Kaup á fasteign er fyrir okkur flest einhver stærsta fjárhagslega ákvörðun sem við tökum á lífsleiðinni. Kaupunum fylgir lántaka upp á margar milljónir króna, sem við skuldbindum okkur til að greiða til baka á næstu árum eða áratugum. Þegar svo háar fjárhæðir eru í spilunum er best að vita sem mest um hvað málið snýst. Lánaformin sem bjóðast eru mismunandi og eitt lánaform hentar ekki öllum. Það sem hentar einum lántakanda getur verið ómögulegt fyrir annan.
Þessi grein er hluti af greinarflokki um þau atriði sem varða húsnæðislánatöku og önnur lán á Íslandi.
Nafnvextir og raunvextir
Af þeirri ástæðu einni að lánveitandinn vill bera eitthvað úr bítum við að lána þér peninga, þá bera íbúðalán vexti. Vextir eru það gjald sem við borgum fyrir að fá peninga að láni.
Þegar við tökum lán eru okkur sýndir nafnvextirnir sem lánið ber. Bankinn ákveður vextina og lítur til þess hvað hann telur ásættanlega ávöxtun umfram verðbólgu í landinu. Nafnvextirnir innibera þannig væntingar bankans um verðbólguþróun auk þess sem bankinn tekur mið af þeim vaxtakjörum sem hann fjármagnar sig á. Hann vill að útlánsvextirnir, það eru vextir á útlánum bankans, séu hærri en innlánsvextirnir.
Ef vextirnir eru fastir, til dæmis til þriggja eða fimm ára, þá leggur bankinn einnig á sérstakt óvissuálag.
Nafnvextir = raunvextir + verðbólga + óvissuálag
Með raunvöxtum er átt við vexti umfram verðbólgu. Raunvextir eru því lægri en nafnvextir, eða sem nemur verðbólgunni.
Raunvextir = Nafnvextir - verðbólga
Vaxtakjör eru lægri á verðtryggðum lánum en óverðtryggðum vegna þess að í vaxtakjörum verðtryggðra lána er ekki tekið tillit til verðbólgunnar. Verðtryggingin er í raun viðbótarvextir, jafn háir og verðbólgan, sem bætast aftan við höfuðstólinn. Bankinn þarf ekki að reikna óvissuálag, þar sem öll verðbólguáhætta liggur hjá lántakanum. Ef verðbólgan í landinu er t.d 5 prósent þá er vaxtaálag lánsins 8,5 prósent.
Fastir eða breytilegir vextir?
Bankarnir bjóða upp á lán með föstum vöxtum til ýmist þriggja eða fimm ára. Það þýðir einfaldlega að vextirnir munu ekki breytast á láninu þínu á þeim tíma, jafnvel þótt verðbólgan í landinu aukist eða minnki. Ef vextirnir eru breytilegir þá áskilur bankinn sér rétt til þess að breyta vaxtakjörunum milli mánaða.
Og hver er þá munurinn?
Hentar þér að borga breytilega eða fasta vexti í upphafi? Það fer til dæmis eftir því hvort þú teljir verðbólguna aukast eða minnka á næstu misserum. Ef það er líklegt að verðbólgan eykst, þá gæti verið sniðugt að festa vaxtakjörin. Ef vextirnir eru breytilegir þá munu vextirnir hækka samhliða aukinni verðbólgu.
Það er ekki auðveld að spá fyrir um verðbólguna, meira að segja fyrir langlærða sérfræðinga. Þeir sem tóku húsnæðislán fyrir örfáum árum með föstum vöxtum hafa til dæmis greitt hærri vexti en ella, vegna þess að verðbólgan hefur verið lág að undanförnu. Með öðrum orðum eru breytilegu vextirnir lægri en þegar vextirnir voru festir á láni sumra lántakenda.
Kostir við að festa nafnvexti er stöðugri greiðslubyrði milli mánaða. Ókosturinn getur verið hærri vaxtagreiðslur að jafnaði, vegna áhættuálagsins, auk þess sem vextirnir gætu verið of háir, lækki verðbólgan.
Breytilegir nafnvextir þurfa ekki að bera áhættuálag og ættu því að vera lægri að jafnaði. En breytilegir vextir geta hækkað ört ef verðbólgan hækkar og bankarnir ákveða að hækka vextina í takt við þróunina.