Í lok síðasta mánaðar var atvinnuleysi hérlendis komið niður í fimm prósent, og var þá hlutfallslega jafn mikið og það var í febrúar 2020, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Í apríl 2020, þegar fjöldi fyrirtækja setti starfsfólk sitt á hlutabætur, mældist atvinnuleysið 17,8 prósent en 10,3 prósentustig féllu til vegna þeirra sem voru tímabundið sett á hlutabætur. Almennt atvinnuleysi mældist mest í janúar síðastliðnum, 11,6 prósent, og heildaratvinnuleysi að meðtöldum þeim sem enn voru á hlutabótum í þeim mánuði var 12,8 prósent.
Þrátt fyrir að atvinnuleysið hafi minnkað skarpt, og sé á sama stað hlutfallslega og það var fyrir faraldurinn, þá er ýmislegt enn ólíkt með stöðunni þá og nú. Þar ber helst að nefna langtímaatvinnuleysi og fjölda þeirra einstaklinga sem teljast starfandi vegna þátttöku í úrræðum á vegum hins opinbera.
Næstum helmingur án vinnu í meira en ár
Í febrúar 2020 voru aðstæður í íslensku atvinnulífi ekki fullkomnar. Atvinnuleysið, þá fimm prósent, hafði ekki mælst meira í næstu átta ár, eða síðan í apríl 2012. Eftir gjaldþrot WOW air og loðnubrest var lítill hagvöxtur á árinu 2019 og vonir stóðu til að árið 2020 yrði ár viðspyrnu. Kórónuveirufaraldurinn gerði þær vonir síðan að engu.
Í september síðastliðnum var fjöldi þeirra sem hafði verið án atvinnu í meira en ár 4.598. Hlutfall atvinnulausra sem hafði verið án starfs í ár eða lengur var 44 prósent og fjöldi langtímaatvinnulausra er 143 prósent meiri en hann var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Þúsundir á tímabundnum ráðningastyrkjum
Sem stendur eru enn í gildi svokallaðir ráðningastyrkir, sem greiddir eru út í tengslum við atvinnuátakið Hefjum störf. Það snýst um að ríkissjóður greiði þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum. Í síðasta mánuði voru 89 prósent auglýstra starfa átaksverkefni eða reynsluráðningar og mörg þúsund manns eru ráðin á þessum ráðningarstyrkjum.
Samkvæmt mælaborði Vinnumálastofnunar hafa 6.702 ráðningar átt sér stað á grundvelli átaksins frá 1. mars. Um 75 prósent þeirra ráðninga hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Langflest störfin sem ráðið hefur verið í á grundvelli ráðningastyrks tengjast ferðaþjónustu eða tengdum greinum.
Í ljósi þess að störfum í og í kringum ferðaþjónustu fjölgar iðulega mikið yfir sumartímann, þegar háannatími er í geiranum, má gera ráð fyrir því að störfum í geiranum fækki með haustinu þegar ferðamenn verða færri.
Atvinnuleysi útlendinga svipað og fyrir faraldur
Alls voru 4.144 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok september og fækkaði um 348 frá ágúst. Það þýðir að 40 prósent allra atvinnulausra voru erlendir atvinnuleitendur, sem er nánast sama hlutfall og var í febrúar 2020.
Atvinnuleysið er mest á Suðurnesjum nú, eða 9,1 prósent, en atvinnustigið þar er mjög háð því að mikið sé að gera í ferðaþjónustu vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll. Atvinnuleysið hefur hríðfallið þar frá því í byrjun árs þegar það var 23,3 prósent og er nú hlutfallslega það sama og það var fyrir kórónuveirufaraldurinn.