Mynd: Bára Huld Beck

Gerandi sem telur sig fórnarlamb ber fram þunna málsvörn

Í gær kom út bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir Jóhannesson. Þar rekja þeir hvernig Jón Ásgeir hafi verið ofsóttur af illviljuðu fólki í næstum tvo áratugi með afdrifaríkum afleiðingum. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur rýnt í verkið.

Ég hef lært að ekki sé kannski rétt að vera með meira en sjö járn í eldinum, ekki áttatíu og fjögur eins og þegar mest var. Heimsveldi endast aldrei vel en eitt og eitt konungsdæmi getur lifað lengi. Og ég ætla ekki að spila sóknarbolta allan seinni hálfleikinn”.

Þetta segir Jón Ásgeir Jóhannesson við rithöfundinn Einar Kárason í nýrri bók sem sá síðarnefndi skrifar um hinn fyrrnefnda og nefnist Málsvörn

Það er ekki ofsögum sagt að þetta sé einn af fáum lærdómum sem Jón Ásgeir virðist hafa tekið með sér út úr 30 ára viðskiptaferli. Að hann ætli sér bara að vera staðbundinn kóngur seinni hluta ævinnar, ekki taka yfir heiminn.

Viðskiptaferli sem gerði Jón Ásgeir, og fylgihnetti hans, að sérstakri kerfislegri áhættu í íslensku efnahagslífi vegna þess að þeir skulduðu um tíma nánast öllum bönkum, sparisjóðum, lífeyris- og peningamarkaðssjóðum landsins meira af peningum en áður hafði þekkst. Mætur maður skrifaði einu sinni að honum fyndist stundum sem að það væru bara tvær lánastofnanir sem hafi ekki átt kröfur á Jón Ásgeir og félög sem honum tengdust eftir bankahrunið: Byggðastofnun og Lánasjóður íslenskra námsmanna. Sú síðari líklega vegna þess að Jón Ásgeir stundaði aldrei lánshæft nám.

***

Bók Einars er efnismikil og á stundum ágætlega skemmtileg aflestrar, sérstaklega þegar beinir þátttakendur í atburðum eru að lýsa þeim með ítarlegri hætti en áður hefur sést. Saga Jóns Ásgeirs er enda stórmerkileg. Ungur maður hefur verslunarrekstur með breyskum föður sem leiðir af sér viðskiptaveldi sem um tíma var með um 50 þúsund manns í vinnu og réð Tinu Turner til að syngja „Simply The Best“ á pepp-degi veldisins sem haldinn var í Mónakó.

Sú saga hefur hins vegar verið sögð ansi oft, meðal annars af Jóni Ásgeiri sjálfum, og lestur bókarinnar verður fljótt fremur þreytandi þegar á líður vegna þess að bókin sem Einar skrifaði er eintóna og endurtekningarsöm. Meginatriði þess söguþráðar sem þar er spunninn eru þau sömu og finna má á málsvarnarheimasíðu sem Jón Ásgeir setti í loftið 2017. 

Auglýsing

Fátt nýtt fréttnæmt er í henni fyrir þá sem fylgst hafa vel með Jóni Ásgeiri í gegnum tíðina. Það sést ágætlega á því að helstu fréttirnar sem ratað hafa í fjölmiðla úr bókinni siðustu daga eru annars vegar meintur vilji Gunnar Smára Egilssonar til að fá far í einkaþotu snemma á öldinni og það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið út reikning fyrir styrkjum frá FL Group til flokksins eftir á. 

Athyglisverðast er sá einbeitti vilji til að skauta stuttlega yfir stór viðfangsefni sem hafa tekið mikið pláss í íslenskri umræðu og fjalla um önnur með algjörlega ógagnrýnum hætti frá hlið viðfangsins.

Þótt rætt sé við tugi manna í bókinni þá eiga viðmælendurnir nær allir það sameiginlegt að hafa með einhverjum hætti hagnast á Jóni Ásgeiri eða eiga í vinfengi við hann. Þeir keppast flestir um að lýsa honum sem strangheiðarlegum og ærlegum manni með sterka réttlætiskennd sem standi við allt sem hann segi. Það hefði verið styrkur fyrir bókina, þótt það hefði einungis verið til málamynda, að tala við einhverja sem hafa tapað peningum á Jóni Ásgeiri, sem telja hann hafa svikið sig í viðskiptum eða halda hann hafa beitt sér til að bregða fyrir þá fæti. Nú eða bara einhverja þeirra sem ásakaðir eru um ýmiskonar óeðlilegheit í bókinni. Þeir eru ansi margir og það er ekki erfitt að fá þá til að tala. 

Sýn keypti ljósvakamiðla 365 miðla í lok árs 2017. Þau viðskipti hafa reynst félaginu afar kostnaðarsöm.
Mynd: Bára Huld Beck

Taka má tvö stutt dæmi um viðskipti þar sem mótaðilar Jóns Ásgeirs töldu sig svikna. Bæði áttu sér stað eftir hrun. Annars vegar þegar hann skaut fjölmiðlum 365 miðla út úr móðurfélagi þeirra eftir bankahrun, og inn í nýtt félag í sinni eigu (sem hét Rauðsól), með fjármunum sem hann átti ekki að hluta og með 3,7 milljarða króna tapi fyrir kröfuhafa „gamla“ 365, sem voru meðal annars lífeyrissjóðir og Landsbankinn. Yfir þessi viðskipti, sem hafa verið margupplýst í íslenskum fjölmiðlum, er skautað í bókinni með nánast kostulegum hætti og afar hliðhollri söguskýringu þar sem Jón Ásgeir er málaður upp sem frelsari frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi. Þar er til að mynda ekkert minnst á að Jón Ásgeir og þrír aðrir stjórnarmenn í 365 sömdu um að greiða skaðabætur til að sleppa undan málsókn vegna viðskiptanna, enda lá fyrir mat dómkvaddra matsmanna um að 365 hefði verið ógjaldfært þegar fjölmiðlarnir voru seldir og því hefði átt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum. 

