Eftirstöðvar lána sem Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) hefur veitt íslenskum námsmönnum frá 1976 til 2014 nema samtals um 208 milljörðum króna, samkvæmt nýlega birtum ársreikningi LÍN fyrir árið 2014. Á síðasta ári tóku námsmenn námslán upp á um 15,8 milljarða króna, eða um það bil einum milljarði minna en árið áður.
Lánum LÍN er skipt í fjóra mismunandi flokka eftir því á hvaða árum þau voru veitt. Eftirstöðvar lána sem voru tekin frá árinu 2005, svokölluð G-lán, nema alls tæplega 160 milljörðum króna, eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.
Eftirstöðvar LÍN lána | |
Lán veitt á árunum | Eftirstöðvar (í krónum) |
1976 - 1982 (V-lán) | 228.461.000 |
1982 - 1992 (S-lán) | 22.378.795.000 |
1992 - 2005 (R-lán) | 26.143.405.000 |
Frá 2005 (G-lán) | 159.285.948.000 |
Markaðskjaralán | 71.200.000 |
Samtals | 208.107.809.000 |
Lánaflokkarnir fjórir eru allir verðtryggðir en lánakjörin eru mismunandi. Lán veitt frá 1976 til 1992, það eru lán í flokkum V og S, eru verðtryggð en bera enga vexti. Lán veitt eftir 1992, það eru lán í flokkum R og G, bera eitt prósent vexti.
Samkvæmt útreikningum LÍN er núvirði útlána sjóðsins um 133 milljarðar króna í árslok 2014 en bókfært verðmæti útlána, að frádregnum afskriftum, er um 171,5 milljarðar króna. Mismunurinn á núvirði útlána og bókfærðu virði, samtals um 39 milljarðar króna, endurspeglar þann viðbótarkostnað sem fylgir því að reka Lánasjóðinn út núverandi lánstíma. Í ársreikningnum er þetta skýrt nánar og segir að núvirði sé reiknað miðað við 3,79% ávöxtunarkröfu. Krafan samsvarar meðalvöxtum þeirra langtímalána sem sjóðurinn hefur tekið hjá ríkissjóði. Með öðrum orðum eru vextir af lánum sem sjóðurinn tekur mun hærri en vextirnir á lánum sem sjóðurinn býður námsmönnum.