Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að alþingiskosningarnar í lok september snúist „fyrst og fremst um það að halda vinstristjórn frá völdum“.
„Að hér verði ekki til vinstristjórn eftir kosningar, það er stóra málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið aflið sem hefur komið í veg fyrir það hingað til og það er það sem við stefnum á að gera,“ sagði Bjarni í viðtali við Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem er byrjaður að stýra pólitískum umræðuþáttum á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Ekki óskastaða að mynda stjórn yfir miðju en samt fyrsti kostur
Í þætti Páls, sem var á dagskrá í gær, var Bjarni spurður að því hvaða ríkisstjórn hann vildi sjá eftir kosningar. Hann sagði að fyrsti kostur sinn, ef að núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur héldi velli, væri að gefa því stjórnarmynstri séns. Það væri þó ekki óskastaðan í sjálfu sér að mynda stjórn yfir miðju, en ef það væri það sem þyrfti til þess að halda vinstristjórn frá völdum myndi hann gera það.
„Ef við þurfum að mynda svona breiða stjórn aftur til að koma í veg fyrir að það gerist, þá munum við gera það. Ef við getum myndað ríkisstjórn á grundvelli sterkrar stöðu eftir kosningar sem er meira í takt við þær helstu áherslur sem við erum með, til dæmis í efnahagsmálum og í grænum málum, orkubyltingunni, þá myndum við skoða þann möguleika. En fyrsti kosturinn ef stjórnin heldur velli hlýtur að vera að gefa því séns,“ sagði Bjarni.
Páll og Bjarni ræddu um stöðuna í stjórnmálunum og stöðu Sjálfstæðisflokksins í þættinum í gær. Páll sagði að fylgi Sjálfstæðisflokksins virtist hafa tvíklofnað, til Viðreisnar annars vegar og Miðflokksins hins vegar. Bjarni gaf ekki mikið fyrir að það væri að hafa einhver áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins.
„Mér finnst svolítið spaugileg þessi kenning þín um að Miðflokkurinn sé klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum, þetta er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sem féll á landsþingi Framsóknarflokksins … og við bættum við okkur fylgi þegar Viðreisn varð til,“ sagði Bjarni.
Formaðurinn sagði að hann væri ekkert sérstaklega ánægður með fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og það er í dag og stefnan væri að auka það. Hann sagðist ekki telja nein efri mörk á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn gæti bætt við sig miklu fylgi.
Hann sagði Viðreisn hafa orðið til vegna ágreinings innan Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál. „Hvar er Evrópustefna þess flokks í dag? Hvernig gengur að reka þá stefnu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið? Erum við ekki að fara í kosningar núna bráðum? Ef að það var málið sem olli klofningnum, þá segi ég, við gerðum rétt með því að gefa ekki eftir í því máli,“ sagði Bjarni.