Mynd: Bára Huld Beck

Gerandi sem telur sig fórnarlamb ber fram þunna málsvörn

Í gær kom út bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir Jóhannesson. Þar rekja þeir hvernig Jón Ásgeir hafi verið ofsóttur af illviljuðu fólki í næstum tvo áratugi með afdrifaríkum afleiðingum. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur rýnt í verkið.

Ég hef lært að ekki sé kannski rétt að vera með meira en sjö járn í eld­in­um, ekki átta­tíu og fjögur eins og þegar mest var. Heims­veldi end­ast aldrei vel en eitt og eitt kon­ungs­dæmi getur lifað lengi. Og ég ætla ekki að spila sókn­ar­bolta allan seinni hálf­leik­inn”.

Þetta segir Jón Ásgeir Jóhann­es­son við rit­höf­und­inn Einar Kára­son í nýrri bók sem sá síð­ar­nefndi skrifar um hinn fyrr­nefnda og nefn­ist Málsvörn

Það er ekki ofsögum sagt að þetta sé einn af fáum lær­dómum sem Jón Ásgeir virð­ist hafa tekið með sér út úr 30 ára við­skipta­ferli. Að hann ætli sér bara að vera stað­bund­inn kóngur seinni hluta ævinn­ar, ekki taka yfir heim­inn.

Við­skipta­ferli sem gerði Jón Ásgeir, og fylgi­hnetti hans, að sér­stakri kerf­is­legri áhættu í íslensku efna­hags­lífi vegna þess að þeir skuld­uðu um tíma nán­ast öllum bönk­um, spari­sjóð­um, líf­eyr­is- og pen­inga­mark­aðs­sjóðum lands­ins meira af pen­ingum en áður hafði þekkst. Mætur maður skrif­aði einu sinni að honum fynd­ist stundum sem að það væru bara tvær lána­stofn­anir sem hafi ekki átt kröfur á Jón Ásgeir og félög sem honum tengd­ust eftir banka­hrun­ið: Byggða­stofnun og Lána­sjóður íslenskra náms­manna. Sú síð­ari lík­lega vegna þess að Jón Ásgeir stund­aði aldrei láns­hæft nám.

***

Bók Ein­ars er efn­is­mikil og á stundum ágæt­lega skemmti­leg aflestr­ar, sér­stak­lega þegar beinir þátt­tak­endur í atburðum eru að lýsa þeim með ítar­legri hætti en áður hefur sést. Saga Jóns Ásgeirs er enda stór­merki­leg. Ungur maður hefur versl­un­ar­rekstur með breyskum föður sem leiðir af sér við­skipta­veldi sem um tíma var með um 50 þús­und manns í vinnu og réð Tinu Turner til að syngja „Simply The Best“ á pepp-degi veld­is­ins sem hald­inn var í Mónakó.

Sú saga hefur hins vegar verið sögð ansi oft, meðal ann­ars af Jóni Ásgeiri sjálf­um, og lestur bók­ar­innar verður fljótt fremur þreyt­andi þegar á líður vegna þess að bókin sem Einar skrif­aði er ein­tóna og end­ur­tekn­ing­ar­söm. Meg­in­at­riði þess sögu­þráðar sem þar er spunn­inn eru þau sömu og finna má á málsvarn­ar­heima­síðu sem Jón Ásgeir setti í loftið 2017. 

Auglýsing

Fátt nýtt frétt­næmt er í henni fyrir þá sem fylgst hafa vel með Jóni Ásgeiri í gegnum tíð­ina. Það sést ágæt­lega á því að helstu frétt­irnar sem ratað hafa í fjöl­miðla úr bók­inni sið­ustu daga eru ann­ars vegar meintur vilji Gunnar Smára Egils­sonar til að fá far í einka­þotu snemma á öld­inni og það að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi gefið út reikn­ing fyrir styrkjum frá FL Group til flokks­ins eftir á. 

Athygl­is­verð­ast er sá ein­beitti vilji til að skauta stutt­lega yfir stór við­fangs­efni sem hafa tekið mikið pláss í íslenskri umræðu og fjalla um önnur með algjör­lega ógagn­rýnum hætti frá hlið við­fangs­ins.

Þótt rætt sé við tugi manna í bók­inni þá eiga við­mæl­end­urnir nær allir það sam­eig­in­legt að hafa með ein­hverjum hætti hagn­ast á Jóni Ásgeiri eða eiga í vin­fengi við hann. Þeir kepp­ast flestir um að lýsa honum sem strang­heið­ar­legum og ærlegum manni með sterka rétt­læt­is­kennd sem standi við allt sem hann segi. Það hefði verið styrkur fyrir bók­ina, þótt það hefði ein­ungis verið til mála­mynda, að tala við ein­hverja sem hafa tapað pen­ingum á Jóni Ásgeiri, sem telja hann hafa svikið sig í við­skiptum eða halda hann hafa beitt sér til að bregða fyrir þá fæti. Nú eða bara ein­hverja þeirra sem ásak­aðir eru um ýmis­konar óeðli­leg­heit í bók­inni. Þeir eru ansi margir og það er ekki erfitt að fá þá til að tala. 

Sýn keypti ljósvakamiðla 365 miðla í lok árs 2017. Þau viðskipti hafa reynst félaginu afar kostnaðarsöm.
Mynd: Bára Huld Beck

Taka má tvö stutt dæmi um við­skipti þar sem mót­að­ilar Jóns Ásgeirs töldu sig svikna. Bæði áttu sér stað eftir hrun. Ann­ars vegar þegar hann skaut fjöl­miðlum 365 miðla út úr móð­ur­fé­lagi þeirra eftir banka­hrun, og inn í nýtt félag í sinni eigu (sem hét Rauð­sól), með fjár­munum sem hann átti ekki að hluta og með 3,7 millj­arða króna tapi fyrir kröfu­hafa „gamla“ 365, sem voru meðal ann­ars líf­eyr­is­sjóðir og Lands­bank­inn. Yfir þessi við­skipti, sem hafa verið margupp­lýst í íslenskum fjöl­miðl­um, er skautað í bók­inni með nán­ast kostu­legum hætti og afar hlið­hollri sögu­skýr­ingu þar sem Jón Ásgeir er mál­aður upp sem frels­ari frjálsrar fjöl­miðl­unar á Íslandi. Þar er til að mynda ekk­ert minnst á að Jón Ásgeir og þrír aðrir stjórn­ar­menn í 365 sömdu um að greiða skaða­bætur til að sleppa undan mál­sókn vegna við­skipt­anna, enda lá fyrir mat dóm­kvaddra mats­manna um að 365 hefði verið ógjald­fært þegar fjöl­miðl­arnir voru seldir og því hefði átt að gefa félagið upp til gjald­þrota­skipta sam­kvæmt lög­um. 

Hægt er að lesa ítar­lega um þetta mál hér, í umfjöllun Kjarn­ans frá árinu 2014, en hún hefst á bls. 33. Vert er að taka fram að fjár­mun­irnir sem Jón Ásgeir og Ingi­björg Pálma­dótt­ir, eig­in­kona hans, fengu fyrir 365 á end­anum eru grunn­ur­inn að end­ur­komu hans í íslenskt við­skipta­líf á síð­asta ári. 

Hitt dæmið sprettur síðan úr þessum við­skipt­um. Þegar ljós­vaka- og net­miðlar 365 voru seldir til Sýn­ar. Í stuttu máli þá hefur Sýn stefnt Jóni Ásgeiri, Ingi­björgu og félagi þeirra til greiðslu 1,7 millj­arðs króna fyrir að brjóta gegn kaup­samn­ingi. 

Stjórn­endur Sýnar meta það aug­ljós­lega sem svo að það stand­ist ekki allt sem Jón Ásgeir seg­ir. 

***

Inn­tak bók­ar­innar og rauði þráður hennar er að Jón Ásgeir sé ofsóttur mað­ur. Þol­andi óbil­gjarnra öfund­ar­manna og hæl­bíta sem sættu sig ekki við snilld hans. Það eru nán­ast allir nema þeir sem voru dæmdir fyrir efna­hags­brot óheið­ar­leg­ir, væni­sjúkir eða ill­gjarnir svart­sýn­is­raus­ar­ar. Sumir eru allt þrennt. Sak­sókn­arar eru óheið­ar­leg­ir, lög­reglu­menn eru óheið­ar­leg­ir, dóm­stólar eru óheið­ar­leg­ir, stjórn­mála­menn eru óheið­ar­leg­ir, skila­nefndir bank­anna eru óheið­ar­leg­ar, frétta­menn og blaða­menn eru óheið­ar­leg­ir, gömlu heildsala­fjöl­skyld­urnar eru óheið­ar­legar og Eva Joly er sér­stak­lega óheið­ar­leg. Hér er nær örugg­lega verið að gleyma ein­hverjum óheið­ar­leg­um. 

Auglýsing

Sam­kvæmt bók­inni er Jón Ásgeir fórn­ar­lamb. Einar Kára­son lýsir honum þannig, að þar fari maður sem hafi „farið í gegnum mikla hakka­vél, mann sem hefði þurft að þola stór­kost­legt mót­læti og barist gegn ofurefli eða ein­hvers­konar skrímsli eða óvætt­i[...]Það var sótt að honum úr öllum átt­um. Í raun er óskilj­an­legt að ein­hver til­tek­inn þjóð­fé­lags­þegn skuli búa árum og ára­tugum saman við yfir­lýst og ódulið hatur og fjand­skap valda­mestu ráða­manna í sam­fé­lag­inu. Og það í rétt­ar­ríki, lýð­ræð­is­þjóð­fé­lag­i.“

Tveir áður nánir sam­starfs­menn Jóns Ásgeirs ná reyndar að lýsa honum á aðeins annan hátt í bók­inni. Lárus Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóri Glitn­is, segir að Jón Ásgeir hafi verið ágengur maður sem hafði verið „góður að spila með bank­ana og örlátur á þókn­an­ir“. Stefán Hilm­ars­son, fyrr­ver­andi fjár­mála­stjóri Baugs, segir í bók­inni að íslensku bank­arnir hafi haft svo mikla trú á Jóni Ásgeiri að þeir hafi fengið honum í hendur meiri pen­inga en hægt væri að ná út úr þeim í lánum nú til dags. Hans helsti galli hafi verið tregða Jóns Ásgeirs til að selja það sem hann keypt­i. 

Í þessum lýs­ingum þeirra Lárusar og Stef­áns er kom­ist að kjarn­anum í við­skipta­mann­inum Jóni Ásgeiri: Ágengur mað­ur, sem spil­aði með banka, var örlátur á þókn­an­ir, bjó yfir náð­ar­gáfu til að fá óheyri­legar fjár­hæðir lán­aðar og seldi helst aldrei neitt sem hann keypti. Þegar hann seldi þá var það oft­ast til við­skipta­fé­laga sinna, að því er virð­ist í þeim til­gangi að verða sér úti um enn meira lánsfé eða til að hækka ætlað virði eign­anna. 

Jón Ásgeir sagði í við­tali við Kveik vegna útkomu bók­ar­innar að það hefði ekki allt sem hann keypti verið lélegt. Og það er auð­vitað rétt. Sumar eignir voru góð­ar. En rosa­lega margar voru lélegar og keyptar á yfir­verð­i. 

Styrk­leiki bók­ar­innar liggur í atvika­lýs­ingum eins og þeim sem minnst er á hér að ofan sem, að því er virð­ist, stang­ast óvart á við þann sögu­þráð sem Einar og Jón Ásgeir reyna að spinna og þau áhrif sem bók­inni er ætlað að hafa. Á milli þess sem Jón Ásgeir er mærður fyrir að vera séní í við­skiptum koma lýs­ingar sem sýna fram á hið gagn­stæða, og kannski ein­fald­leik­ann sem ein­kennir hann. 

Lárus Welding, fyrrverandi bankastóri Glitnis, er nokkurs konar rödd skynseminnar í bókinni.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Jón Ásgeir sagði í rétt­ar­sal fyrir nokkrum árum, þar sem réttað var yfir honum í Aur­um-­mál­inu svo­kall­aða, að „frekja og eft­ir­fylgni er ekki glæp­ur“. Málið sner­ist um sex millj­arða króna lán­veit­ingu út úr Glitni og hvort í henni fælust umboðs­svik eða ekki. Af upp­hæð­inni var einum millj­arði króna ráð­stafað inn á per­sónu­legan banka­reikn­ing Jóns Ásgeir­s. 

Það var eina málið sem hann var ákærður fyrir í tengslum við hrun­ið. Fjöl­mörg önnur voru könnuð og rann­sökuð en ein­ungis þetta eina þótti þess eðlis að lík­indi til sak­fell­ingar voru talin meiri en lík­indi til sýknu af ákæru­vald­inu. Í mál­inu var Jón Ásgeir ákærður fyrir hlut­deild í umboðs­svikum fyrir skugga­stjórn­un. Hann sendi ítrekað fyr­ir­mæli til stjórn­enda Glitnis þar sem hann, aðal­eig­and­inn, var að segja þeim fyrir verkum varð­andi lán­veit­ingar til sín og gaf til kynna að ef honum yrði ekki hlýtt myndi það hafa afleið­ingar

Á end­anum var Jón Ásgeir sýkn­að­ur. Það var nú allt dóms­morðið í þessu eina hrun­máli gegn hon­um. Það reynd­ist rétt að frekja og yfir­gangur sem þessi er ekki ólög­leg sam­kvæmt nið­ur­stöðu íslenskra dóm­stóla. 

Þótt athæfi Jóns Ásgeirs hafi ekki verið dæmd ólög­leg þá er ekki þar með sagt að þau hafi ekki valdið sam­fé­lags­legum skaða. Og séu þess eðlis að þau megi, og eigi, að gagn­rýna. Eða er það svo að allt sem er ekki bein­línis glæpur er í lagi, sama hverjar afleið­ing­arnar verða fyrir aðra?

Hvat­inn á bak­við margt sem lýst er í bók Ein­ars er líka flestu fólki fjar­lægð­ur. Á einum stað er til að mynda lýst ótrú­lega óþroskuðu, eig­in­lega barna­legu, við­horfi til við­skipta. Þar segir Lárus Weld­ing, sem er óvænt nokk­urs konar rödd jarð­teng­ingar í bók­inni, frá því hvað hafi ráðið aðkomu Jóns Ásgeirs að Glitni banka. „Björg­ólfs­feðgar voru í Lands­bank­an­um. Ólafur Ólafs og Bakka­var­ar­bræður í Kaup­þingi, og þess vegna fóru Jón Ásgeir og félagar að byggja sig upp í Glitn­i.“ 

Jón Ásgeir keypti því ekki banka vegna þess að hann hafði áhuga eða þekk­ingu á banka­rekstri, heldur vegna þess að honum lang­aði í alveg eins dót og hinir freku strák­arn­ir. Hann þurfti þetta til að ná valda­jafn­væg­i. 

Á öðrum stað er haft eftir Jóni Ásgeiri sjálf­um, þar sem hann ræðir aðkomu sína að FL Group, að það hefðu verið mis­tök hjá honum að ger­ast ráð­andi hlut­hafi í því félagi. „Lík­lega var það bara græðgi að fara inn í þetta. Manni fannst kannski ekki ganga alveg nógu hratt í Baugi og ætl­aði kannski að stytta sér leið með FL. Við hefðum átt að stick to our guns.“

Þetta er með heið­ar­legri hlutum bók­ar­inn­ar. Og eina skiptið í henni sem Jón Ásgeir við­ur­kennir hreint út að tær græðgi hafi stýrt hon­um.

***

Eftir að hafa melt bók­ina í kjöl­far lest­urs varð nið­ur­staðan eig­in­lega sú að það er ekki hægt að skrifa um hana án þess að skrifa líka um allt það sem er ekki í henni. Hina hlið­ina á þeim stóru málum sem Einar fjallar um en gerir nán­ast enga til­raun til að nálg­ast með gagn­rýnum hætti eða með því að vinna sjálf­stæða rann­sókn á. Orð við­fangs og vina eru látin duga og á stundum gerir höf­undur þau að sín­um. 

Þar er helst um að ræða Baugs­málið svo­kall­aða, banka­hrun­ið, skuld­setn­ingu hans og hin mikla aðkoma Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar að íslenskum fjöl­miðl­um.

Baugs­málið

Rauði þráð­ur­inn í málsvörn Jóns Ásgeirs er að hann hafi verið ofsóttur af Davíð Odds­syni, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra og núver­andi rit­stjóra Morg­un­blaðs­ins, fyrir að hafa notið vel­gengni sem rím­aði ekki við það hand­rit sem Davíð hafði skrifað af því frjálsa og opna Íslandi sem hann hélt sig hafa skap­að. 

Óþokki sögunnar hans Jóns Ásgeirs er Davíð Oddsson. Þeir fjandmennirnir eru þó örugglega líkari en báðir myndu viðurkenna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Jón Ásgeir hefur auð­vitað mikið til síns máls. Davíð og fylgi­hnettir hans höt­uðu Jón Ásgeir eins og skæða pest og beittu sér ítrekað til að bregða fyrir hann fæti. Í bók­inni er rakið að Davíð hafi talað fjálg­lega um það við Ólaf Ragnar Gríms­son, þá for­seta Íslands, snemma á þess­ari öld að Baugs­menn yrðu brátt komnir á bak­við lás og slá, áður en þeir höfðu verið hand­teknir og hvað þá ákærð­ir. Þar er líka farið yfir það þegar Davíð samdi sjálf­ur, eða lét semja fyrir sig, fjöl­miðla­frum­varp sem beint var ein­ungis gegn Jóni Ásgeiri og eign­ar­haldi hans á fjöl­miðl­u­m. 

Og margt var athuga­vert við það hvernig ákær­urnar í Baugs­mál­inu voru smíð­að­ar. Þær voru allt of umfangs­miklar enda var flestum liðum þeirra vísað frá fyrir dómi. En það er gott að hafa það hug­fast að Jón Ásgeir Jóhann­es­son hlaut dóm í Baugs­mál­inu. Og 2012 var hann dæmdur til refs­ingar og greiðslu sektar fyrir stór­felld skatta­laga­brot. Þótt Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafi síðar kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að það hefði ekki mátt refsa honum tví­vegis fyrir það brot (honum hafði þegar verið gert að greiða álag og á end­ur­á­lagn­ingu vegna skattsvikanna) breytir engu um efn­is­lega nið­ur­stöðu þess dóms. 

Það að Davíð Odds­son hafi verið skað­ræði sem í krafti mik­illa valda sinna beitti þeim með óbil­gjörnum hætti gegn Jóni Ásgeiri, og reyndar ýmsum öðrum, gerir Jón Ásgeir ekki að góða karl­inum í þess­ari sögu. Hann tók ekki síður fast á móti í þeirri bar­áttu, sem leiddi til þess að íslensku sam­fé­lagi var um langt skeið haldið í helj­ar­g­reipum sjúk­legrar pissu­keppni tveggja valda­karla, ann­ars sem sat í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu og hins sem sat á áður óséðri pen­inga­hrúgu, þar sem fót­göngu­liðar þeirra ömuð­ust við að stilla sem flestum upp í annað hvort lið Bláu hand­ar­innar eða Baugslið­ið. Aðrir á þessum víg­velli, þar með talið venju­legt fólk, var ófyr­ir­séður en rétt­læt­an­legur skaði.

Þeir eru nefni­lega gletti­lega líkir á margan hátt, Davíð og Jón Ásgeir, þegar grannt er skoð­að. Og báðir hafa þeir ríka þörf til að reyna að end­ur­skrifa sög­una sér í hag. Davíð hefur gert það dag­lega úr rit­stjórn­ar­stóli í rúman ára­tug. Jón Ásgeir reynir að gera það með því að fá virtan rit­höf­und til að skrifa málsvörn sína í bók­ar­formi. 

Bókin er því, kannski eðli­lega, ansi sjálf­hverf. Það er eins og ára­tugur í lífi þjóðar hafi aðal­lega snú­ist um Jón Ásgeir og Davíð Odds­son. 

Þorri almenn­ings hélt þó með hvor­ug­um, og hafði margt annað við tíma sinn að gera en að skil­greina allt sam­fé­lagið út frá ósætti þeirra tveggja. Sumar sögur eru nefni­lega þannig að það eru engar hetj­ur, bara skúrk­ar. Svo er vissu­lega hægt að ríf­ast um hver sé mesti skúrk­ur­inn. 

Hrunið

„Þarna náði hann okk­ur,“ segir Jón Ásgeir um hrunið í bók­inni og átti þar við Davíð Odds­son, sem áfram er í stóru hlut­verki þegar frá­sögnin færir sig yfir í hrun­ið. Svo virð­ist sem að hann telji að heift eins manns í sinn garð hafi verið ráð­andi breyta í því að heilt banka­kerfi hafi hrunið yfir íslenskt sam­fé­lag. Og nær þar með að sýna fram á sjálf­hyggju í áður óþekktum hæð­u­m. 

Jón Ásgeir eyddi miklum tíma í réttarsal vegna svokallaðra hrunmála. Hann var ekki sakfelldur fyrir nein lögbrot í tengslum við hrunið.
Mynd: Kjarninn

Það kemur kannski ekki neinum sér­stak­lega á óvart en Jón Ásgeir er ekki sam­mála þeirri almennu sögu­skýr­ingu um ástæður banka­hruns­ins sem meðal ann­ars er sett fram í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis og ýmsum ritum fræði­manna eða blaða­manna sem skoðað hafa mál sjálf­stætt, gagn­rýnið og út frá gögn­um. Þ.e. að menn með enga banka­reynslu og teygj­an­lega sið­ferð­is­kennd en mik­inn áhuga á skuld­settum yfir­tökum hafi, ásamt sof­andi stjórn­mála­mönnum og lélegum eft­ir­lits­stofn­un­um, búið til vít­is­vél á nokkrum árum sem hafi svo hrunið yfir íslenskan almenn­ing með látum haustið 2008. 

Í bók Ein­ars kemur nokkuð skýrt fram að Jón Ásgeir hefur þá skoðun að banka­kerfið hefði ekk­ert þurft að falla. Ef eitt­hvað annað fólk en hat­urs­menn hans hefðu verið í ákvörð­un­ar­töku á emb­ætt­is­manna- og stjórn­mála­hlið­inni hefði verið hægt að stunda betri vinnu­brögð og mark­viss­ari aðgerðir þegar hrunið blasti við. Á einum stað segir hann: „Eftir á að hyggja þá er ég viss um að þetta hefði ekki farið svona illa ef Ingi­björg Sól­rún hefði verið á staðn­um.“ Hvað þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra, sem glímdi við erfið veik­indi og var erlendis vegna þeirra þessa örlaga­ríku daga, hefði átt að gera til að koma í veg fyrir banka­hrun er ekki sér­stak­lega skýrt í bók­inn­i. 

Þar segir hins vegar að Jón Ásgeir telji að ef gert hefði verið „svipað og í Banda­ríkj­unum réttum tveimur vikum fyrr þegar menn sáu fram á fall Lehman, að allir banka­menn og sér­fræð­ingar hefðu verið kall­aðir inn til fundar í Seðla­bank­anum og sagt að fara ekki þaðan út fyrr en ljóst væri að skástu lausnir hefðu fund­ist – öllum hefði verið falið að vinna saman til að bjarga kerf­inu – þá hefði kannski mátt minnka skað­ann mik­ið[...]Hefðu menn skoðað málin af fullu viti og algerri fag­mennsku, þá hefðu þau aldrei klúðr­ast jafn herfi­lega og þau gerð­u.“ 

Til við­bótar segir hann að kröfu­hafar sínir hafi gert mikil mis­tök með því að leyfa hinu svo­kall­aða Project Sun­rise að verða ekki að veru­leika. Það hefði þýtt að í stað þess að setja Baug í þrot yrði félag­inu breytt í nokk­urs­konar eigna­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki undir stjórn Jóns Ásgeirs, þrátt fyrir að vera gjald­þrota. Þannig ætl­aði hann á nokkrum árum að sjá til þess að eignir Baugs myndu duga fyrir skuldum og það sem eftir stæði fengi hann í eigin vasa. Ótrú­legt en satt þá treystu íslensku kröfu­hafar honum ekki í verk­efn­ið. Um það hvað fékkst mikið upp í lýstar kröfur í þrotabú Baugs má lesa hér aðeins neð­ar. Skipta­stjóri Baugs sagði síðar að félagið hefði verið ógjald­fært snemma á árinu 2008, löngu áður en bank­arnir hrundu og um ári áður en Baugur varð end­an­lega úrskurðað gjald­þrota. Þegar gjald­þrotakrafan var lögð fram sögðu lög­menn stærstu kröfu­hafa auk þess að stjórn­endur Baugs hefðu beitt blekk­ingum með því að gefa rangar og vill­andi upp­lýs­ingar um fjár­hags­stöðu félags­ins. Eigið fé væri í raun nei­kvætt á þessum tíma um 148 millj­arða króna. 

Nú er vert að benda á að stjórn­endur allra stærstu bank­anna á Íslandi hafa hlotið dóm fyrir mark­aðs­mis­notkun sem er eins­dæmi á heims­vísu. Í henni fólst að þeir héldu hand­virkt uppi virði hluta­bréfa í bank­anum með því að lána vild­ar­vinum og starfs­mönnum ótrú­legar fjár­hæðir til að kaupa bréf­in, í flestum til­fellum þannig að áhættan sat öll eftir hjá bank­an­um. 

Jón Ásgeir virð­ist raunar hafa verið að fullu með­vit­aður um þessa stöðu. Haft er eftir Sig­ur­jóni Þ. Árna­syni, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, í bók­inni að „Kaup­þings­menn­irnir réðu að sjálf­sögðu Kaup­ingi; í þeirra röðum voru Bakkvar­ar­bræð­ur, en Sig­ur­jón segir að sumir hafi talið að þeir hafi í raun­inni bara setið á hluta­bréfum í bank­anum sem bank­inn átti sjálf­ur; hann hafi heyrt Jón Ásgeir kalla þá „bréf­ber­ana“ með til­vísun til þess.“

Þetta hafði staðið yfir árum saman sam­hliða ótrú­legu útlána­austri til stærstu eig­enda bank­anna sem gerðu það að verkum að til varð tif­andi kjarn­orku­sprengja í íslenska fjár­mála­kerf­inu, sem var orðið marg­falt stærra en árleg íslensk þjóð­ar­fram­leiðsla. Það var ljóst að ríkið eða seðla­bank­inn gátu ekki stutt við þessi spila­víti ef illa færi. Ef einn banki færi, færu all­ir. Og seinni tíma skoðun hefur auð­vitað sýnt að bank­arnir voru í raun löngu farn­ir. 

Auglýsing

Páll Harð­­ar­­son, þá for­­stjóri Kaup­hallar Íslands, lýsti þess­­ari stöðu sem upp var komin við hrunið ágæt­­lega í grein á Kjarn­­anum í byrjun apr­íl 2016. Þar sagði hann meðal ann­­ars að mjög vafa­­samir starfs­hættir hafi við­­geng­ist fyrir hrun. „Al­var­­­leg lög­­­brot voru fram­in. Afleitir við­­­skipta­hættir kostuð­u gríð­­­ar­­­lega fjár­­­muni og mikla þján­ingu. Stór­­­kost­­­leg mark­aðs­mis­­­­­notkun átti sér­ ­stað. Trú á mark­aðs­hag­­­kerfið og hið frjálsa fram­­­tak hefur beðið hnekki.“

Þennan hóp sem bjó til ofan­greinda stöðu vildi Jón Ásgeir setja saman inn í her­bergi og láta leysa þau vanda­mál sem íslenskt efna­hags­kerfi stóð frammi fyrir í hrun­in­u. 

Bless­un­ar­lega bar okkur gæfa til að gera það ekki. 

Skuld­settar yfir­tökur

Það er ágætt að hafa í huga að sam­kvæmt skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis skuld­uðu félög tengd Jóni Ásgeiri og Baugi yfir þús­und millj­arða króna þegar bank­arnir hrundu. Ýmsir sem það hafa skoðað telja skuld­irnar hafa verið enn meiri. Sjálfur hefur hann ítrekað gagn­rýnt þessa fram­setn­ingu.

Allir hljóta þó að vera sam­mála um að skuld­irnar voru óheyri­lega mikl­ar. Þær voru líka svo víða, og í gegnum svo mörg félög (hann kom að rekstri 84 félaga þegar mest lét), að Jón Ásgeir var orð­inn að sjálf­stæðri kerf­is­á­hættu fyrir Ísland. Þetta fékk meðal ann­ars að ger­ast vegna þess að skil­grein­ingar á tengdum aðilum voru eins og atriði úr Monthy Python-­mynd. Jón Ásgeir og eig­in­kona hans voru til að mynda ekki skil­greind sem tengd. 

Öll þessi staða gerði það að verkum að ef hann og Baugur myndu falla, félli öll spila­borgin með. 

Í skýrsl­unni stendur orð­rétt: Rann­sókn­ar­nefnd Alþingis telur að sam­þjöppun áhættu hjá íslensku bönk­unum hafi verið orðin hættu­lega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði á þetta við um lán­veit­ingar til ákveð­inna hópa innan hvers banka en jafn­framt að sömu hópar hafi myndað stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum hafi kerf­is­leg áhætta vegna útlána verið orðin veru­leg. Skýrasta dæmið um þetta er Baugur Group og fyr­ir­tæki honum tengd. Í öllum þremur stóru bönk­unum og Straumi-­Burða­r­ási var Baugs­hóp­ur­inn orð­inn of stór áhætta. Það er ámæl­is­vert að áhættu­stýr­ingar bank­anna hafi leyft þess­ari áhættu að byggj­ast upp. Fyrir utan þá miklu áhættu sem hver banki bar vegna Baugs­hóps­ins mátti öllum bönk­unum vera ljóst að skuld­setn­ing hóps­ins í öðrum bönkum væri einnig veru­leg. Í öllum bönk­unum virð­ast lausnir á þessum vanda hafa mið­ast að því að rök­styðja fyrir eft­ir­lits­að­ilum að ekki væri um mikla sam­þjöppun áhættu að ræða fremur en að horfa til raun­veru­legrar áhættu og reyna að draga úr henn­i“. 

Jón Ásgeir segir í bók­inni að hann hafi ekki keypt stóran hlut í Glitni til að „til að hola hann að inn­an“. En á svip­uðum stað segir hann hins vegar líka að honum hafi verið mikið í mun að kom­ast til áhrifa í Glitni vegna þess að helstu keppi­nautar hans hefðu verið eig­endur hinna bank­anna tveggja. Ef eig­endur Lands­bank­ans hefðu „hert tök­in“ hefði þeir getað gert honum erfitt fyrir um lán þar. Sama ætti við um Kaup­þing. „Þess vegna fór hann að kaupa í Glitn­i.“  

Þegar skað­inn af starf­semi Jóns Ásgeirs fyrir aðra er met­inn má benda á nokkra hluti. Í fyrsta lagi gjald­þrot félaga honum tengd­um. Þegar skiptum á Baugi Group lauk sum­arið 2019 kom í ljóst að 2,7 pró­sent hafði feng­ist upp í 424 millj­arða króna lýstar kröf­ur. 

Jón Ásgeir og Baugur eru á meðal helstu umfjöllunarefna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sem kom út í apríl 2010.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar skiptum lauk í Gaumi, fjöl­skyldu­fé­lagi Jóns Ásgeirs, árið 2016 kom í ljós að 14,8 millj­ónir króna feng­ust upp í almennar kröfur í búið, sem námu 38,7 millj­örðum króna. Alls feng­ust því 0,067 pró­sent upp í almennar kröfur í búið. Skömmu áður var einnig greint frá því að BG-fast­eign­ir, sem hafði verið í eigu Baugs Group, hefði verið gert upp. Þar námu kröf­urnar 17 millj­örðum króna en um ein milljón króna fékkst upp í þær. 

Þetta eru ein­ungis þrjú dæmi af mörgum um afleið­ingar fyr­ir­tækja­rekstrar Jóns Ásgeir­s. 

Pen­inga­mark­aðs­sjóðir Lands­bank­ans, Glitnis og Kaup­þings voru troð­fullir af bréfum frá Baugi og FL Group. Þeir sem „áttu“ þá sjóði voru að stóru leyti venju­legt fólk sem hvatt hafði verið til að setja sparnað sinn í arð­bær­ari ávöxt­un. En end­aði með að tapa hluta af sparn­aði sínum þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ákveðið að dæla um 130 millj­örðum króna inn í pen­inga­mark­aðs­sjóð­ina til að laga stöðu þeirra. Jón Ásgeir neit­aði því í nýlegu við­tali við Kveik að þessir sjóðir hefðu verið svika­mylla. Les­endur eru hvattir til að lesa um þá hér og taka upp­lýsta ákvörðun um hvað þeim finnst um mál­ið.

Í skýrslu um starf­semi líf­eyr­is­sjóða í aðdrag­anda hruns­ins, sem birt var snemma árs 2012, kom fram að Baugur og tengdir aðilar hefðu tapað 77,2 millj­örðum króna af pen­ingum líf­eyr­is­sjóða lands­manna. 

Það töp­uðu því margir miklu á Jóni Ásgeiri og veldi hans.

Hér er látið vera, þar sem þessi grein er þegar allt of löng, að fara yfir furðu­fléttur á borð við þá sem ofin var í kringum til­urð 1998 ehf., NTH/­Sterl­ing-­málið, Skelj­ungs­söl­urnar, Stím, Sólin Skín og Styttu, svo fáeinar séu nefnd­ar. Eða nýt­ingu félaga tengdum Jóni Ásgeiri á Byr og SPRON. Eða um raun­veru­leik­ann í kringum Pana­ma-­starf­semi þeirra hjóna (sjá hér, hér og hér). En áhuga­samir eru hvattir til að nýta sér hlekk­ina í þess­ari efn­is­grein vilji þeir kafa dýpra ofan í þau mál.

Auglýsing

Lær­dóm­ur­inn sem Jón Ásgeir hefði getað dregið af fyrra lífi sínu í við­skiptum er að það hentar honum ekki að sýsla með almenn­ings­hluta­fé­lög, vegna þess að hann á mjög erfitt með að setja sig í spor hinna hlut­haf­anna og horfa til ann­arra hags­muna en sinna eig­in. Frekjan og græðgin ræður ávallt för. Þeir sem verða fyrir honum eru ó­fyr­ir­séður en rétt­læt­an­legur skaði.

Þann lær­dóm hefur hann aug­ljós­lega ekki dregið þegar horft er til end­ur­komu hans í íslenskt við­skipta­líf. Það er nefni­lega ekki ein­ungis hann af holdi og blóði sem er að koma til baka. Hann er að koma með skuld­setta yfir­töku­formið með sér, eins og sást nýverið þegar hann komst til meiri­hluta­á­hrifa í almenn­ings­hluta­fé­lag­inu Skelj­ungi með hætti sem fór væg­ast sagt illa í suma líf­eyr­is­sjóð­ina sem áttu þar stóra hluti fyr­ir. 

Fjöl­miðlar

Að lokum er vert að fjalla um aðkomu Jóns Ásgeirs að fjöl­miðla­rekstri á Íslandi, en hann var meira og minna eig­andi eða stjórn­andi stærstu einka­reknu fjöl­miðla­fyr­ir­tækja lands­ins á fyrstu tveimur ára­tugum þess­arar ald­ar. Það ferli byrj­aði með því að hann keypti Frétta­blaðið en síðar bætti hann við sig sjón­varps- og útvarps­stöðv­um, fleiri prent­miðlum og ýmsum vef­miðl­u­m. 

Í bók­inni segir Jón Ásgeir að hann hafi aldrei skipt sér að rit­stjórn Frétta­blaðs­ins. Til að barna þá hug­mynd ræðir höf­undur bók­ar­innar við einn gam­al­reyndan og prýði­legan blaða­mann sem lengi vann á miðlum í eigu Jóns Ásgeirs sem sagð­ist aldrei hafa fundið fyrir hon­um. Vert er að taka fram að eng­inn ástæða er til að rengja þá upp­lifun blaða­manns­ins. En á það verður líka að benda að hann hefur ekki verið stjórn­andi á þessum miðlum og ekki sinnt umfjöllun um við­skipti, efna­hags­mál eða dóms­mál að jafn­aði. Því er afskipta­leysi Jóns Ásgeirs af þessum eina blaða­manni ekki sönnun þess að hann hafi ekki beitt sér innan fjöl­miðla sinna. Því það gerði hann. 

Til er fullt af dæmum um óeðli­leg afskipti Jóns Ásgeirs að fjöl­miðlum sem hann átti. Það svæsnasta, og ein mesta mis­notkun á fjöl­miðli í Íslands­sög­unni, var átta síðna auka­­blað sem gefið var út um ákær­­urnar í Baugs­­mál­inu á sínum tíma. Við hvern ákæru­lið voru hengdar athuga­­semdir sak­­born­inga þar sem þeir sögðu allt málið vera þvælu. Sam­hliða voru birt drottn­ing­ar­við­töl við Jón Ásgeir og Jóhann­es, föður hans, í blað­inu. Við­tölin voru send út til lög­fræð­inga þeirra til yfir­lestrar áður en þau voru birt, sem var í and­stöðu við siða­reglur Frétta­blaðs­ins. 

Hvaða sak­born­ingi, í nokkru máli fyrr eða síð­ar, hefur verið boðið svona lagað í Íslands­sög­unni? Svarið er engum öðr­um. Heldur virki­lega ein­hver að það sé til­viljun að um eig­anda blaðs­ins var að ræða?

Fréttablaðið varð að stórveldi í íslenskum fjölmiðlaheimi á meðan að Jón Ásgeir Jóhannesson átti það. Blaðið má muna fífil sinn fegurri og lestur þess í dag er einungis brot af því sem hann var á fyrsta áratug aldarinnar.
Mynd: Bára Huld Beck

Stjórn 365 miðla, skipuð full­trúum eig­enda, setti blaða- og frétta­mönnum sínum síðar nýjar siða­regl­ur. Á meðal þess sem þær áttu að gera var að taka mið af gildum 365. Eitt þeirra var arð­semi. Í lögum um fjöl­miðla segir að fjöl­miðla­veita sem sinnir frétta­skrifum eigi að „setja sér reglur um rit­stjórn­ar­legt sjálf­stæði þeirra starfs­manna sem sinna fréttum og frétta­tengdu efni. Slíkar reglur skulu mót­aðar í sam­ráði við við­kom­andi starfs­menn og fag­fé­lög þeirra eða sam­tök.“ Ekk­ert er um það í lögum að blaða­menn eigi að láta arð­sem­isvænt­ingar eig­enda stýra sið­ferð­is­vit­und sinni. Enda slíkt ómögu­legt. Það að eig­endur 365 hefði dottið þetta í hug, að tengja siða­reglur við arð­semi, lýsir þó ákveðnu við­horfi til fjöl­miðla, sem hefur ekk­ert með eðli­legt hlut­verk þeirra að ger­a. 

Í þeim siða­reglum sem samdar voru af stjórn 365 stóð meðal ann­ars að sú meg­in­regla gilti að „að­ilar umfjöll­un­ar­efnis eiga rétt á að koma að sínum sjón­ar­miðum sem og að njóta verndar frá ómál­efna­legri og ólög­legri umfjöll­un.“ Þegar grein­ar­höf­undur starf­aði hjá 365 um tíma var það upp­lifun hans að Jón Ásgeir túlk­aði þetta ákvæði siða­regln­anna, sem full­trúar hans í stjórn settu, á þann hátt að hann ætti óskor­aðan rétt til að hengja hreinar athuga­semdir við allar fréttir sem skrif­aðar yrðu um hann. Svipað og hann fékk að gera þegar ákær­urnar í Baugs­mál­inu voru birt­ar. 

Vert er að taka fram að ég sagði upp störfum hjá 365 fyrir nú átta árum síð­an, vegna ágrein­ings sem staf­aði upp­haf­lega um þessa túlk­un, en vatt síðar veru­lega upp á sig þegar ljóst var að ekki var um eins­dæmi að ræða. 

Þá upp­lýsti rit­stjóri Frétta­blaðs­ins á þeim tíma, Ólafur Steph­en­sen, mig um að stutt frétt sem hafði birst í blað­inu nokkrum mán­uðum áður um að félag í eigu eig­in­konu Jóns Ásgeirs hefði ekki skilað árs­reikn­ingum árum saman (sem er ólög­legt) hefði leitt til þess að Jón Ásgeir hefði kraf­ist þess að ég yrði rek­inn. Ekki vegna þess að fréttin væri röng eða að ekki hafi verið reynt að nálg­ast sjón­ar­mið and­lags henn­ar, heldur vegna þess að hún var sögð. Síðar stað­festi sami rit­stjóri að þetta væri ekki í eina skiptið sem eig­and­inn hefði farið fram á brott­rekstur minn. Í kjöl­farið sagði ég upp, enda ekk­ert vit í því að vinna fyrir fólk sem vill ekki hafa þig í vinn­u. 

Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Hann er í dag framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Mynd: Hringbraut

Ólafur fór á þessum tíma í við­tal á Bylgj­unni og sagði: „Ég get bara sagt það að ég kann­­ast al­­veg við það að Jón Ásgeir hafi verið mjög ósátt­ur við frétta­­flutn­ing af sjálf­um sér í Frétta­­blað­inu og já vissu­­lega gert til­­raun­ir til að hafa áhrif á hvernig við setj­­um þær fram.“

Rúmu ári síðar skrif­aði hann leið­ara, sem reynd­ist vera nokk­urs konar upp­sagn­ar­bréf, þar sem sagði meðal ann­ars: „Það eru ýmsar aðferðir til að hola hið rit­stjórn­ar­lega sjálf­stæði að inn­an. Ein getur verið að gera sífelldar athuga­semdir við frétta­flutn­ing sem teng­ist eig­end­unum og vona að það síist inn hjá stjórn­endum rit­stjórn­ar­innar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eig­end­urna. Önnur getur verið að gera ekki beinar athuga­semdir við umfjöllun sem snýr að eig­end­un­um, heldur skrúfa upp þrýst­ing­inn vegna ann­arra mála sem snúa að rit­stjórn­inni þannig að stjórn­end­urnir skilji sam­heng­ið. Það getur þurft sterk bein til að þola slíkan þrýst­ing. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórn­un­ar­starfa á rit­stjórnum fólk sem er nægi­lega náið og hand­gengið eig­end­unum til að láta prinsipp um rit­stjórn­ar­legt sjálf­stæði ekki þvæl­ast fyrir sér­. Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum á það nefni­lega við að sá veldur sem á held­ur. Eig­andi sem vill hafa áhrif á rit­stjórn fjöl­mið­ils þarf hvorki að láta laga­bók­staf né siða­reglur stöðva sig.“ 

Eig­and­inn sem Ólafur ræddi um var Jón Ásgeir Jóhann­es­son.

