Ný þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans fyrir næstu þrjú árin gerir ráð fyrir að 800 þúsund erlendir ferðamenn komi til landsins í ár. Þetta eru með bjartsýnustu spám um fjölda ferðamanna sem íslenskir greiningaraðilar hafa gefið út.
Samkvæmt spánni mun landsframleiðsla aukast um 4,9 prósent í ár, að mestu leyti vegna vaxtar í útflutningi. Í síðustu hagspá Landsbankans, sem kom út í október í fyrra, var gert ráð fyrir komu 650 þúsund ferðamanna. Þar var einnig búist við töluvert minni hagvexti, eða 3,4 prósentum, og var það að stórum hluta vegna minni fjölda ferðamanna.
Í síðustu þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem kom út í lok janúar, var hins vegar gert ráð fyrir að 700 þúsund ferðamenn myndu sækja landið heim í ár í líklegustu sviðsmyndinni. Bankinn birti þó einnig bjartari sviðsmynd, þar sem gert var ráð fyrir að ein milljón ferðamanna kæmi til landsins og svartari sviðsmynd þar sem gert var ráð fyrir komu 450 þúsund ferðamanna.
Seðlabankinn bjóst einnig við komu 700 þúsund ferðamanna í síðustu Peningamálum bankans, sem komu út í febrúar. Bankinn hafði þá fært niður væntingar sínar um ferðamannafjölda frá nóvemberspá sinni, þar sem hann taldi að 750 þúsund þeirra kæmu til landsins í ár.