„Alvarlega ætti að skoða að koma á rafmagnslest frá Reykjavík til Keflavíkur sem myndi draga úr umferð einkabíla og flugrúta með tilheyrandi beinni losun en einnig töluvert minna sliti á vegum sem einnig er uppspretta losunar og svifryks.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Landverndar um drög að stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi sem birt voru í Samráðsgátt stjórnvalda nýverið. Landvernd bendir á að enn sé talsvert í að orkuskipti verði í flugi og því beri að huga að öðrum aðgerðum þar til þar að kemur.
„Það er löngu tímabært, og í raun skammarlegt, að Isavia hafi ekki tryggt Strætó gott aðgengi að flugvallarstæðinu,“ segir ennfremur í greinargerðinni og er þar vísað í greinargerð stefnudraganna þar sem segir að mikilvægt sé að samgöngur til og frá flugvelli fylgi þeim orkuskiptum sem stefnt er að í flugi. Skilgreina skuli reglur um vistvænar samgöngur til og frá flugvelli sem miða að því að einungis vistvænum ökutækjum sé heimill aðgangur á nærsvæði flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Við vinnu væri hægt að horfa til dæmi erlendis frá, s.s. Noregi. „Meðal þess sem skoða mætti er að opna á aðgengi fyrir umhverfisvæna strætisvagna að flugstöðinni.“
Hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi?
Landvernd bendir á að í þeim löndum sem við berum okkur saman við er lögð áhersla á góðar almenningssamgöngur til og frá flugvöllum. „Hér á landi virðist meiri áhersla vera lögð á að gæta hagsmuna einkafyrirtækja með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Að mati Landverndar ætti að skoða þennan þátt losunar tengdu flugi mun betur.“
Í febrúar 2021 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að skipa starfshóp sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi.
Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skipaði starfshópinn í apríl 2021 en hann var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta, sem og fulltrúum Samgöngustofu og Isavia. Við vinnu starfshópsins voru haldnir fundir með helstu hagsmunaaðilum í flugi hér á landi ásamt því sem rætt var við erlenda aðila.
Meðal þess sem lagt er til er að kanna möguleika á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði að Íslands verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi. Þá er einnig lagt til að unnið verði að því að allt innanlandsflug veðri knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040. Meðal annarra aðgerða er innviðauppbygging fyrir endurnýjanlegt eldsneyti á flugvöllum, orkusparnaður í loftýmisstjórnun og að átaksverkefni verði skilgreint innan Orkusjóðs sem tengist orkuskiptum í flugi.