Frá árinu 1875 hefur íslenskt hagkerfi gengið í gegnum fleiri en tuttugu fjármálakreppur. Sex stórar og fjölþættar fjármálakreppur hafa orðið, þar sem farið hafa saman gjaldeyriskreppa, verðbólgukreppa og bankakreppa. Slíkar efnahagslægðir hafa skollið á hér á landi á um það bil 15 ára fresti að meðaltali og hafa borið mörg sameiginleg einkenni.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, kynnti í gær niðurstöður rannsóknar um efnahagskreppur á Íslandi síðastliðin nærri 150 ár, á málstofu sem bar yfirskriftina „Við höfum séð þetta allt áður“. Auk Þórarins hafa hagfræðingarnir Bjarni G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson og Þorvarður Tjörvi Ólafsson unnið að rannsókninni.
Við höfum séð þetta allt áður!
Fram kemur í kynningarefni málstofunnar að markmið rannsóknarinnar sé að fjalla um megineinkenni þeirra kreppa sem skollið hafa á Íslandi og greina þróun helstu fjármála- og þjóðhagsstæðra í aðdraganda og kjölfar þeirra. Bent er á fjármálakrísan 2008 hafi verið gríðarlega umfangsmikil og afleiðingarnar verulegar, þar sem gengi krónunnar lækkaði um liðlega 50% og ríflega 90% af fjármálakerfinu féll. Það sé þó ekki eina kreppan í sögu landsins og niðurstöður rannsóknarinnar sýni að „við höfum séð þetta allt áður“.
Fjórmenningarnir skipta fjármálakreppum í þrjár mismunandi tegundir, það eru gjaldeyriskreppur, verðbólgukreppur og bankakreppur. Oft eru þær nátengdar. Til dæmis má finna ellefu gjaldeyriskreppur frá árinu 1919 til dagsins í dag. Flestar vörðu stutt, aðeins eitt til tvö ár, að einni undanskilinni sem varði í 12 ár, frá 1974 til 1985. Allar gjaldeyriskrísurnar, með tilheyrandi lækkun krónunnar, urðu þegar fastgengisstefna var við lýði nema sú síðasta, árið 2008.
Þá hafa orðið fimm bankakreppur, þar af þrjár kerfislægar. Sú alvarlegasta varð árið 2008 en hinar tvær urðu 1920, þegar Íslandsbanka og Landsbanki þurftu lausafjáraðstoð, og árið 1930 þegar Íslandsbanki varð gjaldþrota.
Í fyrirlestrinum er farið yfir fjölþættu fjármálakrísurnar sem bresta á að meðaltali á 15 ára fresti og vara í tæplega fjögur ár í senn. Sú fyrsta varði í átta ár, frá 1914 til 1921.Hún hófst með efnahagssamdrætti í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri, sem leiddi til verðólgukreppu árið 1916, gjaldeyriskreppu 1919 og bankakreppu 1920. Hinar fimm fjármálakreppurnar voru styttri, og sú síðasta varði í um þrjú ár, frá 2008 til 2010. Fimm af þessum sex kreppum eiga sér alþjóðlega samsvörun.