Hægt er að lesa ítarlega um þetta mál hér, í umfjöllun Kjarnans frá árinu 2014, en hún hefst á bls. 33. Vert er að taka fram að fjármunirnir sem Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona hans, fengu fyrir 365 á endanum eru grunnurinn að endurkomu hans í íslenskt viðskiptalíf á síðasta ári. 

Hitt dæmið sprettur síðan úr þessum viðskiptum. Þegar ljósvaka- og netmiðlar 365 voru seldir til Sýnar. Í stuttu máli þá hefur Sýn stefnt Jóni Ásgeiri, Ingibjörgu og félagi þeirra til greiðslu 1,7 milljarðs króna fyrir að brjóta gegn kaupsamningi. 

Stjórnendur Sýnar meta það augljóslega sem svo að það standist ekki allt sem Jón Ásgeir segir. 

***

Inntak bókarinnar og rauði þráður hennar er að Jón Ásgeir sé ofsóttur maður. Þolandi óbilgjarnra öfundarmanna og hælbíta sem sættu sig ekki við snilld hans. Það eru nánast allir nema þeir sem voru dæmdir fyrir efnahagsbrot óheiðarlegir, vænisjúkir eða illgjarnir svartsýnisrausarar. Sumir eru allt þrennt. Saksóknarar eru óheiðarlegir, lögreglumenn eru óheiðarlegir, dómstólar eru óheiðarlegir, stjórnmálamenn eru óheiðarlegir, skilanefndir bankanna eru óheiðarlegar, fréttamenn og blaðamenn eru óheiðarlegir, gömlu heildsalafjölskyldurnar eru óheiðarlegar og Eva Joly er sérstaklega óheiðarleg. Hér er nær örugglega verið að gleyma einhverjum óheiðarlegum. 

Auglýsing

Samkvæmt bókinni er Jón Ásgeir fórnarlamb. Einar Kárason lýsir honum þannig, að þar fari maður sem hafi „farið í gegnum mikla hakkavél, mann sem hefði þurft að þola stórkostlegt mótlæti og barist gegn ofurefli eða einhverskonar skrímsli eða óvætti[...]Það var sótt að honum úr öllum áttum. Í raun er óskiljanlegt að einhver tiltekinn þjóðfélagsþegn skuli búa árum og áratugum saman við yfirlýst og ódulið hatur og fjandskap valdamestu ráðamanna í samfélaginu. Og það í réttarríki, lýðræðisþjóðfélagi.“

Tveir áður nánir samstarfsmenn Jóns Ásgeirs ná reyndar að lýsa honum á aðeins annan hátt í bókinni. Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, segir að Jón Ásgeir hafi verið ágengur maður sem hafði verið „góður að spila með bankana og örlátur á þóknanir“. Stefán Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, segir í bókinni að íslensku bankarnir hafi haft svo mikla trú á Jóni Ásgeiri að þeir hafi fengið honum í hendur meiri peninga en hægt væri að ná út úr þeim í lánum nú til dags. Hans helsti galli hafi verið tregða Jóns Ásgeirs til að selja það sem hann keypti. 

Í þessum lýsingum þeirra Lárusar og Stefáns er komist að kjarnanum í viðskiptamanninum Jóni Ásgeiri: Ágengur maður, sem spilaði með banka, var örlátur á þóknanir, bjó yfir náðargáfu til að fá óheyrilegar fjárhæðir lánaðar og seldi helst aldrei neitt sem hann keypti. Þegar hann seldi þá var það oftast til viðskiptafélaga sinna, að því er virðist í þeim tilgangi að verða sér úti um enn meira lánsfé eða til að hækka ætlað virði eignanna. 

Jón Ásgeir sagði í viðtali við Kveik vegna útkomu bókarinnar að það hefði ekki allt sem hann keypti verið lélegt. Og það er auðvitað rétt. Sumar eignir voru góðar. En rosalega margar voru lélegar og keyptar á yfirverði. 

Styrkleiki bókarinnar liggur í atvikalýsingum eins og þeim sem minnst er á hér að ofan sem, að því er virðist, stangast óvart á við þann söguþráð sem Einar og Jón Ásgeir reyna að spinna og þau áhrif sem bókinni er ætlað að hafa. Á milli þess sem Jón Ásgeir er mærður fyrir að vera séní í viðskiptum koma lýsingar sem sýna fram á hið gagnstæða, og kannski einfaldleikann sem einkennir hann. 

Lárus Welding, fyrrverandi bankastóri Glitnis, er nokkurs konar rödd skynseminnar í bókinni.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Jón Ásgeir sagði í réttarsal fyrir nokkrum árum, þar sem réttað var yfir honum í Aurum-málinu svokallaða, að „frekja og eftirfylgni er ekki glæpur“. Málið snerist um sex milljarða króna lánveitingu út úr Glitni og hvort í henni fælust umboðssvik eða ekki. Af upphæðinni var einum milljarði króna ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. 

