Á milli júnímánaða 2020 og 2021 dró verulega úr húsnæðislánum lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna, á meðan útlán þriggja stærstu bankanna jukust um hundruði milljarða. Hlutdeild lífeyrissjóðana í útlánum til heimila hefur ekki verið lægra síðan í júlí árið 2017.
Verðtryggð útlán lífeyrissjóðanna til heimila, sem rúmlega tvöfölduðust á fjórum árum og námu um 420 milljörðum króna um mitt síðasta ár, hafa minnkað stöðugt síðan þá, þar sem uppgreiðslur lána hjá sjóðsfélögum hafa verið meiri heldur en nýjar lántökur.
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um eignir lífeyrissjóðanna námu þær 360 milljörðum króna í júní, rúmlega 68 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra. Því hafa uppgreiðslur lánanna umfram nýja lántöku numið tæpum sex milljörðum á hverjum mánuði. Með þessum hraða gætu verðtryggð útlán lífeyrissjóðanna til heimila horfið innan sex ára.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður eru vaxtalækkanir íslensku bankanna líklega ástæðan fyrir minnkandi útlán lífeyrissjóðanna á húsnæðismarkaðnum. Samkvæmt tölum frá Seðlabankanum hafa útlán bankanna til heimila aukist um tæpa 420 milljarða á sama tíma.
Því hefur hlutdeild lána frá lífeyrissjóðum lækkað hratt, líkt og sjá má á mynd hér að ofan. Á fyrri hluta síðasta árs áttu sjóðirnir tæplega þriðja hvert útlán til heimila. Í júní var þetta hlutfall komið niður í 22 prósent og hefur það ekki verið lægra síðan í júlí 2017.