Fasteignamat Þjóðskrár fyrir allar fasteignir á Íslandi hækkar um 7,4 prósent fyrir næsta ár. Fasteignir landsmanna verða þá metnar á 10.340 milljarða króna. Þetta er mun meiri hækkun en var milli 2020 og 2021 þegar fasteignamatið hækkaði um 2,1 prósent. Hún kemur þó ekki á óvart enda fasteignamarkaðurinn verið afar líflegur síðastliðið ár í kjölfar þess að vextir voru lækkaðir í sögulega lága tölu. Hækkun á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu milli apríl 2021 og sama mánaðar 2020 var til að mynda sú mesta sem mælst hefur frá árinu 2007.
Í tilkynningu frá Þjóðskrá segir að samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækki um 7,9 prósent á milli ára og verði alls 7.221 milljarðar króna á næsta ári. Þar af hækkar sérbýli um 8,2 prósent á meðan fjölbýli hækkar um 7,7 prósent. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 8,9 prósent en 5,2 prósent á landsbyggðinni.
Af einstöku bæjarfélögum er hækkunin mest á Bolungarvík, 30,7 prósent. Eina sveitarfélagið þar sem íbúðarmatið lækkar á milli ára er í Grundarfjarðarbæ en þar lækkar matið um 0,5 prósent.
Hækkar skatta sem greiðast til sveitarfélaga
Eigendur fasteigna geta nú flett því upp á vef Þjóðskrár, www.skra.is, hver áhrif nýja fasteignamatsins er á virði eigna þeirra. Aukið virði eignanna býr til meira eigið fé á pappír fyrir alla þá sem sjá það hækka milli ára.
En fyrir flesta, sem eru ekki að selja eignina sína og leysa út þann hagnað þá þýðir hærra fasteignamat einfaldlega eitt: hærri fasteignaskatta, sem eru annar af tveimur megintekjustofnun sveitarfélaga. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins, var lækkaður um tíu prósent á árinu 2017 úr 0,20 í 0,18 prósent af fasteignamati. Þannig er hann enn. Auk þess voru afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum auknir. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í höfuðborginni eru 1,6 prósent.
Þegar húsnæðisverð hækkar hratt, líkt og það hefur gert á Íslandi á undanförnum árum, þá aukast tekjur sveitarfélaga af fasteignasköttum verulega samhliða. Reykjavíkurborg næstum tvöfaldaði til að mynda tekjur sínar vegna fasteignaskatta frá árinu 2013 og fram til loka árs 2019, en á tímabilinu fóru þær úr 11,6 milljörðum króna í 21,1 milljarð króna.