Ísland stendur frammi fyrir sömu áskorunum varðandi hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og allur heimurinn. Beint og óbeint hafa samspil umhverfisbreytinga og nýtingar mikil og oft illfyrirsjáanleg áhrif á lífríkið.
Margvíslegar ógnir steðja að og brýnt er að efla vernd þeirra vistkerfa í og við Ísland sem enn má telja heilleg. Einnig er mikilvægt að endurheimta röskuð vistkerfi. Stjórntæki þarf að móta þannig að þau hvetji landeigendur til verndunar og endurheimtar mikilvægra vistkerfa.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa sem unnin var af stýrihópi skipuðum af umhverfis-, orku- og loftslagsráðerra. Bókin hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hún er liður í undirbúningi nýrrar stefnu og framkvæmdaáætlunar fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi en slík stefna, byggð á alþjóðlegum skuldbindingum, var fyrst samþykkt í ríkisstjórn árið 2008.
Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni hefur ekki verið mjög áberandi í umræðunni um loftslagsbreytingar og aðgerðir til að stemma stigu við þeim. Hins vegar, segja skýrsluhöfundar, er ekki hægt að horfa á loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni sem aðskilin málefni. „Að vernda og varðveita líffræðilega fjölbreytni hlýtur því að vera meginviðfangsefni í nútíð og framtíð.“
Hvað er líffræðileg fjölbreytni?
Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera (s.s. bakteríur og veirur) sem finnast á jörðinni, þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera, vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu þeirra.
Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum og hverfi um aldur og ævi.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á heimsráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992. Ísland undirritaði samninginn á ráðstefnunni og gekk hann í gildi hér á landi árið 1994.
Sérstaða Íslands
Íslensk vistkerfi hafa sérstöðu. Landfræðileg lega Íslands á mörkum hlýrra og kaldra hafsvæða skapar ásamt stórbrotnu landslagi mótuðu af jöklum og eldvirkni ólíkar aðstæður lífheims. Aðstæður á Íslandi eru um margt sérstakar á heimsvísu og endurspeglast það í fjölbreytni og samsetningu vistkerfa, bæði í sjó, á landi og í fersku vatni. Hér hafa því fundist vistkerfi og tegundasamfélög sem eru séríslensk.
Ákveðin þróun á sér stöðugt stað í náttúrunni en mannanna verk hafa síðustu áratugi og aldir verið þar stærsti áhrifavaldurinn.
Vistkerfi Íslands eru undir margs konar álagi, allt frá áhrifum af loftslagsbreytingum til þátta á borð við skógrækt með framandi tegundum, útþenslu byggðar, jarðvarma-, vatns- og vindorkuvera, ferðamennsku, ýmiskonar mengunar og landbúnaðar. Fiskveiðar og annars konar vinnsla úr auðlindum hafs, s.s. þörunga, hefur sín áhrif og þá hefur fiskeldi vaxið hratt á síðustu árum. „Allt hefur þetta áhrif á líffræðilega fjölbreytni með einum eða öðrum hætti og nokkrir af þessum þáttum geta leitt til ósjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og minni líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir í grænbókinni.
Hafið, bláa hafið
Breytingar á útbreiðslu fiskistofna og komu tegunda hingað til lands hafa helst verið taldar tengjast breytingum í hitastigi. Mælingar sýna nú einnig að sýrustig sjávar hefur fallið frá því mælingar hófust. Þetta sýnir að hafið er að súrna og að hraði súrnunar er meiri en á flestum öðrum hafsvæðum á jörðinni vegna undirliggjandi umhverfisaðstæðna, segir í grænbókinni. „Áhrif þess á lífríkið hér við land eru hins vegar lítt þekkt.“
Aukinn áhugi er fyrir vinnslu á þangi og þara. „Í umræðum um slíka nýtingu hefur m.a. verið bent á að vistkerfi í fjörum og grunnsævi, þar sem sjávargróður er ríkjandi, eru afar mikilvæg á norðurslóðum,“ stendur í grænbókinni. Lífmassi þessara vistkerfa sé hár og þaraskógar mikilvæg búsvæði fyrir fjölmargar lífverur, m.a. uppeldis- og fæðuöflunarstöðvar nytjastofna og stofna tegunda sem Ísland ber m.a. alþjóðlega ábyrgð á, þ.m.t. sjófuglategundum. Þangfjörur og þaraskógar veita margvíslega vistkerfisþjónustu, benda skýrsluhöfundar á. Þar má m.a. nefna kolefnisbindingu en þaraskógar binda mikið kolefni.
Fiskeldi hefur aukist hratt og áhrif þess gætir á umhverfið og líffræðilegan fjölbreytileika, segir í grænbókinni. Erfðablöndun við íslenska laxastofna og áhrif laxalúsar á afkomu villtra laxastofna eru þættir sem gætu einnig haft veruleg áhrif. „Athafnir mannsins hafa skapað margvíslegar áskoranir fyrir lífríki í sjó og munu halda áfram að móta vistkerfi í fyrirsjáanlegri framtíð.“
Benda skýrsluhöfundar á að heildstæð vistgerðaflokkun fyrir vistgerðir í hafinu hafi ekki farið fram. Það sé umfangsmikið verkefni en aðkallandi.
Beit og birki
Búfjárbeit hefur haft víðtæk áhrif á vistkerfi hér á landi. Sums staðar á landinu, segir í grænbókinni, hefur ofbeit átt mikinn þátt í gróður- og landeyðingu og losun kolefnis út í andrúmsloftið.
Rifjað er upp að með friðun fyrir búfjárbeit hafi allmörgum skógarleifum verið bjargað á fyrri helmingi 20. aldar, m.a. Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi, Þórsmörk og Ásbyrgi. Við þetta hækkuðu þessir skógar og breiddust út innan girðinga. Útbreiðsla birkis jókst um 13.000 hektara eða 9 prósent á árabilinu 1989 til 2014. „Þetta er útbreiðsluhraði sem nemur að meðaltali 0,36% á ári sem getur vart talist mikill,“ segir í grænbókinni. Tækifæri til að auka útbreiðslu birkiskóga á Íslandi séu veruleg, einkum með það að markmiði að bæta ástand hnignaðra vistkerfa, „en til þess þarf að samræma búskaparhætti í sauðfjárrækt og markmið um endurheimt skóga“.
Ræktun nytjaskóga byggi á notkun framandi tegunda eins og rússalerkis, sitkagrenis, stafafuru og alaskaaspar. Nytjaskógar hafa verið ræktaðir á 49.000 hekturum lands eða tæplega 0,5 prósent landsins.
Skýrsluhöfundar benda þó einnig á að breytingar á landnotkun hafi ekki eingöngu leitt til hnignunar vistkerfa. Sé litið til baka síðan síðast var mótuð stefna um líffræðilega fjölbreytni þá hafi verið friðlýst ýmis svæði sem mikilvæg eru lífríkinu. Friðlýst svæði á Íslandi eru nú í kringum 25 þúsund ferkílómetrar eða um fjórðungur landsins. Verndarsvæði í hafi eru hins vegar aðeins um 0,07 prósent af efnahagslögsögu Íslands.
Ágengar tegundir þarf að vakta
Með breyttu náttúrufari og aukinni umferð og innflutningi aukast líkur á komu framandi lífvera sem geta náð fótfestu á og við landið. Til að teljast ágeng tegund þarf hún að hafa komið sér það vel fyrir á þessu nýja svæði að hún fer að hafa neikvæð áhrif á umhverfi sitt og aðrar lífverur sem voru þar fyrir.
Tvær tegundir æðplantna og ein mosategund hafa verið skilgreindar ágengar á Íslandi: Alaskalúpína, sem upphaflega var flutt inn og notuð til landgræðslu, skógarkerfill sem var fluttur inn sem garðaplanta og í mosinn hæruburst sem barst hingað með ferðamönnum, til dæmis neðan á skóm, og hefur náð fótfestu á jarðhitasvæðum.
Eitt spendýr, minkurinn, hefur verið skilgreint sem ágeng tegund á Íslandi. Þrjár tegundir smádýra hafa verið skilgreindar sem ágengar; spánarsnigill, búrsnigill og húshumla.
Samkvæmt náttúruverndarlögum getur Umhverfisstofnun gripið til aðgerða til að koma böndum á og hefta útbreiðslu framandi lífvera eða uppræta þær, ef ástæða er til að ætla að þær ógni líffræðilegri fjölbreytni og hafi veruleg áhrif á lífríkið.
„Nauðsynlegt er að fylgjast vel með landnámi og dreifingu framandi plöntutegunda og koma í veg fyrir að útbreiðsla þeirra valdi ekki óæskilegum breytingum á gróðurfari,“ benda höfundar grænbókarinnar á.
Forvarnir geta skilað hvað mestum árangri í að takmarka áhrif ágengra framandi tegunda á íslenskt lífríki. Þetta er að mati stýrihópsins best gert með úrbótum á regluverki, betri stýringu á innflutningi og innflutningsleiðum framandi tegunda og eftirliti.
Stýrihópurinn leggur til að unnið verði áhættumat fyrir framandi tegundir sem eru í mikilli notkun hér á landi.
Áhrif loftslagsbreytinga
Loftslagsbreytingar, hlýnun og aukinn styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hafa mikil áhrif á lífsskilyrði plantna og dýra. Aukinn styrkur CO2 hefur áhrif á framleiðni plantna sem lýsir sér m.a. í meiri vexti þeirra. Loftslagsbreytingar hafa svo áhrif á ýmsa aðra umhverfisþætti sem hafa síðan áhrif á vistkerfi, valda breytingum á búsvæðum plantna, dýra og fjölbreytni.
Í grænbókinni kemur fram að vísindasamfélagið hafi um nokkurt skeið reynt að greina samlegð og fórnarskipti (e. trade-off) milli loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Dæmi um slíka samlegð er þegar aðgerðir til verndar líffræðilegri fjölbreytni vinna á sama tíma gegn loftslagsbreytingum, t.d. verndun og endurheimt votlendis. Dæmi um fórnarskipti er þegar mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum með því að nota land eða sjó til að binda gróðurhúsalofttegundir leiða til hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni. „Þetta er eitt af brýnum viðfangsefnum við mótun stefnu um líffræðilega fjölbreytni,“ segja skýrsluhöfundar.
Áhersla á bindingu í aðgerðaáætlun
Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum er ætlað að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og leggja grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Ör samdráttur í losun þyrfti að eiga sér stað til að ná því markmiði og í áætluninni eru kynntar stórauknar aðgerðir til að binda kolefni úr andrúmslofti og stöðva losun frá vistkerfum á landi. „Af þeim aðgerðum sem boðaðar eru í aðgerðaáætluninni, eru það ekki síst aðgerðir til að binda kolefni úr andrúmslofti og til að stöðva losun frá landi sem geta haft ýmis áhrif á lífríki,“ segja höfundar grænbókarinnar. Í áætluninni er gert ráð fyrir umtalsverðri aukningu í skógrækt, landgræðslu, sem og vernd og endurheimt votlendis.
Meira gróðursett af innfluttum tegundum
Samkvæmt stöðuskýrslu áætlunarinnar sem birt var í fyrra var umfang nýs skóglendis, þ.e. lands sem skógrækt var hafin á, 1.833 hektarar á árinu 2020 eða um 50 prósent meira en árið 2018. Á þessu tímabili jókst gróðursetning birkis eða ilmbjarkar úr um 800 þúsund plöntum í 1.600 þúsund. Gróðursetning innfluttra trjátegunda jókst á sama árabili um 25 prósent, úr um 2,3 í um 2,8 milljónir plantna. Notkun á stafafuru hefur aukist talsvert á þessum tíma en tegundin dreifir sér í íslenskri náttúru, benda skýrsluhöfundar á.
