Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, hefur skrifað bók sem ber heitið „Uppgjör bankamanns“ og kemur út í lok þessarar viku. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að í kynningu á bókinni segi að það hafi ekki legið fyrir þegar Lárus var ráðinn forstjóri Glitnis að „fram undan væri rúmlega áratugar löng barátta í íslenska réttarkerfinu þar sem ákæruvaldið gekk mjög hart fram á meðan Lárus gaf allt sitt í vörnina“.
Um er að ræða fyrstu bókina sem æðsti stjórnandi eins þeirra banka sem féllu í bankahruninu haustið 2008 gefur út. Áður höfðu stórir eigendur slíkra banka þó gefið út bækur þar sem þeir lýsa sinni hlið. Þar er um að ræða Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleiganda Glitnis sem gaf út bókina „Málsvörn“ í byrjun árs í fyrra, og Björgólf Thor Björgólfsson, sem gaf út „Billions to Bust – and Back“ alþjóðlega árið 2014.
Lárus var ákærður í fjórum hrunmálum. Hann var sýknaður í svokölluðu Vafningsmáli í Hæstarétti í febrúar 2014 en sakfelldur í markaðsmisnotkunarmáli gagnvart nokkrum stjórnendum Glitnis í héraðsdómi í mars 2018 og áfrýjaði ekki þeirri niðurstöðu. Þá var hann endanlega sýknaður í svokölluðu Aurum-máli í Landsrétti í október 2018 en sakfelldur í svokölluðu Stím-máli í Landsrétti í júní 2020. Síðasti dómurinn í hrunmáli gegn Lárusi féll því næstum tólf árum eftir að Glitnir féll í október 2008.
„Íslendingar, einir þjóða, fóru markvisst á eftir starfsmönnum bankanna“
Lárus sætti gæsluvarðhaldi um tíma á árinu 2011 eftir að hafa verið handtekinn í tengslum við meint brot í tengslum við störf hans hjá Glitni. Upphaflega var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir hlut sinn í Stím málinu og í héraði fékk hann eins árs dóm fyrir Aurum-málið, en refsiramminn fyrir efnahagsbrot er sex ár. Þegar þriðja niðurstaðan féll á fyrsta dómstigi, í markaðsmisnotkunarmálinu, var honum því ekki gerð frekari refsing. Þeirri niðurstöðu ákvað Lárus að una.
Lárus var einungis þrítugur þegar hann var ráðinn forstjóri Glitnis vorið 2007. Hann hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Landsbanka Íslands í London og hjá Íslandsbanka-FBA.
Í frétt Morgunblaðsins um útgáfu bókarinnar kemur fram hún gefi mikilsverða sýn þeirra sem störfuðu í fjármálakerfinu og að Lárus varpi ljósi á efnahagshrunið og tengsl þess við hina alþjóðlegu fjármálakreppu. „Í bókinni fjallar Lárus um ýmislegt sem aflaga fór innan íslenska réttarkerfisins í tengslum við eftirleik hrunsins en Íslendingar, einir þjóða, fóru markvisst á eftir starfsmönnum bankanna. Fram kemur í bókinni að Lárus hafði réttarstöðu sakbornings í rúman áratug. Hann segir þar frá upplifun sinni af því þegar hann sætti gæsluvarðhaldi, hlerunum, húsleitum, margra vikna yfirheyrslum og loks fjórum ákærum.“