Aukin ítök aldamótakynslóðarinnar á fjármálamarkaðnum mun líklega auka umfang umhverfisvænna og samfélagslega ábyrgra fjárfestinga á næstu árum. Þetta skrifar Vanesa Hoti, sérfræðingur í eignastýringu Arctica Finance, í síðasta tölublaði Vísbendingar.
Kynslóðaskipti hafa áhrif
Samkvæmt Vanesu hafa fyrirtæki orðið fyrir auknum þrýstingi frá hagaðilum þeirra þegar kemur að sjálfbærni og samfélagslega ábyrgum fjárfestingum. Þar á meðal eru fjárfestar, sem líta nú í auknum mæli til þess að umhverfis-, félags- og stjórnarhættir (UFS) séu viðunandi.
Hún segir yngri kynslóðina vera þann hóp sem hefur hvað mestan áhuga á þessum þáttum og því sé viðbúið að vinsældir fjárfestingasjóða sem taka tillit til þeirra muni verða vinsælli eftir því sem hún fjárfestir meiri.
Sér til stuðnings bendir Vanesa á könnun sem fjármálafyrirtækið Morgan Stanley gerði árið 2019, en þar sögðust 95 prósent fjárfesta af aldamótakynslóðinni hafa áhuga á sjálfbærum fjárfestingum. Einnig nefnir hún skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte birti í fyrra, en þar var spáð að helmingur allra eigna í stýringu vestanhafs myndu taka tillit til UFS-þátta árið 2025.
Mikilvægt að hafa góða mælikvarða
Vegna þessarar fyrirhugaðrar aukningar í eignum sem segjast taka tillit til UFS-þátta segir Vanesa að mikilvægt sé að fyrirtæki sýni hvernig það sé gert með góðum mælikvörðum og reglubundinni upplýsingagjöf. Fyrirtækin sem gera það ekki séu líkleg til að falla undir svokallaðan grænþvott
Samkvæmt henni er hægt að beita ýmsum aðferðum til að forðast siðferðislega vafasöm viðskipti, en hún bendir á heimasíðu IcelandSIF fyrir ítarlegri upplýsingar um þær. Einnig bendir hún á UFS-leiðbeiningar Kauphallarinnar, sem fyrirtæki geta byggt á til að samræma sína upplýsingagjöf í þessum þáttum.
Hægt er að lesa grein Vanesu í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.