Stjórn Landverndar gagnrýnir ýmislegt sem finna má í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og segir að áform sem þar birtist um að „ganga gegn áliti fagaðila um röðun í flokka rammaáætlunar III“ séu í raun „stríðsyfirlýsing“. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem barst frá náttúruverndarsamtökunum í dag.
„Almenn samstaða hefur verið um að rammaáætlun, byggð á faglegum forsendum, væri forsenda víðtækari sáttar um náttúrvernd og virkjanir. Gangi ríkisstjórnin gegn þessari sátt er sú sáttaviðleitni einskis virði. Í inngangi sáttmálans er talað um sátt um auðlindanýtingu. Hún verður að byggjast á samtali og gagnsæi og byggja á faglegum vinnubrögðum, náttúruverndarlögum og alþjóðasamþykktum,“ segir í yfirlýsingu Landverndar.
Óttast samslátt umhverfis- og orkumála
Stjórn Landverndar segir enn fremur óttast þá ákvörðun að fella orkumál og náttúruvernd undir sama ráðuneyti, en Guðlaugur Þór Þórðarson mun fara með þau mál í nýrri ríkisstjórn.
Landvernd segir að það sé nauðsynlegt að náttúruvernd eigi sæti við ríkisstjórnarborðið og að með því að slá þessum málaflokkum saman sé „mikil hætta á að fjársterkir aðilar sem sækjast eftir að virkja og spilla íslenskri náttúru fái mun meira vægi í ákvarðanatöku.“
„Mikilvægu jafnvægi í stjórnsýslu er raskað með þessari ákvörðun og hvetur Landvernd ríkisstjórnina til að endurskoða þessa ákvörðun,“ segir í yfirlýsingu Landverndar. Þar segir einnig að erfitt verði „fyrir einn ráðherra að gæta hagsmuna umhverfisins um leið og hann er ráðherra orkumála“.
Stjórn Landverndar gagnrýnir fleiri skipulagsbreytingar í stjórnarráðinu og segir að það sé „mjög slæmt“ að slíta skipulagsmál úr samhengi við náttúruvernd og færa þau yfir í ráðuneyti innviða. Þá séu landgræðsla og skógrækt einnig gríðarstór umhverfismál sem verði að skoða heildstætt í samhengi við náttúruvernd og loftslagsmál.
Varhugaverð vindorkulög
Stjórn Landverndar segist einnig telja að það eigi að fara „mjög varlega í uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi og að þau eigi skilyrðislaust að falla undir rammaáætlun.“
Stjórnin telur í þvi ljósi að fyrirætlanir um að greiða götu vindorkuvera með sérlögum eins og talað er um í stjórnarsáttmálanum séu mjög varhugaverðar, en í stjórnarsáttmálanum segir að sérstök lög um nýtingu vindorku verði sett „með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku.“
Tilgreina þurfi aðgerðir, ekki bara markmið, í loftslagsmálum
Stjórnin segist fagna áformum ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55 prósent árið 2030 miðað við 2005 og markmiði um kolefnishlutleysi og full orkuskipti eigi síðar en árið 2040. Hins vegar sé það eitt að setja sér framsækið markmið og annað að tilgreina nauðsynlegar aðgerðir til að ná því markmiði.
„Fáein ár eru til stefnu og því mikilvægt að uppfæra fyrirliggjandi aðgerðaráætlun fljótt og vel og leggja fram sannfærandi tímasettar aðgerðir og áfanga að þessum markmiðum. Ríkisstjórnin verður einnig að útskýra hvað felst í „kolefnishlutleysi“ Íslands gagnvart landnýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda frá landi,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar.
Þar er það einnig sagt „fagnaðarefni“ að forsætisráðuneytið skuli fá það hlutverk að samræma allar stjórnvaldsákvarðanir sem lúta að markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem loftslagmálin snerti marga málaflokka.
Harma „undanhald“ með hálendisþjóðgarð
Í stjórnarsáttmálanum er horfið frá þeim fyrirætlunum sem voru mótaðar um hálendisþjóðgarð á síðasta kjörtimabili, en ekki reyndist sátt um málið þegar á reyndi. Þess í stað á að breyta lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og gera þegar friðlýst svæði á hálendinu að hluta hans.
Stjórn Landverndar segist harma það „undanhald“ sem ríkisstjórnin skipuleggi í verndun hálendisins. „Víðtæk samstaða er um það í samfélaginu að vernda beri hálendið fyrir virkjunum og öðrum mannvirkjum. Þá þarf að bæta verndun einstakra svæða, auka fræðslu og bæta öryggi þeirra sem vilja njóta víðerna, frelsis og náttúru á hálendinu. Besta leiðin til þess er að stofna þjóðgarð,“ segir stjórn Landverndar.