Landsréttur hefur vísað frá kröfu sóttvarnalæknis um að úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur vegna skyldudvalar í sóttvarnahúsi verði snúið við.
Fram kemur á vef Fréttablaðsins, sem fyrst sagði frá, að kröfu sóttvarnalæknis hafi verið vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum – enda er fólkið sem málin snúa að búið að fara í seinni landamæraskimun og er laust úr sóttkví.
Til viðbótar segir frá því í frétt á Vísi að dómarar í Landsrétti hafi vísað til þess að yfirvöld hefðu brugðist við úrskurði héraðsdóms með því að leyfa fólki á sóttkvíarhótelinu að yfirgefa það, ef það hefði aðstöðu til að ljúka sóttkví annars staðar.
Frávísun Landsréttar þýðir því að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum stendur óhögguð, án þess að þessi mál hafi fengið efnislega meðferð í Landsrétti.
Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í einu málanna hefur verið birt opinberlega. Hana má nálgast hér. Í úrskurðinum segir skýrlega að lagastoð skorti fyrir þeirri ráðstöfun að skikka alla sem hingað koma frá skilgreindum hááhættusvæðum í sóttvarnahús.
Dómurinn taldi því óhjákvæmilegt að fella ákvörðun um skyldusóttkví í sóttvarnahúsi úr gildi, en talið var að einstaklingurinn sem fór með málið fyrir dómara hefði sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að geta sjálfur og á eigin vegum fullnægt þeirri lagaskyldu sem á honum hvíldi að sæta sóttkví.