Votlendi um 20 prósent af grónu landi
Um þriðjungur Íslands er þakinn samfelldum gróðri, þar af um 1,2 prósent af birkiskógi eða kjarri. Tveir þriðju hlutar landsins eru lítt eða ógrónir sandar, melar, vötn og jöklar. Votlendi þekur um 9.000 ferkílómetra eða um 20 prósent af grónu flatarmáli. Ætla má að um 50 prósent þess hafi verið raskað með framræslu.
Endurheimt votlendis er ekki veruleg að umfangi en hefur þó aukist á síðustu árum. Árið 2020 var unnið að endurheimt votlendis á 264 hekturum en 24 hekturum árið 2018. „Ekki liggur fyrir ítarleg áætlun um hvar verður ráðist í endurheimt votlendis á næstu árum og hefur framboð á landi til endurheimtar verið sá þáttur sem takmarkað hefur umfang endurheimtar votlendis.“
Á landinu hafa 64 vistgerðir verið skilgreindar. Vistgerðir hafa mishátt verndargildi og „mikilvægt er að standa vörð um sjaldgæfar og sérstæðar vistgerðir einkum þær sem eru mikilvæg búsvæði og veita fjölbreytta vistkerfaþjónustu t.d. graslendi, votlendi og skóglendi sem og vistgerðir sem eru einkennandi fyrir íslenska náttúru t.d. jarðhitavistgerðir,“ segir í skýrslunni.
„Vinna þarf áfram að fullnægjandi verndun svæða sem eru mikilvæg til að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, búsvæðum og vistgerðum innan náttúrulegra útbreiðslusvæða þeirra með þeim tegundum og vistfræðilegu ferlum sem einkenna hverja vistgerð,“ segir í lokakafla grænbókarinnar. Þetta eigi við á landi, í ferskvatni og í hafi. Leggja þurfi áherslu á að vernda svæði þar sem viðkvæmar tegundir og vistkerfi finnast.
Grænbókarhópurinn segir að stefna um landnotkun og landnýtingu þurfi að stuðla að verndun og endurheimt tegunda og vistkerfa. Þetta eigi við um stefnu í skipulagsáætlunum og stefnu hvað varðar landbúnað og alla aðra landnýtingu. Samhæfa þurfi þetta tvennt með það fyrir augum að nýta betur opinbert fé „en viðurkenna jafnframt að bændur og aðrir umsjónaraðilar lands geti haft mikilvægt hlutverk í þágu endurheimtar vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni“.
Skoða ætti sérstaklega hvernig hvatakerfi geti stuðlað að aukinni þátttöku. Stjórntæki þurfi að móta þannig að þau hvetji landeigendur til verndunar og endurheimtar mikilvægra vistkerfa. Með því að vinna að endurheimt vistkerfa á stórum samfelldum svæðum og ýta undir náttúrulega ferla, s.s. sjálfsáningu, verði endurheimtarverkefni markvissari og fjármunir nýtast betur. Þá benda skýrsluhöfundar á að skoða þurfi möguleika á endurheimt vistkerfa í sjó og á strandsvæðum, hvort sem það yrði gert með friðun tiltekinna svæða fyrir botnveiðum og fiskeldi eða beinum aðgerðum, eins og þverunum fjarða eða landfyllingum. Þetta hafi enn sem komið er lítið verið skoðað hér við land.
„Vegna vaxandi fiskeldis í sjó, áforma um uppbyggingu vindorkuvera á hafi, áforma um fjölgun þverana fjarða með vegum, ásóknar í vinnslu þara, kóralþörunga og efnistöku á hafsbotni reynir enn frekar á að vel sé staðið að stefnumótun og skipulagi, að aflað sé upplýsinga um vistkerfi í hafi og að landsskipulagsstefna leggi skýrar línur hvernig staðið skuli að verki,“ segja skýrsluhöfundar.