Gert er ráð fyrir því að verðbólgan nái hámarki á yfirstandandi ársfjórðungi og lækki svo með stöðugum hætti á næsta ári. Væntingar um verðbólgu eftir tvö ár hafa hins vegar haldist óbreyttar það sem af er ári. Þetta kemur fram í væntingakönnun markaðsaðila á verðbólgu sem Seðlabankinn gaf út í morgun.
Samkvæmt könnuninni er búist við 4,6 prósenta verðbólgu að meðaltali á síðustu þremur mánuðum ársins. Þar telja markaðsaðilar alþjóðlega verðþróun vega þyngst inn, en margir þeirra telja einnig hátt fasteignaverð og veikt gengi krónunnar munu eiga sinn þátt. Fáir telja þó að framboðshnökrar og hár flutningskostnaður muni hafa mikil bein áhrif á verðbólguna hérlendis.
Þetta eru hærri væntingar en markaðsaðilarnir höfðu í síðustu væntingakönnun sem gerð var í ágúst, en þá bjuggust þeir við að verðbólgan á yfirstandandi ársfjórðungi yrði komin niður fyrir 4 prósent.
Markaðsaðilar Seðlabankans eru 29 talsins og telja banka, lífeyrissjóði, verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, verðbréfamiðlana og önnur fyrirtæki með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum í könnuninni sem birt var í morgun.
Að meðaltali töldu svarendur könnunarinnar að verðbólgan yrði litlu minni í byrjun næsta árs, en að hún færi að minnka með stöðugum hætti út árið. Á síðasta fjórðungi næsta árs er svo búist við að verðbólgan verði komin niður í 3,1 prósent.
Aðspurðir hversu mikla þeir töldu verðbólguna vera eftir tvö ár töldu markaðsaðilarnir að hún myndi ná 2,8 prósentum. Þetta eru óbreyttar langtímavæntingar frá síðustu tveimur væntingakönnunum, en í byrjun árs var talið að verðbólgan yrði 2,6 prósent eftir tvö ár.
Kjölfestan enn ekki farin
Kjarninn hefur áður fjallað um langtímaverðbólguvæntingar, en samkvæmt útreikningum Agnars Tómasar Möllers, sjóðsstjóra hjá Kviku eignastýringu, hefur hún ekki enn hækkað fram úr öllu ráði, þrátt fyrir að verðbólga hafi ekki mælst hærri í níu ár.
Við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sagði hún það vera áhyggjuefni að verðbólguvæntingar virðast hafa tekið að hækka á ný. Of snemmt sé þó að segja til um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið sé að veikjast.