Landsbankinn segir í frétt á vef sínum, að óskað hefði verið eftir ráðrúmi til þess að tilkynna starfsfólki bankans í Leifstöð um það, að Arion banki myndi taka við rekstri fjármálaþjónustu í stöðinni, eftir niðurstöðu útboðs, en við því var ekki orðið af hálfu ISAVIA, rekstraraðila flugvallarins. Um 25 starfsmenn bankans starfa í útibúinu í Leifstöð, en tilkynnt var um niðurstöðu útboðsins í dag.
Kemur fram á vef Landsbankans að hann harmi þessi vinnubrögð ISAVIA.
Landsbankinn mun því hætta fjármálaþjónustu í Leifstöð, eftir sextán ára þjónustu, eigi síðar en í apríl á næsta ári, samkvæmt samningi.
Arion banki hlaut hæstu einkunn í samkeppni um rekstur fjármálaþjónustunnar, sem ISAVIA stóð fyrir, og mun nú ganga til samninga við ISAVIA. Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að alls hafi fimm umsóknir borist frá Arion banka, Global Exchange Foreign Exchange Services, Íslandsbanka, Landsbankanum, Unicâmbio og iKort.