Bankar landsins hafa ekki lánað meira í einum mánuði til fyrirtækja en þeir gerðu í júlí frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á af fullum þunga á Íslandi. Í síðasta mánuði lánuðu þeir fyrirtækjum 15,6 milljarða króna. Það er meira en kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hafa lánað fyrirtækjum innan mánaðar frá því í mars í fyrra, þegar þeir lánuðu slíkum 16,1 milljarð króna.
Það sem af er ári nema ný útlán banka, umfram uppgreiðslur og umframgreiðslur, til atvinnufyrirtækja 55,6 milljörðum króna. Allt árið í fyrra lánuðu kerfislega mikilvægir bankar á Íslandi samtal fyrirtækjum landsins 7,8 milljarða króna nettó. Ný útlán á fyrstu sjö mánuðum ársins 2021 voru því rúmlega sjö sinnum hærri upphæð en lánuð var nettó til fyrirtækja allt árið í fyrra.
Þetta má lesa út úr nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu íslenska bankakerfisins.
Til samanburðar var nettó heildarumfang nýrra útlána 105 milljarðar króna árið 2019 og tæplega 209 milljarðar króna árið 2018, þegar bankarnir lánuðu fyrirtækjum landsins 27 sinnum meira en í fyrra.
Býst við því að vaxtamunur lækki
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 0,25 prósent á miðvikudag, upp í 1,25 prósent. Það var önnur vaxtahækkun ársins en vextir voru líka hækkaðir um 0,25 prósentustig í maí.
Í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, á fimmtudag sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að bankar landsins væru nú í kjöraðstæðum til að styðja við fjárfestingu í atvinnulífinu. Það hafi aldrei staðið jafn sterkt og nú frá hruni. Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans hafi ýtt miklu lausu fé út í hagkerfið og það ætti að skila því að vaxtamunur bankanna lækki þegar fram í sækir.
Vaxtamunur er munurinn á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán. Bankarnir hafa stærstan hluta hagnaðar síns af honum.
Vaxtamunur stóru bankanna þriggja var á bilinu 2,4-2,7 prósent á fyrri helmingi yfirstandandi árs, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.