Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, verður næsti formaður flokksins. Frestur til að skila inn framboði til formanns rann út í hádeginu í dag og Kristrún var eini frambjóðandinn sem skilaði inn framboði. Kosning nýs formanns fer fram eftir viku á landsfundi Samfylkingarinnar sem fer fram á Grand Hótel þá helgi.
Logi Einarsson, núverandi formaður, greindi frá því í sumar að hann ætlaði að stíga til hliðar á komandi landsfundi. Í viðtali við Fréttablaðið í júní sagði hann: „ „Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég.“
Kristrún, sem var kjörinn á þing í fyrrahaust, tilkynnti um framboð sitt 19. ágúst síðastliðinn. Í ræðu sinni af því tilefni sagðist hún ætla að leggja áherslu á kjarnamálin í jafnaðarmannastefnunni. Þau séu húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góð atvinna og kjör fólks. Það væri lykillinn að breiðari og stærri flokki og trúverðugleika. „Við eigum enga annarra kost á völ að mínu mati, því vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Kannanir hafa sýnt að kjósendur eiga erfitt með að festa hönd á það fyrir hvað Samfylkingin stendur. Ég vil að það sé alveg á hreinu fyrir hvað flokkurinn stendur og af hverju hann á erindi við fólkið í landinu.“
Kjarninn tók ítarlegt viðtal við Kristrúnu í síðasta mánuði um hvernig hún sér fyrir sér Samfylkinguna undir sinni formennsku. Það má lesa hér.
Frekari breytingar í forystunni
Ljóst er að fleiri sviptingar verða í forystusveit Samfylkingarinnar. Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, tilkynnti um síðustu helgi að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér sem varaformaður Samfylkingarinnar.
Skömmu áður en Guðmundur Árni tilkynnti þetta birti Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, færslu á Facebook þar sem hún tilkynnti að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri eftir tæplega sex ára setu. Í ágúst hafði Heiða sagt við mbl.is að hún vildi halda áfram sem varaformaður Samfylkingar.
Tvær konur hafa svo tilkynnt um framboð til ritara Samfylkingarinnar. Alexandra Ýr van Erven, sem hefur gegnt embættinu frá 2020, hefur gefið út að hún sækist eftir endurkjöri. Auk hennar hefur Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, boðað framboð til ritara.