Samfylkingin verður ótvíræður sigurvegari borgarstjórnarkosninganna í dag. Þetta er niðurstaða kosningaspár Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði. Framsóknarflokkurinn er nú orðinn stærri í Reykjavík en Vinstri grænir, í fyrsta sinn í kosningabaráttunni. Fylgi Bjartar framtíðar er í fyrsta sinn orðið minna en 20 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn er nú næst stærsta framboðið í Reykjavík. Sex framboð fá fulltrúa kjörna í borgarstjórn. Samfylkingin er lang stærst með sex fulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð fá þrjá og oddvitar Pírata, Framsóknar og flugvallarvina og Vinstri grænna ná kjöri.
Þróun á fylgi framboðanna
Kosningaspá keyrð frá 26. febrúar til 30. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Framboð Dögunnar og Alþýðufylkingarinnar munu ekki fá brautargengi samkvæmt kosningaspánni. Nýjasta kosningaspáin sem gerð var í gærkvöldi er líklegasta niðurstaða kosninganna miðað við síðustu fjórar kannanir sem gerðar hafa verið á fylgi framboðanna undanfarna daga. Engin könnun verður birt í dag, kjördag, lögum samkvæmt. Kosningaspáin birtist því hér í síðasta sinn fyrir kosningarnar í ár.
Fjöldi fulltrúa í borgarstjórn
[visualizer id="4611"]
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallavina, er nú tólfti fulltrúinn sem kjörinn verður í borgarstjórn. Sjötti fulltrúi Samfylkingarinnar er fimmtándi og síðasti fulltrúinn sem kjörinn verður. Næstur inn er fjórði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og þar á eftir er fjórði fulltrúi Bjartar framtíðar.
Borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins (nú Bjartar framtíðar) og Samfylkingarinnar heldur, miðað við þessa niðurstöðu, með níu fulltrúa. Telst það líklegt að meirihlutasamstarfið haldi áfram á næsta kjörtímabili fari kosningarnar svona.
Fylgi gæti stjórnast af kjörsókn
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, lét hafa eftir sér í fréttum RÚV í gærkvöldi að kjörsókn gæti haft áhrif á dreifingu fylgisins í Reykjavík. Kjörsókn í borgarstjórnarkosingunum 2010 var aðeins 73,4 prósent, sú minnsta í borginni frá upphafi. Kjörsókn á landsvísu árið 2010 var jafnframt sú minnsta allra tíma í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi.
Rétt fyrir lokun utankjörfundar í Laugardalshöll í gærkvöldi höfðu 9.776 atkvæði verið greidd utankjörfundar hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þar af voru nokkur hundruð atkvæði aðsend, frá sýslumannsembættum á landsbyggðinni eða erlendis frá. Á kjörskrá í Reykjavík eru 90.487 svo um níu prósent kosningabærra Reykvíkinga hafa þegar kosið.
Í Reykjavík opna kjörstaðir klukkan níu í dag og lokar klukkan 22. Á vef Reykjavíkurborgar má finna upplýsingar um hvar íbúar í Reykjavík skulu kjósa. Þar má jafnframt finna kort þar sem staðsetningar kjörstaða eru merktar.