Það var eina málið sem hann var ákærður fyrir í tengslum við hrunið. Fjölmörg önnur voru könnuð og rannsökuð en einungis þetta eina þótti þess eðlis að líkindi til sakfellingar voru talin meiri en líkindi til sýknu af ákæruvaldinu. Í málinu var Jón Ásgeir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum fyrir skuggastjórnun. Hann sendi ítrekað fyrirmæli til stjórnenda Glitnis þar sem hann, aðaleigandinn, var að segja þeim fyrir verkum varðandi lánveitingar til sín og gaf til kynna að ef honum yrði ekki hlýtt myndi það hafa afleiðingar

Á endanum var Jón Ásgeir sýknaður. Það var nú allt dómsmorðið í þessu eina hrunmáli gegn honum. Það reyndist rétt að frekja og yfirgangur sem þessi er ekki ólögleg samkvæmt niðurstöðu íslenskra dómstóla. 

Þótt athæfi Jóns Ásgeirs hafi ekki verið dæmd ólögleg þá er ekki þar með sagt að þau hafi ekki valdið samfélagslegum skaða. Og séu þess eðlis að þau megi, og eigi, að gagnrýna. Eða er það svo að allt sem er ekki beinlínis glæpur er í lagi, sama hverjar afleiðingarnar verða fyrir aðra?

Hvatinn á bakvið margt sem lýst er í bók Einars er líka flestu fólki fjarlægður. Á einum stað er til að mynda lýst ótrúlega óþroskuðu, eiginlega barnalegu, viðhorfi til viðskipta. Þar segir Lárus Welding, sem er óvænt nokkurs konar rödd jarðtengingar í bókinni, frá því hvað hafi ráðið aðkomu Jóns Ásgeirs að Glitni banka. „Björgólfsfeðgar voru í Landsbankanum. Ólafur Ólafs og Bakkavararbræður í Kaupþingi, og þess vegna fóru Jón Ásgeir og félagar að byggja sig upp í Glitni.“ 

Jón Ásgeir keypti því ekki banka vegna þess að hann hafði áhuga eða þekkingu á bankarekstri, heldur vegna þess að honum langaði í alveg eins dót og hinir freku strákarnir. Hann þurfti þetta til að ná valdajafnvægi. 

Á öðrum stað er haft eftir Jóni Ásgeiri sjálfum, þar sem hann ræðir aðkomu sína að FL Group, að það hefðu verið mistök hjá honum að gerast ráðandi hluthafi í því félagi. „Líklega var það bara græðgi að fara inn í þetta. Manni fannst kannski ekki ganga alveg nógu hratt í Baugi og ætlaði kannski að stytta sér leið með FL. Við hefðum átt að stick to our guns.“

Þetta er með heiðarlegri hlutum bókarinnar. Og eina skiptið í henni sem Jón Ásgeir viðurkennir hreint út að tær græðgi hafi stýrt honum.

***

Eftir að hafa melt bókina í kjölfar lesturs varð niðurstaðan eiginlega sú að það er ekki hægt að skrifa um hana án þess að skrifa líka um allt það sem er ekki í henni. Hina hliðina á þeim stóru málum sem Einar fjallar um en gerir nánast enga tilraun til að nálgast með gagnrýnum hætti eða með því að vinna sjálfstæða rannsókn á. Orð viðfangs og vina eru látin duga og á stundum gerir höfundur þau að sínum. 

Þar er helst um að ræða Baugsmálið svokallaða, bankahrunið, skuldsetningu hans og hin mikla aðkoma Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að íslenskum fjölmiðlum.

Baugsmálið

Rauði þráðurinn í málsvörn Jóns Ásgeirs er að hann hafi verið ofsóttur af Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, fyrir að hafa notið velgengni sem rímaði ekki við það handrit sem Davíð hafði skrifað af því frjálsa og opna Íslandi sem hann hélt sig hafa skapað. 

Óþokki sögunnar hans Jóns Ásgeirs er Davíð Oddsson. Þeir fjandmennirnir eru þó örugglega líkari en báðir myndu viðurkenna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Jón Ásgeir hefur auðvitað mikið til síns máls. Davíð og fylgihnettir hans hötuðu Jón Ásgeir eins og skæða pest og beittu sér ítrekað til að bregða fyrir hann fæti. Í bókinni er rakið að Davíð hafi talað fjálglega um það við Ólaf Ragnar Grímsson, þá forseta Íslands, snemma á þessari öld að Baugsmenn yrðu brátt komnir á bakvið lás og slá, áður en þeir höfðu verið handteknir og hvað þá ákærðir. Þar er líka farið yfir það þegar Davíð samdi sjálfur, eða lét semja fyrir sig, fjölmiðlafrumvarp sem beint var einungis gegn Jóni Ásgeiri og eignarhaldi hans á fjölmiðlum. 

Og margt var athugavert við það hvernig ákærurnar í Baugsmálinu voru smíðaðar. Þær voru allt of umfangsmiklar enda var flestum liðum þeirra vísað frá fyrir dómi. En það er gott að hafa það hugfast að Jón Ásgeir Jóhannesson hlaut dóm í Baugsmálinu. Og 2012 var hann dæmdur til refsingar og greiðslu sektar fyrir stórfelld skattalagabrot. Þótt Mannréttindadómstóll Evrópu hafi síðar komist að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki mátt refsa honum tvívegis fyrir það brot (honum hafði þegar verið gert að greiða álag og á endurálagningu vegna skattsvikanna) breytir engu um efnislega niðurstöðu þess dóms. 

Það að Davíð Oddsson hafi verið skaðræði sem í krafti mikilla valda sinna beitti þeim með óbilgjörnum hætti gegn Jóni Ásgeiri, og reyndar ýmsum öðrum, gerir Jón Ásgeir ekki að góða karlinum í þessari sögu. Hann tók ekki síður fast á móti í þeirri baráttu, sem leiddi til þess að íslensku samfélagi var um langt skeið haldið í heljargreipum sjúklegrar pissukeppni tveggja valdakarla, annars sem sat í forsætisráðuneytinu og hins sem sat á áður óséðri peningahrúgu, þar sem fótgönguliðar þeirra ömuðust við að stilla sem flestum upp í annað hvort lið Bláu handarinnar eða Baugsliðið. Aðrir á þessum vígvelli, þar með talið venjulegt fólk, var ófyrirséður en réttlætanlegur skaði.

Þeir eru nefnilega glettilega líkir á margan hátt, Davíð og Jón Ásgeir, þegar grannt er skoðað. Og báðir hafa þeir ríka þörf til að reyna að endurskrifa söguna sér í hag. Davíð hefur gert það daglega úr ritstjórnarstóli í rúman áratug. Jón Ásgeir reynir að gera það með því að fá virtan rithöfund til að skrifa málsvörn sína í bókarformi. 

Bókin er því, kannski eðlilega, ansi sjálfhverf. Það er eins og áratugur í lífi þjóðar hafi aðallega snúist um Jón Ásgeir og Davíð Oddsson. 

Þorri almennings hélt þó með hvorugum, og hafði margt annað við tíma sinn að gera en að skilgreina allt samfélagið út frá ósætti þeirra tveggja. Sumar sögur eru nefnilega þannig að það eru engar hetjur, bara skúrkar. Svo er vissulega hægt að rífast um hver sé mesti skúrkurinn. 

Hrunið

„Þarna náði hann okkur,“ segir Jón Ásgeir um hrunið í bókinni og átti þar við Davíð Oddsson, sem áfram er í stóru hlutverki þegar frásögnin færir sig yfir í hrunið. Svo virðist sem að hann telji að heift eins manns í sinn garð hafi verið ráðandi breyta í því að heilt bankakerfi hafi hrunið yfir íslenskt samfélag. Og nær þar með að sýna fram á sjálfhyggju í áður óþekktum hæðum. 

Jón Ásgeir eyddi miklum tíma í réttarsal vegna svokallaðra hrunmála. Hann var ekki sakfelldur fyrir nein lögbrot í tengslum við hrunið.
Mynd: Kjarninn

Það kemur kannski ekki neinum sérstaklega á óvart en Jón Ásgeir er ekki sammála þeirri almennu söguskýringu um ástæður bankahrunsins sem meðal annars er sett fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ýmsum ritum fræðimanna eða blaðamanna sem skoðað hafa mál sjálfstætt, gagnrýnið og út frá gögnum. Þ.e. að menn með enga bankareynslu og teygjanlega siðferðiskennd en mikinn áhuga á skuldsettum yfirtökum hafi, ásamt sofandi stjórnmálamönnum og lélegum eftirlitsstofnunum, búið til vítisvél á nokkrum árum sem hafi svo hrunið yfir íslenskan almenning með látum haustið 2008. 

Í bók Einars kemur nokkuð skýrt fram að Jón Ásgeir hefur þá skoðun að bankakerfið hefði ekkert þurft að falla. Ef eitthvað annað fólk en hatursmenn hans hefðu verið í ákvörðunartöku á embættismanna- og stjórnmálahliðinni hefði verið hægt að stunda betri vinnubrögð og markvissari aðgerðir þegar hrunið blasti við. Á einum stað segir hann: „Eftir á að hyggja þá er ég viss um að þetta hefði ekki farið svona illa ef Ingibjörg Sólrún hefði verið á staðnum.“ Hvað þáverandi utanríkisráðherra, sem glímdi við erfið veikindi og var erlendis vegna þeirra þessa örlagaríku daga, hefði átt að gera til að koma í veg fyrir bankahrun er ekki sérstaklega skýrt í bókinni. 

Þar segir hins vegar að Jón Ásgeir telji að ef gert hefði verið „svipað og í Bandaríkjunum réttum tveimur vikum fyrr þegar menn sáu fram á fall Lehman, að allir bankamenn og sérfræðingar hefðu verið kallaðir inn til fundar í Seðlabankanum og sagt að fara ekki þaðan út fyrr en ljóst væri að skástu lausnir hefðu fundist – öllum hefði verið falið að vinna saman til að bjarga kerfinu – þá hefði kannski mátt minnka skaðann mikið[...]Hefðu menn skoðað málin af fullu viti og algerri fagmennsku, þá hefðu þau aldrei klúðrast jafn herfilega og þau gerðu.“ 

Til viðbótar segir hann að kröfuhafar sínir hafi gert mikil mistök með því að leyfa hinu svokallaða Project Sunrise að verða ekki að veruleika. Það hefði þýtt að í stað þess að setja Baug í þrot yrði félaginu breytt í nokkurskonar eignastýringarfyrirtæki undir stjórn Jóns Ásgeirs, þrátt fyrir að vera gjaldþrota. Þannig ætlaði hann á nokkrum árum að sjá til þess að eignir Baugs myndu duga fyrir skuldum og það sem eftir stæði fengi hann í eigin vasa. Ótrúlegt en satt þá treystu íslensku kröfuhafar honum ekki í verkefnið. Um það hvað fékkst mikið upp í lýstar kröfur í þrotabú Baugs má lesa hér aðeins neðar. Skiptastjóri Baugs sagði síðar að félagið hefði verið ógjaldfært snemma á árinu 2008, löngu áður en bankarnir hrundu og um ári áður en Baugur varð endanlega úrskurðað gjaldþrota. Þegar gjaldþrotakrafan var lögð fram sögðu lögmenn stærstu kröfuhafa auk þess að stjórnendur Baugs hefðu beitt blekkingum með því að gefa rangar og villandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Eigið fé væri í raun neikvætt á þessum tíma um 148 milljarða króna. 

Nú er vert að benda á að stjórnendur allra stærstu bankanna á Íslandi hafa hlotið dóm fyrir markaðsmisnotkun sem er einsdæmi á heimsvísu. Í henni fólst að þeir héldu handvirkt uppi virði hlutabréfa í bankanum með því að lána vildarvinum og starfsmönnum ótrúlegar fjárhæðir til að kaupa bréfin, í flestum tilfellum þannig að áhættan sat öll eftir hjá bankanum. 

Jón Ásgeir virðist raunar hafa verið að fullu meðvitaður um þessa stöðu. Haft er eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í bókinni að „Kaupþingsmennirnir réðu að sjálfsögðu Kaupingi; í þeirra röðum voru Bakkvararbræður, en Sigurjón segir að sumir hafi talið að þeir hafi í rauninni bara setið á hlutabréfum í bankanum sem bankinn átti sjálfur; hann hafi heyrt Jón Ásgeir kalla þá „bréfberana“ með tilvísun til þess.“

Þetta hafði staðið yfir árum saman samhliða ótrúlegu útlánaaustri til stærstu eigenda bankanna sem gerðu það að verkum að til varð tifandi kjarnorkusprengja í íslenska fjármálakerfinu, sem var orðið margfalt stærra en árleg íslensk þjóðarframleiðsla. Það var ljóst að ríkið eða seðlabankinn gátu ekki stutt við þessi spilavíti ef illa færi. Ef einn banki færi, færu allir. Og seinni tíma skoðun hefur auðvitað sýnt að bankarnir voru í raun löngu farnir. 

Auglýsing

Páll Harð­ar­son, þá for­stjóri Kaup­hallar Íslands, lýsti þess­ari stöðu sem upp var komin við hrunið ágæt­lega í grein á Kjarn­anum í byrjun apr­íl 2016. Þar sagði hann meðal ann­ars að mjög vafa­samir starfs­hættir hafi við­geng­ist fyrir hrun. „Alvar­­leg lög­­brot voru fram­in. Afleitir við­­skipta­hættir kostuð­u gríð­­ar­­lega fjár­­muni og mikla þján­ingu. Stór­­kost­­leg mark­aðs­mis­­­notkun átti sér­ ­stað. Trú á mark­aðs­hag­­kerfið og hið frjálsa fram­­tak hefur beðið hnekki.“

Þennan hóp sem bjó til ofangreinda stöðu vildi Jón Ásgeir setja saman inn í herbergi og láta leysa þau vandamál sem íslenskt efnahagskerfi stóð frammi fyrir í hruninu. 

Blessunarlega bar okkur gæfa til að gera það ekki. 

Skuldsettar yfirtökur

Það er ágætt að hafa í huga að samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skulduðu félög tengd Jóni Ásgeiri og Baugi yfir þúsund milljarða króna þegar bankarnir hrundu. Ýmsir sem það hafa skoðað telja skuldirnar hafa verið enn meiri. Sjálfur hefur hann ítrekað gagnrýnt þessa framsetningu.

Allir hljóta þó að vera sammála um að skuldirnar voru óheyrilega miklar. Þær voru líka svo víða, og í gegnum svo mörg félög (hann kom að rekstri 84 félaga þegar mest lét), að Jón Ásgeir var orðinn að sjálfstæðri kerfisáhættu fyrir Ísland. Þetta fékk meðal annars að gerast vegna þess að skilgreiningar á tengdum aðilum voru eins og atriði úr Monthy Python-mynd. Jón Ásgeir og eiginkona hans voru til að mynda ekki skilgreind sem tengd. 

Öll þessi staða gerði það að verkum að ef hann og Baugur myndu falla, félli öll spilaborgin með. 

Í skýrslunni stendur orðrétt: Rannsóknarnefnd Alþingis telur að samþjöppun áhættu hjá íslensku bönkunum hafi verið orðin hættulega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði á þetta við um lánveitingar til ákveðinna hópa innan hvers banka en jafnframt að sömu hópar hafi myndað stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum hafi kerfisleg áhætta vegna útlána verið orðin veruleg. Skýrasta dæmið um þetta er Baugur Group og fyrirtæki honum tengd. Í öllum þremur stóru bönkunum og Straumi-Burðarási var Baugshópurinn orðinn of stór áhætta. Það er ámælisvert að áhættustýringar bankanna hafi leyft þessari áhættu að byggjast upp. Fyrir utan þá miklu áhættu sem hver banki bar vegna Baugshópsins mátti öllum bönkunum vera ljóst að skuldsetning hópsins í öðrum bönkum væri einnig veruleg. Í öllum bönkunum virðast lausnir á þessum vanda hafa miðast að því að rökstyðja fyrir eftirlitsaðilum að ekki væri um mikla samþjöppun áhættu að ræða fremur en að horfa til raunverulegrar áhættu og reyna að draga úr henni“. 

Jón Ásgeir segir í bókinni að hann hafi ekki keypt stóran hlut í Glitni til að „til að hola hann að innan“. En á svipuðum stað segir hann hins vegar líka að honum hafi verið mikið í mun að komast til áhrifa í Glitni vegna þess að helstu keppinautar hans hefðu verið eigendur hinna bankanna tveggja. Ef eigendur Landsbankans hefðu „hert tökin“ hefði þeir getað gert honum erfitt fyrir um lán þar. Sama ætti við um Kaupþing. „Þess vegna fór hann að kaupa í Glitni.“  

Þegar skaðinn af starfsemi Jóns Ásgeirs fyrir aðra er metinn má benda á nokkra hluti. Í fyrsta lagi gjaldþrot félaga honum tengdum. Þegar skiptum á Baugi Group lauk sumarið 2019 kom í ljóst að 2,7 prósent hafði fengist upp í 424 milljarða króna lýstar kröfur. 

Jón Ásgeir og Baugur eru á meðal helstu umfjöllunarefna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sem kom út í apríl 2010.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar skiptum lauk í Gaumi, fjölskyldufélagi Jóns Ásgeirs, árið 2016 kom í ljós að 14,8 milljónir króna fengust upp í almennar kröfur í búið, sem námu 38,7 milljörðum króna. Alls fengust því 0,067 prósent upp í almennar kröfur í búið. Skömmu áður var einnig greint frá því að BG-fasteignir, sem hafði verið í eigu Baugs Group, hefði verið gert upp. Þar námu kröfurnar 17 milljörðum króna en um ein milljón króna fékkst upp í þær. 

Þetta eru einungis þrjú dæmi af mörgum um afleiðingar fyrirtækjarekstrar Jóns Ásgeirs. 

Peningamarkaðssjóðir Landsbankans, Glitnis og Kaupþings voru troðfullir af bréfum frá Baugi og FL Group. Þeir sem „áttu“ þá sjóði voru að stóru leyti venjulegt fólk sem hvatt hafði verið til að setja sparnað sinn í arðbærari ávöxtun. En endaði með að tapa hluta af sparnaði sínum þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ákveðið að dæla um 130 milljörðum króna inn í peningamarkaðssjóðina til að laga stöðu þeirra. Jón Ásgeir neitaði því í nýlegu viðtali við Kveik að þessir sjóðir hefðu verið svikamylla. Lesendur eru hvattir til að lesa um þá hér og taka upplýsta ákvörðun um hvað þeim finnst um málið.

Í skýrslu um starfsemi lífeyrissjóða í aðdraganda hrunsins, sem birt var snemma árs 2012, kom fram að Baugur og tengdir aðilar hefðu tapað 77,2 milljörðum króna af peningum lífeyrissjóða landsmanna. 

Það töpuðu því margir miklu á Jóni Ásgeiri og veldi hans.

Hér er látið vera, þar sem þessi grein er þegar allt of löng, að fara yfir furðufléttur á borð við þá sem ofin var í kringum tilurð 1998 ehf., NTH/Sterling-málið, Skeljungssölurnar, Stím, Sólin Skín og Styttu, svo fáeinar séu nefndar. Eða nýtingu félaga tengdum Jóni Ásgeiri á Byr og SPRON. Eða um raunveruleikann í kringum Panama-starfsemi þeirra hjóna (sjá hér, hér og hér). En áhugasamir eru hvattir til að nýta sér hlekkina í þessari efnisgrein vilji þeir kafa dýpra ofan í þau mál.

Auglýsing

Lærdómurinn sem Jón Ásgeir hefði getað dregið af fyrra lífi sínu í viðskiptum er að það hentar honum ekki að sýsla með almenningshlutafélög, vegna þess að hann á mjög erfitt með að setja sig í spor hinna hluthafanna og horfa til annarra hagsmuna en sinna eigin. Frekjan og græðgin ræður ávallt för. Þeir sem verða fyrir honum eru ófyrirséður en réttlætanlegur skaði.

Þann lærdóm hefur hann augljóslega ekki dregið þegar horft er til endurkomu hans í íslenskt viðskiptalíf. Það er nefnilega ekki einungis hann af holdi og blóði sem er að koma til baka. Hann er að koma með skuldsetta yfirtökuformið með sér, eins og sást nýverið þegar hann komst til meirihlutaáhrifa í almenningshlutafélaginu Skeljungi með hætti sem fór vægast sagt illa í suma lífeyrissjóðina sem áttu þar stóra hluti fyrir. 

Fjölmiðlar

Að lokum er vert að fjalla um aðkomu Jóns Ásgeirs að fjölmiðlarekstri á Íslandi, en hann var meira og minna eigandi eða stjórnandi stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar. Það ferli byrjaði með því að hann keypti Fréttablaðið en síðar bætti hann við sig sjónvarps- og útvarpsstöðvum, fleiri prentmiðlum og ýmsum vefmiðlum. 

Í bókinni segir Jón Ásgeir að hann hafi aldrei skipt sér að ritstjórn Fréttablaðsins. Til að barna þá hugmynd ræðir höfundur bókarinnar við einn gamalreyndan og prýðilegan blaðamann sem lengi vann á miðlum í eigu Jóns Ásgeirs sem sagðist aldrei hafa fundið fyrir honum. Vert er að taka fram að enginn ástæða er til að rengja þá upplifun blaðamannsins. En á það verður líka að benda að hann hefur ekki verið stjórnandi á þessum miðlum og ekki sinnt umfjöllun um viðskipti, efnahagsmál eða dómsmál að jafnaði. Því er afskiptaleysi Jóns Ásgeirs af þessum eina blaðamanni ekki sönnun þess að hann hafi ekki beitt sér innan fjölmiðla sinna. Því það gerði hann. 

Til er fullt af dæmum um óeðlileg afskipti Jóns Ásgeirs að fjölmiðlum sem hann átti. Það svæsnasta, og ein mesta misnotkun á fjölmiðli í Íslandssögunni, var átta síðna auka­blað sem gefið var út um ákær­urnar í Baugs­mál­inu á sínum tíma. Við hvern ákæru­lið voru hengdar athuga­semdir sak­born­inga þar sem þeir sögðu allt málið vera þvælu. Samhliða voru birt drottningarviðtöl við Jón Ásgeir og Jóhannes, föður hans, í blaðinu. Viðtölin voru send út til lögfræðinga þeirra til yfirlestrar áður en þau voru birt, sem var í andstöðu við siðareglur Fréttablaðsins. 

Hvaða sakborningi, í nokkru máli fyrr eða síðar, hefur verið boðið svona lagað í Íslandssögunni? Svarið er engum öðrum. Heldur virkilega einhver að það sé tilviljun að um eiganda blaðsins var að ræða?

Fréttablaðið varð að stórveldi í íslenskum fjölmiðlaheimi á meðan að Jón Ásgeir Jóhannesson átti það. Blaðið má muna fífil sinn fegurri og lestur þess í dag er einungis brot af því sem hann var á fyrsta áratug aldarinnar.
Mynd: Bára Huld Beck

Stjórn 365 miðla, skipuð fulltrúum eigenda, setti blaða- og fréttamönnum sínum síðar nýjar siðareglur. Á meðal þess sem þær áttu að gera var að taka mið af gildum 365. Eitt þeirra var arðsemi. Í lögum um fjölmiðla segir að fjölmiðlaveita sem sinnir fréttaskrifum eigi að „setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök.“ Ekkert er um það í lögum að blaðamenn eigi að láta arðsemisvæntingar eigenda stýra siðferðisvitund sinni. Enda slíkt ómögulegt. Það að eigendur 365 hefði dottið þetta í hug, að tengja siðareglur við arðsemi, lýsir þó ákveðnu viðhorfi til fjölmiðla, sem hefur ekkert með eðlilegt hlutverk þeirra að gera. 

Í þeim siðareglum sem samdar voru af stjórn 365 stóð meðal annars að sú meginregla gilti að „aðilar umfjöllunarefnis eiga rétt á að koma að sínum sjónarmiðum sem og að njóta verndar frá ómálefnalegri og ólöglegri umfjöllun.“ Þegar greinarhöfundur starfaði hjá 365 um tíma var það upplifun hans að Jón Ásgeir túlkaði þetta ákvæði siðareglnanna, sem fulltrúar hans í stjórn settu, á þann hátt að hann ætti óskoraðan rétt til að hengja hreinar athugasemdir við allar fréttir sem skrifaðar yrðu um hann. Svipað og hann fékk að gera þegar ákærurnar í Baugsmálinu voru birtar. 

Vert er að taka fram að ég sagði upp störfum hjá 365 fyrir nú átta árum síðan, vegna ágreinings sem stafaði upphaflega um þessa túlkun, en vatt síðar verulega upp á sig þegar ljóst var að ekki var um einsdæmi að ræða. 

Þá upplýsti ritstjóri Fréttablaðsins á þeim tíma, Ólafur Stephensen, mig um að stutt frétt sem hafði birst í blaðinu nokkrum mánuðum áður um að félag í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs hefði ekki skilað ársreikningum árum saman (sem er ólöglegt) hefði leitt til þess að Jón Ásgeir hefði krafist þess að ég yrði rekinn. Ekki vegna þess að fréttin væri röng eða að ekki hafi verið reynt að nálgast sjónarmið andlags hennar, heldur vegna þess að hún var sögð. Síðar staðfesti sami ritstjóri að þetta væri ekki í eina skiptið sem eigandinn hefði farið fram á brottrekstur minn. Í kjölfarið sagði ég upp, enda ekkert vit í því að vinna fyrir fólk sem vill ekki hafa þig í vinnu. 

Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Hann er í dag framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Mynd: Hringbraut

Ólafur fór á þessum tíma í viðtal á Bylgjunni og sagði: „Ég get bara sagt það að ég kann­ast al­veg við það að Jón Ásgeir hafi verið mjög ósátt­ur við frétta­flutn­ing af sjálf­um sér í Frétta­blaðinu og já vissu­lega gert til­raun­ir til að hafa áhrif á hvernig við setj­um þær fram.“

Rúmu ári síðar skrifaði hann leiðara, sem reyndist vera nokkurs konar uppsagnarbréf, þar sem sagði meðal annars: „Það eru ýmsar aðferðir til að hola hið ritstjórnarlega sjálfstæði að innan. Ein getur verið að gera sífelldar athugasemdir við fréttaflutning sem tengist eigendunum og vona að það síist inn hjá stjórnendum ritstjórnarinnar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eigendurna. Önnur getur verið að gera ekki beinar athugasemdir við umfjöllun sem snýr að eigendunum, heldur skrúfa upp þrýstinginn vegna annarra mála sem snúa að ritstjórninni þannig að stjórnendurnir skilji samhengið. Það getur þurft sterk bein til að þola slíkan þrýsting. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórnunarstarfa á ritstjórnum fólk sem er nægilega náið og handgengið eigendunum til að láta prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði ekki þvælast fyrir sér. Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum á það nefnilega við að sá veldur sem á heldur. Eigandi sem vill hafa áhrif á ritstjórn fjölmiðils þarf hvorki að láta lagabókstaf né siðareglur stöðva sig.“ 

Eigandinn sem Ólafur ræddi um var Jón Ásgeir Jóhannesson.

Þegar fyrirtaka í Aurum-málinu stóð yfir í héraðsdómi snemma árs 2016 lagði Jón Ásgeir fram bókun þess efnis að dómarinn í málinu, Símon Sigvaldason, ætti að víkja. Ástæðan var sú að Fréttablaðið, þá í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs, hefði fjallað um eiginkonu dómarans með neikvæðum formerkjum einu og hálfu ári áður. Ef Jón Ásgeir stýrði ekki fréttaflutningi Fréttablaðsins, líkt og hann hélt ætið fram, heldur sjálfstæð ritstjórn, þá ætti dómarinn vart að vera honum reiður vegna þessa. Í þessu er innra ósamræmi. Hljóð og mynd fara ekki saman.

Árið 2014 var tilkynnt að vef­síðan Eyjan, sem var í eigu Pressunn­ar, hefði gert sam­starfs­samn­ing við 365 miðla um að sjá um viku­legan sjón­varps­þátt um þjóðmál undir Eyju-heit­inu. Honum yrði stýrt af Birni Inga Hrafns­syni, aðal­eig­anda Pressunn­ar á þeim tíma. Þetta kom öllum stjórnendum, og starfsmönnum, 365 á þessum tíma í opna skjöldu. Rík aðhaldskrafa hafði verið á allar deildir fyrirtækisins og fjölmargir færir sjónvarpsfréttamenn þegar starfandi þar með metnað til að stýra þjóðmálaumræðuþætti sem burðuðust ekki með sama traustleysisfarangur og Björn Ingi. Nokkrir mismunandi stjórnendur hafa staðfest það við mig að langtímasamningurinn við Björn Inga, sem reyndist vera upp á 1,6 milljónir króna á mánuði, hefði verið gerður af Jóni Ásgeiri fram hjá öllum stjórnendum fyrirtækisins.

Hér eru bara nokkur dæmi um afskipti Jóns Ásgeirs að fjölmiðlum sem hann átti eða stýrði og ættu að vera ámælisverð í huga alls hugsandi fólks. Ekkert þeirra rataði í bók Einars þrátt fyrir að þau séu öll opinber og hafi verið andlag frétta eða annarra skrifa. 

Samandregið

Það er gott að fá bækur eins og Málsvörn. Þær skjalfesta nokkuð ítarlega upplifun manna af samtímaatburðum. Það er hins vegar dragbítur á bókinni um Jón Ásgeir að höfundur hennar er að skrifa um mál sem hann gengst sjálfur við að hafa hvorki mikið vit né áhuga á, viðskipti á Íslandi á árunum fyrir bankahrun. Fyrir vikið er lítið um sjálfstæða skoðun höfundar á þeim söguskýringum sem Jón Ásgeir, og sérstaklega valið velviljað fólk, halda fram við hann. 

Þegar líður á bókina verður á köflum óljóst hvor er að setja fram ályktanir um atburði, höfundurinn eða viðfangsefnið. Einar drekkur allt Kool-Aid-ið sem Jón Ásgeir hristir saman handa honum af slíkri áfergju að þeir renna saman í eitt. 

Það má líkja vinnslu hennar við að höfundi hafi verið boðið inn í myrkvað herbergi þar sem söguhetjan og hópur manna sem hefur grætt á honum pening í gegnum tíðina, skiptust á að lýsa vasaljósi á ýmsa hluti innan þess og selja höfundinum svo hugmynd af heildarmynd herbergisins út frá því.

Að drekka Kool-Aid-ið er frasi sem notaður er yfir þá sem kyngja varasömum og illa undirbyggðum kenningum eða hugmyndum vegna þess að þeir sjá fyrir sér einhverskonar hagnað af því.
Mynd: Skjáskot

Einar gerir enga tilraun til að verða sér úti um eigið vasaljós eða hreinlega standa bara upp og kveikja ljósin.

Fyrir vikið er bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir Jóhannesson á stórum köflum meira eins og skáldsaga en eitthvað sem byggir á raunveruleikanum, eða í besta falli saga sem byggir lauslega á atburðum sem áttu sér stað. En þannig er það líkast til oft með ævisögur. Þær segja frá þeirri útgáfu ævinnar sem viðfangsefnið vill láta fólk halda að það hafi lifað. 

Hún er full af valkvæðum staðreyndum, fegrunaraðgerðum og ákvörðunum um að sleppa því sem passar ekki við bjagaða mynd söguhetjunnar af sjálfum sér sem fórnarlambi, ekki geranda. 

Fyrir vikið lendir það á okkur vænisjúku og leiðinlegu blaðamönnunum að taka að okkur hlutverk litla stráksins sem bendir á allsberu þeirra félaga. 

Það er hér með gert.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit