Hagfræðideild Landsbankans og Greining Íslandsbanka spá því að stýrivextir Seðlabankans muni hækka um 0,75 prósentustig á miðvikudeginum í næstu viku. Þetta kemur fram í greiningum þeirra sem birtust núna í morgun.
Samkvæmt Íslandsbanka munu þrír þættir vega þungt í næstu stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans: Versnandi verðbólguhorfur, hækkun verðbólguvæntinga og ágætar efnahagshorfur. Þó telur greiningardeildin að nefndin muni væntanlega líka horfa til áhrifa á skuldsett heimili og viðkvæmar atvinnugreinar.
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá telur Íslandsbanki að stýrivextir muni hækka allverulega á næstu misserum, en hann gerir ráðfyrir að þeir verði 3,25 prósent í lok ársins. Eftir tvö ár er svo búist við að vextirnir verði komnir upp í langtímajafnvægi í fjórum prósentum.
Í hagsjá Landsbankans segir að kjölfesta verðbólguvæntinga hafi veikst töluvert á síðustu mánuðum. Nú búast heimili við því að verðbólgan eftir fimm ár verði 3,5 prósent, en fyrirtæki gera ráð að verðbólgan verði fjögur prósent í árslok. Samkvæmt bankanum er sérstaklega mikilvægt að halda verðbólguvæntingum fyrirtækja í skefjum, þar sem fyrirtækin ákveða verð á allri vöru og þjónustu.