Óskýr ljósmynd af starfsmanni morgunkornsframleiðandans Kelloggs, standandi í beljandi rigningu og hávaða roki með kröfuskilti á lofti, hefur beint kastljósinu að verkfalli um 1.400 verkamönnum fyrirtækisins. Kjaraviðræður hafa staðið í heilt ár en sigldu í strand í byrjun október og verkfallið hefur nú staðið í tæpar tvær vikur. Starfsfólkið sakar fyrirtækið um bolabrögð; að lækka grunnlaun nýrra starfsmanna, ennfremur að lækka orlofsgreiðslur og fækka orlofsdögum, skerða heilbrigðistryggingar og eftirlaun. Þá sakar það sem og verkalýðsfélagið sem háir baráttuna með því, Kelloggs um að ætla sér að flytja verksmiðjur til Mexíkó til að draga úr launakostnaði og komast hjá ströngu eftirliti Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna.
Talsmenn Kelloggs segja tilboð þeirra í viðræðunum „tekið úr öllu samhengi“ og neita því að til standi að flytja starfsemi til Mexíkó. Þeir segja verkalýðsfélagið hafa gefið félagsmönnum rangar upplýsingar sem mikilvægt sé að leiðrétta.
Þrátt fyrir verkfallið eru verksmiðjurnar sem eru í Nebraska, Michigan, Pennsylvaníu og Tennessee, ekki mannlausar því fyrirtækið hefur ráðið staðgengla, fólk sem er ekki í verkalýðsfélaginu. Kris Bahner, talsmaður Kelloggs, segir fyrirtækið „tilbúið og viljugt“ til að halda kjaraviðræðunum áfram en þar til samningar náist „höfum við ábyrgðarhlutverki að gegna gagnvart fyrirtækinu, viðskiptavinum og neytendum til að halda verksmiðjunum okkar gangandi – þrátt fyrir verkfallið“.
Framleiðsla Rice Krispies, Raisin Bran, Froot Loops, Special K, hins hefðbundna Kornflex og Frosted Flakes, svo nokkur dæmi séu tekin, mun því halda áfram eftir að hafa stöðvast tímabundið vegna verkfallsins. Hópur sautján þingmanna á ríkisþingi Nebraska hafa sent Steven Cahillane, forstjóra Kelloggs bréf þar sem „staðföstum stuðningi“ við starfsfólkið sem er í verkfalli er lýst yfir.
Kellogg’s is openly “pre-hiring for strike replacement workers” who will “cross the picket line”.
— Salem Snow (@Salem4Congress) October 14, 2021
Don’t cross the picket line. Protect the unions. Protect the workers. pic.twitter.com/oEXyIN8R2F
„Þessi kornótta, þokukennda ljósmynd segir meira en þúsund orð,“ skrifaði verkalýðsfélag starfsmannanna sem er hluti af regnhlífarsamtökum sem heita því langa nafni Bakery, Confectionary, Tobacco Workers, and Grain Millers International Union, við myndina er það deildi henni á samfélagsmiðlum í vikunni. Síðan þá hefur henni verið deilt ótal sinnum og meira fjallað um kjarabaráttuna í fjölmiðlum en áður hafði verið gert.
A Kellogg's worker on strike last night holding down the picket line through torrential rain in Omaha, Nebraska
— Michael Sainato (@msainat1) October 13, 2021
via @Kelloggstrike Facebook page pic.twitter.com/27Gp9pD61b
Myndin er tekin í Omaha í Nebraska af Erin Shaffer sem hefur unnið hjá Kelloggs frá því í sumar. Hún segist í samtali við Newsweek hafa tekið myndina klukkan þrjú að nóttu. „Mér fannst hann sýna svo mikla einurð að standa þarna úti í úrhellis rigningu.“ Maðurinn, sem var að sinna verkfallsvörslu við verksmiðjuna, lét engan bilbug á sér finna þrátt fyrir kaldranalegar aðstæðurnar sem sköpuðust er mikið rigningarveður skall á, tjöld verkfallsvarðanna fuku um koll og starfsmenn Kelloggs sem voru á vettvangi flúðu í bíla sína. Allir nema einn. „Fólk er orðið þreytt á græðgi stórfyrirtækja,“ segir Shaffer. „Það er fullt af ástríðufullu fólki þarna úti sem mun ekki gefast svo auðveldlega upp.“
1.400 bræður og systur
Maðurinn á myndinni heitir Jason Schultz. Hann er 44 ára og vinnur á lyftara í verksmiðju Kelloggs. Sem verkfallsvörður kemur það í hans hlut að gæta þess að staðið sé vörð um öll sex hliðin að verksmiðjulóðinni – allan sólarhringinn – og gæta þess að verkfallsbrot séu ekki framin. Hann segist í samtali við Vice hafa haldið verkfallsvörslunni áfram þrátt fyrir óveðrið til að láta alla vita að „við erum ekkert á förum“. Hann segir marga sjá einn mann í rigningu og roki á mynd Shaffer. „En í mínum huga erum við 1.400 bræður og systur sem stöndum saman sem ein manneskja.“
Workers go on strike against Kellogg's U.S. cereal plants https://t.co/QUK3yR7THV
— Jeffrey Levin (@jilevin) October 5, 2021
Meðal þess sem starfsfólk Kelloggs hefur lýst í viðtölum er að vinnuframlag þeirra hafi aukist í faraldrinum en að launin hafi ekki verið í samræmi við það. Fyrirtækið ætli sér að breyta kjörum nýrra starfsmanna þannig að tímakaup þeirra lækki og ýmis réttindi skerðist. Verkalýðsfélagið hefur auk þess lýst þeim áhyggjum sínum að þetta sé aðeins fyrsta skrefið og að þegar fram líði stundir muni áformaðar kjarabreytingar ná til alls verkafólksins, líka þeirra sem hafi unnið þar um árabil.
Schultz fetaði í fótspor föður síns og hóf störf hjá verksmiðju Kelloggs í Omaha fyrir áratug. Kjörin hafi verið sanngjörn á þeim tíma auk þess sem atvinnuöryggið var mikið. En undanfarið varð breyting á. „Þetta er ekki eins og það var. Þeir hafa tekið ýmislegt frá nýjum starfsmönnum sem við viljum að verði sett aftur á. Þetta er gott starf ef jafnvægi fæst á ný.“
Þegar faraldurinn stóð sem hæst og milljónir manna í Bandaríkjunum sem og annars staðar í heiminum unnu störf sín heima ef það var unnt, mætti verkafólkið í verksmiðjur Kelloggs. Það var verulega undirmannað og vinnuálagið jókst til muna. Schultz segist ekki hafa getað tekið frídag mánuðum saman. Hann hafi bókstaflega unnið alla daga á löngu tímabili, líka um helgar.
Á sama tíma seldust vörur Kelloggs sem aldrei fyrr og vasar æðstu stjórnenda bólgnuðu út. Í hlut forstjórans Steve Cahillane komu 11,6 milljónir dala á árinu 2020, tæplega einn og hálfur milljarður íslenskra króna. Í ár hafa tekjur hans haldið áfram að hækka.