Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gert aðra tilraun til þess að fá upplýsingar um það frá fréttavefnum mbl.is hver það var sem lét ritstjórn vefsins fá upplýsingar í formi minnisblaðs er vörðuðu mál hælisleitandans Tony Omos. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfu lögreglunnar um að fréttastjóri mbl.is, Sunna Ósk Logadóttir, gæfi upp heimildarmann fréttavefsins og upplýsti um það hver það hefði verið sem lak upplýsingunum til fréttavefsins, en úrskurðað var í málinu síðastliðinn föstudag. Sunna Ósk hefur neitað að upplýsa um heimildarmann fréttavefsins í málinu, á þeim grundvelli að standa skuli vörð um vernd heimildarmanna, og því hefur málið komið til kasta dómstóla.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var lokað þinghald vegna þessarar kröfu lögreglunnar. Hæstiréttur hefur áður fellt dóm á þá leið, 7. maí síðastliðinn, að þar sem lögreglan hefði ekki leitað allra leiða til þess að upplýsa málið, meðal annars með skýrslutökum yfir æðstu starfsmönnum innanríkisráðuneytis Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þá væri ekki hægt að fallast á þá kröfu lögreglunnar að fá uppgefið án fullnægjandi rannsóknar hver hefði lekið upplýsingunum til mbl.is.
Grunnástæðan fyrir kröfu lögreglunnar er sú að upplýsa um hvernig persónuupplýsingar um Tony Omos, sem fram koma í fyrrnefndu minnisblaði, komust í hendur ritstjórnar mbl.is en leki á upplýsingunum úr innanríkisráðuneytinu kann að varða við lög að mati lögreglu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú tekið skýrslur af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins, með það fyrir augum að upplýsa um hvernig hið óformlega minnisblað komst í hendur ritstjórnar mbl.is. Karl Ingi Vilbergsson, sviðsstjóri á ákærusviði lögreglunnar, fer með málið fyrir hennar hönd.
Samkvæmt heimildum Kjarnans rökstuddi dómarinn í málinu úrskurð sinn síðastliðinn föstudag með því að ekki stæðu nægilega miklir almannahagsmunir til þess að mbl.is gæfi upp heimildarmann sinn þegar kæmi að fyrrnefndum leka. Ríka almannahagsmuni þyrfti til þess að aflétta trúnaði milli ritstjórnar og heimildarmanns og ekki væri að sjá að þeir væru nægilega miklir í þessu máli. Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur enn en búist er við því að Hæstiréttur komi með endanlega niðurstöðu í þetta álitamál í næstu viku, þar sem lögreglan hefur kært niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar með það fyrir augum að finna svarið við því hver lak upplýsingunum um hælisleitandann Tony Omos til mbl.is.