Nýjar sóttvarnaráðstafanir sem snerta daglegt líf landsmanna taka gildi á miðnætti og eiga að vera í gildi til 13. ágúst, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra. Þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi sagt við Fréttablaðið fyrr í vikunni að ekki væri „hægt að draga bara sömu aðgerðir upp úr poka“ eru þær aðgerðir sem verða í gildi frá og með morgundeginum kunnuglegar öllum landsmönnum.
Fjöldatakmarkanir munu miðast við 200 manns í hverju hólfi, bæði úti og inni og eins metra nándarregla hefur verið tekin upp. Þá verður krám og veitingastöðum meinað að selja áfengi eftir kl. 23 á kvöldin og þurfa að vera búin að vísa gestum sínum út og skella í lás fyrir miðnætti. Grímuskylda verður tekin upp að nýju í þeim aðstæðum innanhúss þar sem ekki er hægt að tryggja eins meters fjarlægð á milli fólks. Einnig verður grímuskylda í almenningssamgöngum.
Óvissa um vörn viðkvæmra gegn alvarlegum veikindum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í minnisblaði sínu til ráðherra, þar sem aðgerðirnar voru lagðar til, að erlendar upplýsingar sýni að þau bóluefni sem notuð eru á Íslandi virðist vernda um 60 prósent fullbólusettra gegn smiti af völdum delta-afbrigðis veirunnar og yfir 90 prósent vernd gegn alvarlegum veikindum.
„Nýjar upplýsingar frá Ísrael benda hins vegar til að vernd bóluefnis Pfizer geti jafnvel verið enn minni en að framan greinir bæði gegn öllu smiti og alvarlegum veikindum,“ segir jafnframt í minnisblaði Þórólfs. Sóttvarnalæknirinn segir að afleiðingar þess að smit berist í viðkvæma hópa hérlendis, bólusetta og óbólusetta, séu ófyrirséðar og hætta sé á „alvarlegum afleiðingum.“ Fjórir eru í dag innlagðir á sjúkrahús með COVID-19.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við Stöð 2 eftir ríkisstjórnarfundinn á Egilsstöðum í gær að sterk rök hefðu þurft að liggja fyrir því að grípa til hertra aðgerða innanlands og hverfa þannig frá þeirri afléttingaráætlun sem kynnt var á vormánuðum og lauk fyrir mánuði síðan með algjöru afnámi allra takmarkana á daglegt líf landsmanna, í ljósi góðs gangs bólusetninga.
„Þau eru komin fram að hálfu sóttvarnayfirvalda með vísan í vöxt smita og óvissu með það hversu greiða leið þau smit eiga inn í viðkvæma hópa. Við tökum mark á því núna,“ sagði Bjarni við Stöð 2. Hann sagðist horfa á aðgerðirnar nú sem „varúðarráðstöfun“ og að við þyrftum að átta okkur á því að hversu alvarlegar fylgdu því að bólusettir væru að smitast af delta-afbrigðinu.
Hagsmunir af því að lenda ekki á rauðum listum
Í umræðunni undanfarna daga hefur allvíða verið kallað eftir því að stjórnvöld horfi til heildarhagsmuna við ákvarðanir um nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Það er, ekki einungis til mögulegrar óvissu af heilsufarslegum afleiðingum faraldurs heldur einnig til þeirra áhrifa sem takmarkanir innanlands hafa á efnahagslífið.
Ljóst er að margir verða fyrir fjárhagslegu tjóni nú þegar ákveðið hefur verið að banna fjölmennar samkomur fólks og stytta opnunartíma skemmtistaða.
Sú staða er þó uppi ferðaþjónustan á Íslandi, sem orðið hefur fyrir miklum skakkaföllum í faraldrinum, hefur ríka hagsmuni af því að böndum verði komið á útbreiðslu smita innanlands. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við þrjá aðila í ferðaþjónustu sem segja allir í kór að það skipti miklu máli að Ísland lendi ekki á rauðum listum varðandi stöðu faraldursins innanlands.
Alls 95 smit greindust í gær og 14 daga nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú komið upp í 111. Ekki þarf marga daga með slíkum tölum til viðbótar til þess að Ísland lendi verði rautt á korti sóttvarnayfirvalda í Evrópu og á lista stjórnvalda í Bandaríkjunum yfir ríki sem ekki ætti að ferðast til.
„...ef Ísland verður allt í einu rautt og talið vera hááhættusvæði þá myndi það hafa miklar afleiðingar. Það stoppar frekar fólk að koma,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar og Hölds í samtali við blaðið. Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela tekur í svipaðan streng og segir að það sé „litakóðinn sem þetta allt snýst um í raun og veru,“ því ef við hættum að vera „græn“ á kortinu megi fólk frá vissum löndum ekki ferðast hingað.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefndi í samtali við RÚV í gær að ein af ástæðunum fyrir því að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að grípa til takmarkana innanlands nú væri að það væri mikilvægt að Ísland lenti ekki á rauðum lista.
„Við erum að horfa til þess að það skipti miklu máli að halda þessum smitfjölda niðri. Það er líka mikilvægt, ekki bara fyrir samfélagið og heilsu okkar allra, heldur líka það að Ísland lendi ekki á rauðum lista,“ sagði Katrín.
Ráðleggingar sóttvarnayfirvalda og hagsmunir ferðaþjónustunnar virðast því, ef til vill í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst í upphafi árs 2020, ganga hönd í hönd, hvað þessar nýju sóttvarnaráðstafanir innanlands varðar.