„Ef ég læt slag standa geri ég þetta ekki ein. Ég ætla að taka lokaákvörðun í sumar og reikna með að upplýsa hana eftir verslunarmannahelgi,“ segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar greinir hún frá því að hún sé að „íhuga alvarlega“ að bjóða sig fram til formanns. Fyrst vilji hún heyra í félögum sínum í flokknum og kanna hvort fólk „vilji koma með í þetta stóra verkefni“.
Logi Einarsson, sem setið hefur sem formaður Samfylkingarinnar lengur en nokkur annar í rúmlega 22 ára sögu flokksins, eða frá haustinu 2016, mun hætta sem formaður á landsfundi í október. Með því er hann að axla ábyrgð á slælegu gengi flokksins í síðustu þingkosningum þar sem hann tapaði fylgi og fékk einungis 9,9 prósent atkvæða. Frá þessari ákvörðun sinni greindi hann í viðtali við Fréttablaðið 18. júní síðastliðinn.
Kristrún og Dagur B. Eggertsson „borgarstjóri og fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, hafa einkum verið nefnd sem mögulegir arftakar Loga. Kristrún segir við Fréttablaðið að sér þyki vænt um að horft sé til hennar í þessu sambandi.
„Við Dagur erum góðir vinir og vinnum vel saman,“ segir hún, aðspurð um hvort ákvörðun Dags, sem enn liggur ekki fyrir, myndi hafa áhrif á framboð hennar. „Hann mun taka sína ákvörðun út frá eigin brjósti.“
Logi sagði er hann tilkynnti um ákvörðun sína að hætta sem formaður að það hefði orðið „augljóst“ eftir þingkosningarnar síðasta haust að flokkurinn hefði ekki uppskorið það sem liðsmenn hans vonuðust eftir „og mér fannst þá gefið að ég myndi axla mín skinn […] Ég ætlaði að hætta strax, en ég var hvattur til að bíða með þá ákvörðun, að minnsta kosti um sinn“.
Nú væri hins vegar tímabært að greina frá ákvörðuninni. „Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég.“
Formaður frá 2016
Logi hefur, líkt og áður sagði, verið formaður flokksins frá árinu 2016. Logi, þá eiginlega algjörlega óþekktur í stjórnmálum utan heimabyggðar, hafði boðið sig fram til varaformanns á landsfundi sama ár og unnið.
Fimm mánuðum síðar sagði Oddný Harðardóttir af sér formennsku til að axla ábyrgð á hörmulegu gengi í þingkosningum – flokkurinn fékk 5,7 prósent atkvæða sem var og er versta frammistaða hans í sögunni – og Logi, eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins á þeim tíma, var allt í einu orðinn formaður.
Í viðtali við Mannlíf árið 2019 sagði Logi að hann hafi „svo sem ekki verið að sækjast eftir áhrifum eða leiðtogahlutverki en ég enda þar.“ Hann var í kjölfarið kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar en óvæntar kosningar 2017 leiddu til þess að flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt og lifði fyrir vikið af.
Vonbrigðin með árangurinn 2021 voru hins vegar mikil og augljós. Tapað fylgi og næst versta niðurstaðan í 22 ára sögu flokksins staðreynd þrátt fyrir samfellda setu í stjórnarandstöðu frá vorinu 2013.
Kjósendur Samfylkingarinnar voru auk þess þeir kjósendur sem voru minnst ánægðir með frammistöðu formanns þess flokks sem þeir studdu í síðustu kosningabaráttu. Einungis 53,5 prósent þeirra sögðu Loga hafa staðið sig vel.
Og þar ber ég ábyrgð
Á flokksstjórnarfundi í mars síðastliðnum flutti Logi ræðu þar sem hann gerði upp vonbrigðin. „Ef við horfum gagnrýnum augum inn á við er vafalaust hægt að leita skýringa víða; aðferðir við val á lista, mótun skilaboða, samskiptaháttum, mannauð og forystu flokksins. Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð.“ Á landsfundi í október 2022 yrðu teknar „stórar ákvarðanir um framtíð flokksins.“
Þessi orð voru túlkuð sem skýr vísbending um að formanns- og forystuskipti væru framundan hjá Samfylkingunni sem kom svo á daginn.