Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 714,9 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Það er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá á reksturinn að kosta 681,3 milljónir króna.
Á fyrsta heila ári fyrri ríkisstjórnarinnar Katrínar Jakobsdóttur við völd, árið 2018, var kostnaður vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna áætlaður 461 milljónir króna. Kostnaðurinn á næsta ári er því 55 prósent hærri í krónum talið.
Kostnaðurinn á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyndist á endanum hærri, eða 597 milljónir króna. Því hefur kostnaðurinn vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra alls vaxið um 117,9 milljónir króna frá 2018, eða 20 prósent.
Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram i síðustu viku er áætlað að kostnaðurinn haldist í sömu krónutölu út árið 2024, eða 714,9 milljónum króna.
Ráðherralaun hækkað um 70 prósent frá 2016
Laun þingmanna hækkuðu síðast í sumar, um 6,2 prósent, og eru orðin 1.285.411 krónur á mánuði. Frá miðju ári 2016 hafa laun þeirra hækkað um rúmlega 80 prósent. Þau laun eru greidd af öðrum lið í fjárlögum, af Alþingi sjálfu. Ráðherralaunin eru hins vegar greidd að áðurnefndum lið sem kallast ríkisstjórn Íslands.
Laun ráðherra hafa hækkað skarpt, og langt umfram almenna launaþróun, á undanförnum árum. Snemmsumars 2016 voru almennir ráðherrar með 1.257.425 krónur í mánaðarlaun og hafa því hækkað um 874.363 krónur síðan þá, eða um 70 prósent. Hækkun ráðherralaunanna nemur rúmlega 150 prósent af miðgildi heildartekna á Íslandi.
Aðstoðarmönnum fjölgað 2011
Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Í lögunum segir að „meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.“
Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmannastöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.
Skömmu eftir að lögunum var breytt var ráðherrum fækkað í átta, en þeir höfðu verið tólf þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009.
Síðan hefur ráðherrum verið fjölgað aftur jafnt og þétt með hverri ríkisstjórninni og í dag eru þeir orðnir tólf. Það þýðir að fjöldi leyfilegra aðstoðarmanna hefur líka aukist.
Mega ráða allt að 27 aðstoðarmenn
Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.
Aðstoðarmennirnir hafa fengið duglega launahækkun á undanförnum árum. Sumarið 2016 voru laun skrifstofustjóra í ráðuneytum hækkuð um allt að 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna um 1,2 milljónir króna á mánuði. Launin hafa hækkað enn frekar síðan þá.
Nú eftir kosningar hafa þegar nokkrir þeirra sem voru aðstoðarmenn ráðherra á síðasta kjörtímabili tilkynnt að þeir ætli ekki að halda áfram störfum. Má þar nefnda Lísu Kristjánsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmann forsætisráðherra, Hrannar Pétursson, fyrrverandi aðstoðarmann mennta- og menningarmálaráðherra, og Ólaf Teit Guðnason, fyrrverandi aðstoðarmann ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Aðstoðarmaður ráðherra á samkvæmt lögum rétt á biðlaunum í þrjá mánuði eftir að hann lætur af starfi. þar segir ennfremur að hafi „aðstoðarmaður áður verið ríkisstarfsmaður á hann rétt á að hverfa aftur til fyrra starfs síns eða annars starfs eigi lakara að föstum launum í þjónustu ríkisins. Þiggi fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra laun vegna annarra starfa á því tímabili sem hann á rétt á biðlaunum vegna fyrri starfa sinna sem aðstoðarmaður skerðast biðlaunin sem þeim launum nemur.“