Ágreiningur var um það innan dómstólaráðs hvort fara skyldi að beiðni yfirvalda um það að tilnefna konu ásamt karli í nefnd sem metur hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttar- og héraðsdómara. Konurnar í ráðinu vildu tilnefna konu en karlarnir ekki. Karlarnir voru í meirihluta dómstólaráðs og því varð ákvörðun þeirra ofan á.
Dómstólaráðsmennirnir Þorgerður Erlendsdóttir og Þórdís Ingadóttir vildu að farið yrði að fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins og jafnréttislögum. Þetta kemur fram í bréfum frá dómstólaráði til dómsmálaráðuneytisins, sem sjá má hér að neðan. „Dómstólaráðsmennirnir Þorgerður Erlendsdóttir og Þórdís Ingadóttir standa ekki að þessari ákvörðun og telja að lög standi til þess að verða við beiðni ráðherra eins og hún er fram sett,“ segir í bréfinu sem Símon Sigvaldason undirritaði fyrir hönd dómstólaráðs. Það er svo aftur ítrekað í seinni bréfum að hvorki Þorgerður né Þórdís standi að afstöðu ráðsins í málinu.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær telja dómstólaráð, Hæstiréttur og Lögmannafélag Íslands að þau séu ekki bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa sína fulltrúa í dómnefndina. Þau telja að ákvæði um nefndina í lögum um dómstóla gangi framar jafnréttislögunum, og eftir bréfaskriftir við dómsmálaráðuneytið ákvað ráðuneytið að láta undan og skipa eingöngu karla í nefndina. Nefndin ákvað á dögunum að Karl Axelsson væri hæfastur umsækjenda til að gegna embætti hæstaréttardómara og hefur ákvörðunin beint athygli að því hversu fáar konur eru dómarar og að skipan þessarar nefndar.
Í fimmtándu grein jafnréttislaganna er kveðið á um að hlutfall hvors kyns fyrir sig skuli ekki vera minna en 40 prósent í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera, þegar fulltrúarnir eru fleiri en þrír.
Innanríkisráðuneytið hefur sagt að það telji það alveg skýrt að ákvæði jafnréttislaga eigi við í þessu tilviki líkt og annars. Þá skoðun hafa fjölmargir aðrir viðrað, meðal annars Jafnréttisstofa og tíu kvennasamtök.