„Fjármálaráðherra þorir ekki að mæta mér í Kastljósi. Enda veit ráðherra að hann hefur vonlausan málstað að verja í bankasölumálinu. Þetta veit öll þjóðin,“ skrifaði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í færslu á Facebook síðdegis í dag.
Í færslunni segir Kristrún að upphaflega hafi staðið til að hún og Bjarni Benediktsson yrðu samtímis í Kastljósinu, en að ráðherra treysti sér ekki til þess.
„Vill ekki eiga orðaskipti við formann stjórnarandstöðuflokks um bankasöluna í beinni sjónvarpsútsendingu,“ skrifar Kristrún um Bjarna og lætur það fylgja að málinu sé „engan veginn lokið“.
Kallar skýrsluna áfellisdóm yfir Bjarna
Í samtölum við fjölmiðla og í ræðu á þingi í dag hefur Kristrún kallað skýrsluna áfellisdóm yfir því hvernig staðið var að sölunni, og fjármálaráðherra beri ábyrgð á því.
Í umræðum á þinginu í dag sagði hún skýrsluna þungan áfellisdóm yfir vinnubrögðum fjármálaráðherra og að hún staðfesti „að sala á tugmilljarða ríkiseign var á sjálfstýringu, að ráðherra hirti ekki um að sinna eftirliti og söluráðgjafar fengu frítt spil í söluferlinu“.
Bjarni, á hinn bóginn, hefur vísað frá kröfum stjórnarandstöðuþingmanna um skipan rannsóknarnefnar til þess að fara nánar ofan í kjölinn á sölunni. Hann sagði að það væru ekki neinar vísbendingar um lögbrot í skýrslunni og „svo sannarlega ekki hjá fjármálaráðuneytinu“ heldur aðallega ábendingar um hluti sem betur hefðu mátt fara.
„Svona rannsóknarnefndir hefur Alþingi sem úrræði þegar menn sjá fyrir sér að það sé rökstuddur grunur um að menn hafi farið á svig við lög og það hafi orðið af því mikið tjón fyrir einhvern eða einhverja stærri almannahagsmuni. Ég bara sé ekki slík mál í þessu tilviki sem kalli á slíka rannsókn,“ sagði Bjarni við Vísi í dag.