Konur hafa fengið inngöngu í einn elsta og virtasta golfklúbb í heimi, The Royal and Ancient Golf Club of St Andrews í St Andrews í Skotlandi. Frá stofnun klúbbsins árið 1754 og þangað til fyrr í þessari viku höfðu eingöngu karlar fengið að vera meðlimir í klúbbnum. Konur máttu spila golf á golfvellinum, en máttu ekki koma inn í golfskálann.
Í september í fyrra greiddu meðlimir klúbbsins atkvæði um það hvort leyfa ætti konum aðgang að honum, og það var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, eða 85 prósentum atkvæða.
Í tilefni af þessu voru sjö konur gerðar að heiðursmeðlimum í klúbbnum. Sex þeirra eru þekktir golfarar og meðal bestu kvengolfara heims, og sú sjöunda er Anna prinsessa í Bretlandi.
Anna prinsessa á Ólympíuleikunum í London árið 2012.
Laura Davies er talin besti kvengolfari Bretlands og hefur sigrað á fjöldamörgum stórmótum. Renée Powell var önnur blökkukonan til að spila á atvinnumannamóti, hefur keppt í yfir 250 golfmótum og varð fyrsta konan til að stýra golfvelli í Bretlandi. Belle Robertsson er talin einhver besti kvengolfari Skotlands. Lally Segard er einn fremsti kvengolfari Frakklands og Louise Suggs var frumkvöðull í golfi og stofnaði meðal annars LPGA, samtök atvinnukvengolfara í Bandaríkjunum. Annika Sorenstam er einn fremsti golfari heimsins og sigraði á 89 mótum um allan heim áður en hún hætti keppni árið 2008 til þess að stofna akademíu og styrktarsjóð fyrir unga golfara.
Anna prinsessa hefur mikla tengingu við Skotland og við íþróttahreyfinguna. Hún keppti í hestaíþróttum á Ólympíuleikunum í Montréal árið 1976 og á Evrópumótum. Hún hefur einni
„Þetta er sögulegur dagur fyrir klúbbinn og við gætum vart verið stoltari yfir því að bjóða velkomnar konur sem hafa verið virtar í golfi í mörg ár og hafa verið frábærir spilarar og meistarar. Þær eru einstaklega góð viðbót við hóp heiðursmeðlima okkar og verða sendiherrar klúbbsins eins og þær hafa verið fyrir golfíþróttina alla sína ferla,“ sagði George Macgregor, forseti klúbbsins, við tilefnið.