Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 28,9 milljarða króna á síðasta ári. Það er 18,4 milljörðum krónum meiri hagnaður en bankinn skilaði á árin 2020. Því jókst hagnaðurinn um 175 prósent milli ára.
Arðsemi eigin fjár bankans, sem er stærsti banki landsins, var 10,8 prósent samanborið við 4,3 prósent á árinu 2020. Það þýðir að Landsbankinn var yfir arðsemismarkmiði sínu, sem var tíu prósent. Þar skipti mestu að rekstrartekjur jukust úr 38,3 milljörðum króna í 62,3 milljarða króna milli ára, eða um 63 prósent.
Vegna þessa árangurs mun bankaráð Landsbankans leggja til við aðalfund að greiddur verði út 14,4 milljarðar króna í arð vegna ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna. Bankaráð er jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022. Ekki er tilgreint hversu há sú greiðsla gæti orðið.
Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbankans vegna ársins 2021 sem birtur var í dag.
Eigið fé bankans um 283 milljarðar
Tekjumódel íslenskra banka byggir helst á tvenns konar tekjum: vaxtatekjum sem byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni, og þóknanatekjum fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf.
Stóri vöxturinn í tekjum bankans í fyrra var í þóknanatekjum, sem stundum eru líka kallaðar þjónustutekjur. Þær fóru úr 7,6 í 9,5 milljarða króna og jukust því um 25 prósent milli ára. Þar skipti meðal annars máli að samningum um eignastýringu fjölgaði um fjórðung milli ára.
Kostnaðarhlutfall Landsbankans, sem mælir hvað kostnaður er stór hluti af tekjum, var 43,2 prósent og lækkaði myndarlega mill ára. Einfaldasta leiðin til að ná kostnaðarhlutfalli niður er að fækka starfsfólki.
Eignir Landsbankans voru um 1.730 milljarðar króna um síðustu áramót og efnahagsreikningurinn stækkaði um ellefu prósent á árinu 2021. Eigið fé bankans var 282,6 milljarðar króna í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið 26,6 prósent.