Tæplega 77 prósent þjóðarinnar styður að markaðsgjald sé greitt fyrir aflaheimildir

Kjósendur allra flokka eru fylgjandi því að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með þeim hætti að greitt verði markaðsgjald fyrir kvóta. Miðað við síðustu gerðu viðskipti er virði aflaheimilda um 1.200 milljarðar króna.

þorskur mynd:Ríkisendurskoðun
Auglýsing

Alls segjast 76,6 prósent þjóðarinnar vera hlynnt því að útgerðir landsins greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Sú leið nýtur mikils meirihlutastuðnings hjá öllum hópum samfélagsins, óháð því hvaða stjórnmálaflokka þeir kjósa, hverjar tekjur þeirra eru, aldur, menntun eða búseta. Einungis 7,1 prósent landsmanna er andvígur því að útgerðirnar greiði markaðsgjald fyrir kvóta.

Þetta kemur fram í netkönnun sem Gallup gerði fyrir hópinn þrýstihópinn Þjóðareign 21. júlí til 4. ágúst síðastliðinn. Úrtakið var 1.695 manns 18 ára og eldri allstaðar af landinu og svarendur voru 866.

Í núverandi kerfi greiða þær útgerðir sem halda á kvóta veiðigjald. Það var alls 4,9 milljarðar króna á síðasta ári. Frá hruni til loka árs 2019 nam samanlagður hagnaður útgerða landsins 439 milljörðum króna, þegar búið var að draga veiðigjöld og aðrar álögur frá. Á sama tímabili greiddu útgerðirnar um 70 milljarða króna alls í veiðigjöld.

Þrjár blokkir halda á næstum helmingi kvóta

Það kerfi sem er við lýði hérlendis byggir á því að aflaheimildum var úthlutað til útgerða án endurgjalds með lögum sem tóku gildi árið 1983. Þetta kerfi er kallað kvótakerfið. Þeim var síðar heimilað að framselja þann kvóta til annarra útgerða gegn greiðslu. 

Auglýsing
Árið 1997 var svo gefin heimild til að veðsetja aflaheimildir fyrir lánum, sem voru notuð til að kaupa upp kvóta eða eftir atvikum aðrar eignir. Þessi ákvörðun hefur gert marga þá sem héldu á kvóta mjög efnaða. 

Fyrir vikið hækkuðu aflaheimildirnar hratt í verði. Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er heildarvirði þeirra 1.195 milljarðar króna. Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu fyrr á þessu ári að þrjár blokkir innan íslensks sjávarútvegs: sú sem hverfist í kringum Samherja, sú sem hverfist í kringum Brim og sú sem hverfist í kringum útgerð Kaupfélags Skagfirðinga, haldi samtals á 45,6 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Samanlagt markaðsvirði hans er um 544,8 milljarðar króna miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflahlutdeildir hérlendis. 

Munur á stuðningi eftir því hvaða flokka fólk kýs

Í könnun Gallup kemur fram að kjósendur allra flokka sem eiga möguleika á að ná inn á Alþingi séu þeirrar skoðunar að greiða eigi markaðsgjald fyrir aðgang að þessari verðmætu auðlind.

Minnstur er stuðningurinn hjá kjósendum Framsóknarflokksins (53 prósent hlynnt en 17 prósent andvíg), Sjálfstæðisflokksins (62 prósent hlynnt en 14 prósent andvíg) og Miðflokksins (68 prósent hlynnt en 18 prósent andvíg).

Mestur er stuðningurinn hjá kjósendum Pírata (97 prósent hlynnt), Viðreisnar (95 prósent hlynnt) og Samfylkingar (94 prósent hlynnt). Kjósendur Vinstri grænna eru líka nær þessum flokkum í afstöðu en áðurnefndum þar sem 87 prósent þeirra eru hlynntir breytingunni.

Úr könnun Gallup.

Vert er að taka fram að kjósendur Sósíalistaflokks Íslands, sem hefur mælst með umtalsvert fylgi í könnunum undanfarið, og Flokks fólksins eru ekki greindir sérstaklega í könnuninni. 

Söfnuðu undirskriftarlistum gegn kvótasetningu makríls

Hópurinn sem lét gera könnunina stóð að átakinu „Þjóðareign“ árið 2015, sem fól meðal annars í sér undirskriftasöfnun gegn afhendingu makrílkvóta í meira en eitt ár í senn fyrr en ákvæði um þjóðareign á auðlindinni væri komið í stjórnarskrá. Undir þá söfnun skrifuðu 53.571 manns.

Frumvarpið var dregið til baka á sínum tíma en árið 2019 var makrílkvóta úthlutað í takti við veiðireynslu án endurgjalds. Ákvæði um þjóðareign á auðlindinni er ekki komið í stjórnarskrá.

Í fyrra sendi hópurinn frá sér áskorun til forseta Alþingis og allra þingflokksformanna, þar sem hann fór fram á að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um tvær tillögur um orðalag auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Lagt var til að atkvæðagreiðslan fari fram ekki síðar en í lok júní 2020. Úr henni varð ekki. 

Að­stand­endur átaksins eru Agnar K. Þor­steins­son, Bolli Héð­ins­son, Guð­rún Pét­urs­dótt­ir, Jón Sig­urðs­son, Jón Steins­son og Þor­kell Helga­son.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Öflugt húsnæðiskerfi fyrir alla
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent