Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Kvika banki gerðu í lok apríl með sér samkomulag um að bankinn greiddi 18 milljón króna sekt, fyrir að hafa brotið gegn ákvæðum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti. Brotin áttu sér stað í tengslum við sölu og markaðssetningu á skuldabréfaflokknum OSF II 18 01, sem bankinn bauð upp á sem fjárfestingarkost árin 2018 og 2019.
Alls var um það bil fimm milljarða skuldabréfaútgáfu að ræða, sem Fjármálaeftirlitið segir að hafi brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti í nokkrum liðum. Brotin teljast gróf, að mati Fjármálaeftirlitsins, en sáttin var opinberuð á vef Seðlabanka Íslands í dag.
Í sáttinni kemur fram að bankinn hafi ekki sinnt skyldum sínum um greiningu hagsmunaárekstra áður en til viðskipta almennra fjárfesta með skuldabréfið var stofnað. Þá hafi upplýsingagjöf um fjárfestingarkostinn til viðskiptavina ekki verið nógu ítarleg eða greinargóð og að upplýsingar og umfjöllun um fjárfestingarkostinn sem og aðila tengdum honum hafi ekki uppfyllt kröfur um að vera skýr, sanngjörn og ekki villandi.
Einnig hafi bankinn ekki sinnt skyldum sínum um mat á hæfi í tilvikum 30 viðskiptavina og um flokkun viðskiptavina í fimm tilvikum.
Þetta er í fjórða sinn á síðustu fimm árum sem Kvika banki brýtur gegn ákvæðum laga á fjármálamarkaði og segir í sáttinni að sú staðreynd hafi orðið til hækkunar á sektarfjárhæðinni.
Hins vegar segir að samstarfsvilji bankans og sú úrbótavinna sem bankinn hafi ráðist í síðan málið kom upp komi til lækkunar á sektinni, en öllum almennum fjárfestum sem fjárfestu í skuldabréfinu stóð til boða að fá bréfin seld til Kviku á ný.