Í skýrslu stjórnar Festi hf., sem Þórður Már Jóhannessonar stjórnarformaður flutti á aðalfundi félagsins í dag, kom fram að kostnaður við óháðan kunnáttumann, lögmanninn Lúðvík Bergvinsson, vegna sáttar við Samkeppniseftirlitsins sem gerð var vegna samruna Festi og N1 árið 2018 sé kominn upp í 55,6 milljónir króna. Hann var 7,2 milljónir króna frá október 2018 og út það ár, 33,1 milljónir króna árið 2019 og 15,3 milljónir króna í fyrra.
Til viðbótar hafa reikningar lögfræðinga Festi vegna sáttarinnar verið 24,4 milljónir króna á tímabilinu og samanlagður kostnaður félagsins frá upphafi sáttar því 80 milljónir króna.
Þessi kostnaður er, samkvæmt skýrslu stjórnar, „verulega hærri en væntingar voru til um“ og bent á að kostnaður Haga af óháðum kunnáttumanni sem skipaður var vegna samruna þess félags við Olís sé brot af þeim kostnaður sem Festi hefur borið. Þá hefði verið búist við því að draga myndi úr kostnaðinum vegna starfa Lúðvíks þegar liði á skipunartíma hans, en þær væntingar hafi ekki gengið eftir.
Stjórn Festi segir að samstarfið við Lúðvík hafi ekki gengið eins vel og Festi hefði kosið og að félaginu hafi „á tíðum þótt skorta á að leiðbeiningar kunnáttumanns væri með þeim hætti sem vænta mætti.
Festi mun í framhaldi aðalfundarins sem fór fram í dag óska eftir breytingum á aðkomu Lúðvíks að sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið en skipanatími hans á að óbreyttu ekki að renna út fyrr en í október 2023.
Þrívegis reynt að selja verslunina á Hellu
Umrædd sátt var undirrituð síðla árs 2018 og heimilaði Festi, sem rak Krónuna og fleiri matvöruverslanir, Elko og vöruhótelið Bakkann að sameinast eldneytisrisanum N1. Í sáttinni fólst meðal annars að selja átti fimm sjálfsafgreiðslustöðvar til nýrra, óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Um var að ræða þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára 8 í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík. Þá átti sameinað félag að selja verslun Kjarvals á Hellu.
Festi seldi bensínstöðvarnar fimm til Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og umsvifamikils fjárfestis, og hann seldi þær síðar áfram til Skeljungs.
Þrívegis hefur verið reynt að selja verslun Kjarvals á Hellu. Í fyrstu tvö skiptin samþykktu bæði óháði kunnáttumaðurinn og Samkeppniseftirlitið söluna en hún gekk ekki eftir af öðrum ástæðum. Síðasta söluferli hennar lauk svo í desember í fyrra þegar gengið var frá sölu verslunarinnar til félags í eigu Sigurðar Elíasar Guðmundssonar. • Samkeppniseftirlitið, að fengnu áliti óháðs kunnáttumanns, heimilaði hins vegar ekki kaupin og hafnaði kaupandanum.
Festi segir að mikil andstaða sé hjá bæjarbúum og sveitarstjórn á svæðinu við söluna, þar sem ekki sé áhugi á að missa Kjarval úr bæjarfélaginu. „Í söluferli verslunar á Hellu hefur stærstu samkeppnisaðilum verið boðin verslunin til kaups en enginn áhugi nema Festi greiði með sölunni umtalsverða fjármuni.“
Samkeppniseftirlitið rannsakar Festi
Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar möguleg brot Festi á umræddri sátt, meðal annars vegna tafa við sölu á eignum félagsins.
Í frétt sem Samkeppniseftirlitið birti á heimasíðu sinni í síðustu viku sagði að í rökstuddu áliti Lúðvíks, hins óháða kunnáttumanns, hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að Sigurður Elías hefði ekki uppfyllt skilyrði sáttarinnar um að vera óháður Festi og ekki í neinum tengslum við félagið. „Einnig léki vafi á um fjárhagslegan styrk og hvata kaupanda til þess að veita Festi umtalsvert samkeppnislegt aðhald á svæðinu líkt og sáttin áskilur. Í kjölfar rannsóknar og athugunar með tilliti til fyrirliggjandi gagna komst Samkeppniseftirlitið að efnislega sömu niðurstöðu.“
Í fréttinni segir að ef Festi tekst ekki að selja verslun Kjarvals á Hellu geri skilyrði sáttarinnar ráð fyrir því að aðrar eignir félagsins verði þess í stað seldar. „Samkeppniseftirlitið áréttar að mjög brýnt er að fyrirtæki hlíti skilyrðum samruna og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu virtar. Mikilvægt er fyrirtæki og aðilar að samrunamálum taki alvarlega þau skilyrði sem þau leggja til og sett eru fyrir samrunum, ekki síður í ljósi þess að fyrirtækin sjálf taka þátt í mótun þeirra. Rétt er í þessu sambandi að minna á að samrunaaðilar lögðu umrædd skilyrði til með það fyrir augum að efla samkeppni á svæðinu til hagsbóta íbúa á svæðinu og aðra notendur umræddrar þjónustu.“
Stefndi ritstjóra Viðskiptablaðsins
Viðskiptablaðið tók Lúðvík, og hlutverk hans sem óháðs kunnáttumanns, til umfjöllunar í nafnlausa skoðanadálknum Óðni í apríl í fyrra. Þar sagði meðal annars að „öll skynsemis-og réttlætisrök virðast hníga að því að Festi kæri kunnáttumanninn fyrir tilhæfulausa reikninga.“
Lúðvík stefndi í kjölfarið Trausta Hafliðasyni, ritstjóra og ábyrgarmanni Viðskiptablaðsins, fyrir meiðyrði og sagði í stefnu sinni að í skrifum sínum hefði Óðinn gefið í skyn að hann hefði haft fjármuni af Festi með ólögmætum hætti. Hann hefði þannig gerst sekur um alvarleg hegningarlagabrot og væri gefið að sök fégræðgi og spillingu. Krafðist Lúðvík þess að Trausti greiddi sér þrjár milljónir króna í bætur.
Trausti var sýknaður í málinu í febrúar síðastliðnum. Lúðvík ákvað hins vegar að áfrýja þeirri niðurstöðu til Landsréttar.