Beinn kostnaður við sameiginlega blaðamannafundi sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur tekið þátt í frá 1. febrúar 2020 til 1. júní 2021 nam tæplega 7,1 milljón króna.
Um er að ræða blaðamannafundi sem voru aðallega haldnir til að tilkynna um ýmiskonar aðgerðir eða ráðstafanir vegna kórónuveirufaraldursins, en þó ekki einvörðungu. Á meðal funda sem einnig hafa farið fram, og hafa leitt af sér kostnað, eru fundur um uppbyggingu innviða vegna fárviðrisins í desember 2019, vegna kynningar á markáætlun og skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna, vegna kaupa á björgunarskipum og vegna samstarf stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um loftlagsmál.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.
Stærstu fundirnir hafa verið haldnir í Hörpu til að kynna efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins, afléttingu ferðatakmarkana eða breytingar á sóttvarnarráðstöfunum. Fyrsti stóri fundurinn vegna efnahagsaðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að takast á við faraldurinn var haldinn 21. mars 2020.