Hugsaði að á Íslandi „yrði komið fram við mig eins og manneskju“

Hann hefur aðeins tvo kosti. Og þeir eru báðir hræðilegir. Að halda til á götunni á Íslandi eða í Grikklandi. Suliman Al Masri, palestínskur hælisleitandi sem yfirvöld ætla að vísa út á götu, segist þrá venjulegt líf. Það sé ekki að finna í Grikklandi.

Suliman hefur lagt sig fram við að kynnast íslensku samfélagi og m.a. stundað sjálfboðastarf frá því að hann kom hingað í október.
Suliman hefur lagt sig fram við að kynnast íslensku samfélagi og m.a. stundað sjálfboðastarf frá því að hann kom hingað í október.
Auglýsing

„Mig langar bara að vinna og sjá fyrir mér, verða eins og venjulegur maður.“ Þetta segir hinn 26 ára gamli Palestínumaður Suliman Al Masri í samtali við Kjarnann. Hann er í hópi þeirra Palestínumanna sem Útlendingastofnun hefur tilkynnt að verði vísað úr húsnæði stofnunarinnar og út á götu á morgun. Að minnsta kosti sjö hafa fengið sömu skilaboð. Skýringin er sú að þeir vilja ekki fara aftur til Grikklands líkt og íslensk yfirvöld hafa fyrirskipað. Því hefur hann neitað að fara í COVID-próf sem er forsenda þess að hægt sé að senda hann úr landi. „Ég hef fengið þessa tvo slæmu kosti: Að vera á götunni á Íslandi eða á götunni í Grikklandi,“ segir Suliman. Í heila viku hefur hann óttast það versta og átt erfitt með svefn vegna tilhugsunarinnar um að verða sendur til baka.

Tveimur palestínskum hælisleitendum var síðdegis vísað úr húsnæði stofnunarinnar að Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Þeir hafa í engin hús að venda en hefur verið bent á að leita skjóls í moskum. Á morgun munu að óbreyttu fleiri bætast í þann hóp.

Auglýsing

„Það er stríð í heimalandi okkar,“ segir Suliman. Ísraelar gera nú harðar loftárásir á Gaza og tugir hafa fallið, m.a. mörg börn. „Fjölskyldan mín er á Gaza, aldraðir foreldrar mínir, systur mínar og börn annarrar þeirra. Við erum mjög áhyggjufullir út af því. Gaza er mjög lítið svæði. Þar er enginn öruggur í augnablikinu.“ Hann segir Útlendingastofnun hins vegar hafa sagt að ekkert sé hægt að gera. Þar sem hann og landar hans hafi þegar fengið stöðu flóttamanna í Grikklandi verði þeir allir sendir til baka þangað. „Ég flúði Palestínu út af ástandinu þar í leit að venjulegu lífi eins og allir þrá,“ segir Suliman. Hann hafi ekki komist neitt annað en til Grikklands og þar hafi hann þurft að dvelja í flóttamannabúðum á eyju í heilt ár. „Það var eins og fangelsi og alveg hræðilegur tími.“ Hann segir ástandið í búðunum hafa verið skelfilegt. Glæpahópar ráði þar ríkjum og ofbeldi sé daglegt brauð.

Eftir að Suliman hafði fengið stöðu flóttamanns í Grikklandi, eftir árið skelfilega á eyjunni, tók ekki mikið betra við. Hann fór til höfuðborgarinnar Aþenu til að leita sér að vinnu og reyna að læra tungumálið. En hátt atvinnuleysi er í Grikklandi meðan innfæddra og atvinnuástandið enn erfiðara fyrir flóttafólk. „Ég gat ekkert gert.“ Þegar fólk hefur fengið stöðu flóttamanns fær það ekki lengur opinberan fjárstuðning og hann hafði því ekkert á milli handanna til að bjarga sér og lifa á.

Eftir hálft ár í Aþenu ákvað Suliman að reyna að komast til annars Evrópulands. Hann íhugaði að fara til Þýskalands eða Svíþjóðar í fyrstu. Hann hafi svo ákveðið að koma til Íslands og fá hæli hér. „Ég hugsaði að þar yrði komið fram við mig eins og manneskju.“ Hingað kom hann í október á síðasta ári. En nú, átta mánuðum síðar, hefur hann fengið skýrt svar frá yfirvöldum: „Þú verður að yfirgefa landið því þú komst hingað frá Grikklandi.“ Hann segist hafa sagt þeim eins og er, að ef hann verði sendur aftur til Grikklands bíði hans ekkert annað en gatan. „Þeir hafa þá sagt að ef ég fari ekki verði þeir að vísa mér út á götu og að það sé mjög kalt úti.“ Jú, hann segir vissulega rétt að hlýrra sé í Grikklandi á þessum árstíma en að þar séu glæpir tíðir á götum. Í hans huga er þetta því ekkert val. Hann vill frekar búa á götunni á Íslandi en í Grikklandi – þó að það sé kaldara hér. „Ég get ekki hugsað mér að fara aftur til Grikklands. Það er mjög hættulegt. Þar á ég enga framtíð.“

Suliman Al Masri tók líkt og aðrir hælisleitendur frá Palestínu þátt í matar- og menningarhátíð í ungmennahúsinu Hamrinum í Hafnarfirði fyrir helgi. Þar elduðu þeir alls konar palestínska rétti og buðu gestum. Mynd: Úr einkasafni

Suliman hefur lokið háskólanámi í viðskipta- og ferðamálafræðum í Palestínu. Þegar hann greindi yfirvöldum hér frá því voru viðbrögðin þau að menntun hans skipti engu máli um það hvort að hann fengi að vera hér áfram eða ekki. „Ég vil ekki vera flóttamaður. Ég vil vinna fyrir mér. Ég vil engar bætur eða slíkt.“

Spurður hvort hann hafi heyrt í fjölskyldunni sinni á Gaza segir hann net- og símasamband mjög stopult svo hann nái aðeins annað slagið sambandi við hana. Hann hefur miklar áhyggjur af fólkinu sínu. „Gaza er svo lítil. Þegar loftskeytin koma eru allir í hættu.“

Suliman hefur kynnst stríði. Hann þekkir í raun ekkert annað en stríðsástand. Hann var í heimalandinu árið 2014 þegar stríð við Ísrael hófst og stóð í meira en fimmtíu daga. „Þess vegna veit ég hvað þetta er hættulegt. Að enginn er öruggur. Ég bjó rétt við landamærin.“

Á morgun verður Suliman vísað út úr húsnæði Útlendingastofnunar þar sem hann heldur nú til. „Já, ég mun vera á götunni.“

Hann segist finna fyrir miklum ótta vegna ástandsins heima fyrir og að nú bætist sorg ofan á það. „Mér finnst eins og [íslenskum yfirvöldum] sé sama um mig. Það hljóta allir að hafa séð hvað er að gerast á Gaza. Fyrir alla, konur og börn.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent