Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur boðað að þingkosningar í landinu fari fram þriðjudaginn 1. nóvember, eða eftir tæpar fjórar vikur.
Þetta kunngjörði Frederiksen á blaðamannafundi í morgun, en segja má að hún hafi verið þvinguð til þess að boða til kosninga fyrr en hún ef til vill hefði kosið.
Einn þeirra flokka sem styðja minnihlutastjórn Sósíaldemókrata, Radikale Venstre, var nefnilega búinn að gefa það út að ef ekki yrði boðað til kosninga fyrir morgundaginn myndi flokkurinn velta stjórninni úr sessi.
Vill mynda ríkisstjórn yfir miðjuna
Frederiksen sagði á blaðamannafundinum, samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins DR, að flokkur hennar myndi fara til kosninga með það í huga að mynda breiða ríkisstjórn, ríkisstjórn yfir miðjuna á danska stjórnmálasviðinu og ekki eins flokks minnihlutastjórn eins og flokkurinn situr í nú.
Forsætisráðherrann sagði að þeir erfiðu tímar sem nú væru uppi kölluðu á aukna samvinnu. Nú væri tíminn til þess að „prófa nýtt ríkisstjórnarform í Danmörku“.
Samkvæmt frétt DR var það að heyra á Frederiksen að henni þætti þetta ekki ákjósanlegur tími til þess að ganga til kosninga, en hún sagði að á sama tíma og alþjóðlegar krísur á sviði varnarmála, orkumála og efnahagsmála væru við að etja væri „sérkennilegt“ að vera að hefja kosningabaráttu.
Fylgi dreifist víða
Fjöldi flokka verður í framboði í kosningunum sem fyrirhugaðar eru. Sósíaldemókratar eru langstærsti flokkurinn samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum og eru að mælast með hátt í 25 prósenta fylgi í flestum skoðanakönnunum upp á síðkastið.
Einungis tveir til þrír flokkar til viðbótar eru að mælast með yfir tíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum, en það eru hægriflokkurinn Venstre, sem mældist með 11,9 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup, og Íhaldsflokkurinn sem mældist með 12,3 prósent í sömu könnun.
Þá hafa Danmerkurdemókratar, nýlega stofnaður flokkur Inger Støjberg, verið að mælast með um og yfir tíu prósenta fylgi. Í nýjustu könnun Gallup var flokkurinn með 9,8 prósenta fylgi.
Í Danmörku þurfa flokkar einungis að fá tvö prósent atkvæða á landsvísu til þess að hljóta þingmenn kjörna.
Tíu flokkar mælast yfir þeim þröskuldi í nýjustu könnun Gallup, jafnmargir og eiga sæti á þingi í dag.
Sá ellefti stærsti samkvæmt könnun Gallup, Danski þjóðarflokkurinn, mælist með 1,9 prósent fylgi.