Landsbankinn hagnaðist um 6,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi og því alls um 14,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins. Á sama tímabili í fyrra tapaði bankinn 3,3 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í uppgjöri bankans, sem birt var í hádeginu í dag. Arðsemi eigin fjár bankans á fyrstu 6 mánuðum ársins hefur verið 10,8 prósent á ársgrundvelli, en var neikvæð um 2,7 prósent á sama tímabili árið 2020. Eigið fé bankans var 267,9 milljarðar þann 30. júní og eiginfjárhlutfallið hans var 25,1 prósent.
Bankinn segir frá því að kostnaður sem hlutfall af tekjum hafi verið 43,7 prósent á fyrri helmingi ársins og hagkvæmni í rekstri bankans, sem er í fullri eigu íslenska ríkisins, hafi haldið áfram að aukast. Rekstrarkostnaður bankans nam 13 milljörðum króna á fyrri helmingi árs og hafa laun og launatengd gjöld lækkað um 153 milljónir króna frá fyrri helmingi ársins 2020.
Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði slagar upp í tæp 39 prósent og hefur aldrei verið hærri, samkvæmt uppgjörstilkynningu bankans.
Í góðri stöðu til að bregðast við áframhaldandi óvissu
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segir uppgjörið afar gott og rekur að heimsfaraldurinn hafi ekki valdið bankanum eins miklum skakkaföllum og ef til vill var útlit fyrir síðasta vor.
Fram kemur í árshlutareikningi bankans að þó hafi bókfært virði útlána með virk greiðslufrestunarúrræði numið 90,5 milljörðum króna þann 30. júní. Þar af voru 71,6 milljarða króna útlán til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
„Um mitt ár 2020 settum við verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda eru virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækkar á árinu. Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins,“ er haft eftir Lilju Björk í fréttatilkynningu frá bankanum.