Þegar fyr­ir­taka í Aur­um-­mál­inu stóð yfir í hér­aðs­dómi snemma árs 2016 lagði Jón Ásgeir fram bókun þess efnis að dóm­ar­inn í mál­inu, Símon Sig­valda­son, ætti að víkja. Ástæðan var sú að Frétta­blað­ið, þá í eigu eig­in­konu Jóns Ásgeirs, hefði fjallað um eig­in­konu dóm­ar­ans með nei­kvæðum for­merkjum einu og hálfu ári áður. Ef Jón Ásgeir stýrði ekki frétta­flutn­ingi Frétta­blaðs­ins, líkt og hann hélt ætið fram, heldur sjálf­stæð rit­stjórn, þá ætti dóm­ar­inn vart að vera honum reiður vegna þessa. Í þessu er innra ósam­ræmi. Hljóð og mynd fara ekki sam­an.

Árið 2014 var til­kynnt að vef­­síðan Eyj­an, sem var í eigu Press­unn­­ar, hefði gert sam­­starfs­­samn­ing við 365 miðla um að sjá um viku­­legan sjón­­varps­þátt um þjóð­mál undir Eyju-heit­inu. Honum yrði stýrt af Birni Inga Hrafns­­syni, aðal­­eig­anda Press­unn­ar á þeim tíma. Þetta kom öllum stjórn­end­um, og starfs­mönn­um, 365 á þessum tíma í opna skjöldu. Rík aðhalds­krafa hafði verið á allar deildir fyr­ir­tæk­is­ins og fjöl­margir færir sjón­varps­frétta­menn þegar starf­andi þar með metnað til að stýra þjóð­mála­um­ræðu­þætti sem burð­uð­ust ekki með sama traust­leys­is­far­angur og Björn Ingi. Nokkrir mis­mun­andi stjórn­endur hafa stað­fest það við mig að lang­tíma­samn­ing­ur­inn við Björn Inga, sem reynd­ist vera upp á 1,6 millj­ónir króna á mán­uði, hefði verið gerður af Jóni Ásgeiri fram hjá öllum stjórn­endum fyr­ir­tæk­is­ins.

Hér eru bara nokkur dæmi um afskipti Jóns Ásgeirs að fjöl­miðlum sem hann átti eða stýrði og ættu að vera ámæl­is­verð í huga alls hugs­andi fólks. Ekk­ert þeirra rataði í bók Ein­ars þrátt fyrir að þau séu öll opin­ber og hafi verið and­lag frétta eða ann­arra skrif­a. 

Sam­an­dregið

Það er gott að fá bækur eins og Málsvörn. Þær skjal­festa nokkuð ítar­lega upp­lifun manna af sam­tíma­at­burð­um. Það er hins vegar drag­bítur á bók­inni um Jón Ásgeir að höf­undur hennar er að skrifa um mál sem hann gengst sjálfur við að hafa hvorki mikið vit né áhuga á, við­skipti á Íslandi á árunum fyrir banka­hrun. Fyrir vikið er lítið um sjálf­stæða skoðun höf­undar á þeim sögu­skýr­ingum sem Jón Ásgeir, og sér­stak­lega valið vel­viljað fólk, halda fram við hann. 

Þegar líður á bók­ina verður á köflum óljóst hvor er að setja fram álykt­anir um atburði, höf­und­ur­inn eða við­fangs­efn­ið. Einar drekkur allt Kool-Aid-ið sem Jón Ásgeir hristir saman handa honum af slíkri áfergju að þeir renna saman í eitt. 

Það má líkja vinnslu hennar við að höf­undi hafi verið boðið inn í myrkvað her­bergi þar sem sögu­hetjan og hópur manna sem hefur grætt á honum pen­ing í gegnum tíð­ina, skipt­ust á að lýsa vasa­ljósi á ýmsa hluti innan þess og selja höf­und­inum svo hug­mynd af heild­ar­mynd her­berg­is­ins út frá því.

Að drekka Kool-Aid-ið er frasi sem notaður er yfir þá sem kyngja varasömum og illa undirbyggðum kenningum eða hugmyndum vegna þess að þeir sjá fyrir sér einhverskonar hagnað af því.
Mynd: Skjáskot

Einar gerir enga til­raun til að verða sér úti um eigið vasa­ljós eða hrein­lega standa bara upp og kveikja ljós­in.

Fyrir vikið er bók Ein­ars Kára­sonar um Jón Ásgeir Jóhann­es­son á stórum köflum meira eins og skáld­saga en eitt­hvað sem byggir á raun­veru­leik­an­um, eða í besta falli saga sem byggir laus­lega á atburðum sem áttu sér stað. En þannig er það lík­ast til oft með ævi­sög­ur. Þær segja frá þeirri útgáfu ævinnar sem við­fangs­efnið vill láta fólk halda að það hafi lif­að. 

Hún er full af val­kvæðum stað­reynd­um, fegr­un­ar­að­gerðum og ákvörð­unum um að sleppa því sem passar ekki við bjag­aða mynd sögu­hetj­unnar af sjálfum sér sem fórn­ar­lambi, ekki ger­anda. 

Fyrir vikið lendir það á okkur væni­sjúku og leið­in­legu blaða­mönn­unum að taka að okkur hlut­verk litla stráks­ins sem bendir á alls­beru þeirra félaga. 

Það er hér með gert.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit