Ríkisstjórnir Ungverjalands, Írlands og Eistlands hafa allar tilkynnt að þær muni samþykkja innleiðingu 15 prósenta alþjóðlegs lágmarksskatts á stórfyrirtæki, verði hann að veruleika. Með þessum yfirlýsingum er líklegt að Evrópusambandið samþykki innleiðinguna í heild sinni, þar sem löndin þrjú voru helstu andstæðingar slíkrar skattlagningar. Þetta kemur fram í frétt New York Times frá því fyrr í dag.
Fjármálaráðherra Írlands, Pascal Donohue, tilkynnti í gær að ríkisstjórnin myndi skrifa undir stuðningsyfirlýsingu frá OECD um skattlagninguna, en fyrirtækjaskattur þar í landi nemur aðeins 12,5 prósentum þessa stundina. Samkvæmt Donohue er fyrirhugaða skattlagningin mynd sanngjörn málamiðlun á hugmyndinni, en einungis fyrirtæki með tekjur sem nema yfir 750 milljörðum evra þurfa að greiða skattinn.
Mathias Cormann, aðalritari OECD, tilkynnti svo á Twitter-síðunni sinni í gær að Eistland, sem er einnig lágskattaland, hafi einnig skrifað undir yfirlýsinguna. Samkvæmt New York Times undirritaði eistneska ríkisstjórnin eftir að hafa fullvissað sig um að skattlagningin myndi ekki koma sér illa fyrir sprotafyrirtæki í landinu.
Fyrr í dag tilkynnti svo Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, að ríkisstjórnin þar myndi einnig samþykkja skattlagninguna, að því gefnu að þeir fengju tíu ár til að innleiða skattinn í stað fimm ára. Núgildandi fyrirtækjaskattur þar í landi nemur einungis níu prósentum.
Búist er við því að samningur um skattlagninguna verði fullgerður í næstu viku í Washington, þegar fjármálaráðherrar G20-ríkjanna koma saman. Samkvæmt New York Times er svo líklegt að samningurinn verði undirritaður á ráðstefnu ríkjanna í Róm í lok mánaðarins.