Á árinu 2021 fluttu alls 780 fleiri íslenskir ríkisborgarar aftur til Íslands en fluttu frá landinu. Árið áður var sá fjöldi 550. Því hafa samanlagt 1.330 íslenskir ríkisborgarar flutt heim umfram þá sem hafa flutt út á þeim árum sem kórónuveirufaraldurinn hefur geisað.
Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um mannfjöldaþróun á Íslandi.
Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem áður var og mesti fjöldi íslenskra ríkisborgara sem skilað hefur sér heim umfram þá sem hafa flutt burt. Frá árinu 2010 og út árið 2019 voru brottfluttir alltaf fleiri innan hvers ár en aðfluttir að árinu 2017 undanskildu. Það ár var mikið góðærisár og þá fluttu 360 fleiri Íslendingar til landsins en frá því.
Sú þróun snerist við á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn. Á árunum 2018 og 2019 fluttu samtals 265 fleiri Íslendingar frá landinu en til þess.
Mesta aukning síðan á níunda áratugnum
Þegar tölur fyrir árið 2020 voru teknar saman í fyrra sagði í frétt Hagstofunnar að fjöldi þeirra íslenskra ríkisborgara sem fluttu til landsins á því ári umfram þá sem fluttu frá því væri sá mesti frá 1987. Fjöldinn í fyrra var meiri.
Sú óvissa sem fylgir þróun heimsfaraldurs hefur einnig dregið úr áætlunum um utanför af ýmsum ástæðum. Reglur á landamærum og sóttvarnarráðstafanir hafa til að mynda á stundum breyst skyndilega til að takast á vöxt í útbreiðslu.
Útlendingum fjölgað um rúman Hafnarfjörð
Alls voru aðfluttir umfram brottflutta 4.620 í fyrra. Langflestir þeirra voru erlendir ríkisborgarar, eða 3.860 talsins. Þeir eru nú 14,5 prósent landsmanna.
Eðlisbreyting hefur orðið á fjölda erlendra ríkisborgara hérlendis á undanförnum rúma áratug. Snemma árs 2010 voru þeir 21.610 en um síðustu áramót voru þeir orðnir 54.770 talsins. Þeim hafði því fjölgað um 33.160 á umræddum tímabili, eða um 153 prósent. Það er 3.400 fleiri einstaklingar en búa í Hafnarfirði, þriðja stærsta sveitarfélagi landsins, og fleiri en búa í Garðabæ og Mosfellsbæ samanlagt.
Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað um 58.090, en þeir voru 376 þúsund alls í lok síðasta árs. Það þýðir að 57 prósent allrar fólksfjölgunar á Íslandi frá 2010 er vegna aðflutnings erlendra ríkisborgara.