ræna henni í skjóli nætur er hún einfaldlega sett í geymslu, neðanjarðar. Hún stendur á einskonar lyftupalli, skýtur upp kollinum klukkan tíu á morgnana og hverfur svo klukkan níu á kvöldin í híði sitt, undir göngugötunni.