KSÍ fær úthlutað fimm til átta prósent miða í leikjum Íslands í úrslitakeppni EM sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Það fer því eftir því hvar Ísland kemur til með að spila hversu margir miðarnir verða, enda leikvangarnir sem leikið verður á misstórir. Þetta staðfestir Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við mbl.is.
Líklegt má telja að eftirspurn eftir miðum á leiki Íslands, hér á landi, verði mikil þar sem mikil stemmning hefur fylgt góðu gengi karlalandsliðsins sem tryggði sér sæti í lokakeppninni í gær, með 0-0 jafntefli í leik gegn Kasakstan.
Ódýrustu miðar á leiki kosta 25 evrur en einnig er hægt að skrá sig í sérstaka potta á vef UEFA til að eiga möguleika á að fá miða í keppninni.
Dregið verður í riðla í keppninni 12. desember í París, og mun þá koma í ljós hvar Ísland mun leika sína leiki í riðlakeppninni, og hversu marga miða KSÍ mun fá til sölu á hvern leik Íslands.