Í byrjun desember höfðu um 4.300 börn verið skráð hjá Fæðingarorlofssjóði vegna orlofstöku á árinu. Mesti fjöldi fæddra barna á einu ári á Íslandi var 4.521 árið 2010, í kjölfar hrunsins. Nú stefnir í að árið 2021 verði það stærsta til þessa auk þess sem feður hafa tekið meira orlof en verið hefur á undanförnum árum. Það leiðir til þess að kostnaður ríkissjóðs vegna fæðingarorlofs hafa hækkað skarpt og stefna í að verða 19,3 milljarðar króna í ár.
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar kom fram að 19,6 milljarðar króna myndu fara í að greiða fyrir fæðingarorlof úr fæðingarorlofssjóði á næsta ári og því ljóst að búist var við stóru barnaári 2022 líka.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarpsins, sem samanstendur af nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, kemur hins vegar fram að sú upphæð muni sennilega ekki duga. Samhliða lengingu fæðingarorlofsréttar 2020 og 2021 hafi nýting réttarins einnig smám saman verið að dreifast á lengri tíma, og þá sérstaklega hjá feðrum.
Tólf mánaða orlof
Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með innheimtu tryggingagjalds, líkt og ýmsir aðrir kostnaðarsamir angar almannatryggingakerfisins. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að tekjur ríkissjóðs af innheimtu tryggingagjalds verði 107 milljarðar króna á árinu 2022.
Almennt tryggingagjald var lækkað tímabundið um síðustu áramót um 0,25 prósentustig, í 4,65 prósent. Sú lækkun mun ganga til baka í byrjun næsta árs og almenna tryggingagjaldið fer þá aftur upp í 4,9 prósent.
Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára og töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.
Tímalengd orlofs er 12 mánuðir. Hvort foreldri á rétt á sex mánaða orlofi en geta framselt sex vikur sín á milli. Mánaðarlegar greiðslur eru 80 prósent af meðaltali heildarlauna, en aldrei hærri en 600 þúsund krónur á mánuði.